132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Hlutafélög.

684. mál
[16:54]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var svo flókið mál að það var ekki nema von að hæstv. ráðherra fipaðist á stundum í að lesa þessa smíð. Ég hjó eftir að hæstv. ráðherra greindi frá því að hluti af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu varðaði Nýsköpunarsjóð. Meðal annars átti að breyta ákvæðum um hann til að gera honum kleift að nýta það fé sem hann á að fá af svokölluðum Landssímasjóði til að geta tekið þátt í samlagshlutafélögum með hugsanlega öðrum fyrirtækjum eða stofnunum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra af hreinum ókunnugleika hvort þessi ákvæði frumvarpsins séu lögð fram í einhverjum tengslum við þær breytingar á hlutverki Byggðastofnunar og Iðntæknistofnunar sem kynntar hafa verið síðustu dægur.