132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:12]
Hlusta

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir undirtektir hans við þessa þingsályktunartillögu en um leið var hann eiginlega að slá hana af og leggur til að við komum með annað mál fram og ýtum þessu til hliðar.

Ég sagði áðan að ég myndi ekki hversu oft ég hefði flutt þetta hér á Alþingi og það er bara með þetta eins og annað sem snýr að þessu máli. Eins og ég sagði áðan þá er hjónabandið talið vera hornsteinn þjóðfélagsins og mér finnst ekki vera nægjanlega horft til þeirrar staðreyndar. Hvort það er í tekjutengingu í hinu sérkennilega og óskiljanlega kerfi Tryggingastofnunar ríkisins eða hvað þá hlýtur það að koma fram í þeirri vinnu sem við leggjum hér til að verði unnin. Þetta mál, hvort sem hér er um öryrkja eða heilbrigðan mann að ræða þá eiga þeir auðvitað að sitja jafnir að og eins og við getum hér um í þingsályktunartillögunni að hvort sem um er að ræða einstæða móður eða aðra þá ætlumst við ekki til þess að þeirra kjör séu með nokkrum hætti skert og teljum að það sé af hinu góða að hagsmuna þeirra sé gætt.

Ég tek alveg undir það, það þarf auðvitað að skoða þetta mál líka. En það gerist ekki með því ef við þingmenn erum hér að vingsa málum til og frá, þá vinnst ekki neitt. Ég held að þetta mál sé mjög brýnt og byrjum á því, hv. þm. Helgi Hjörvar, og sjáum svo hvort ekki er hægt að stilla strengi saman þannig að þetta mál verði til öndvegis fært.