132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staða hjóna og sambúðarfólks.

69. mál
[17:14]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil á engan hátt vísa þessu máli frá og þykir nokkuð til um þrautseigju hv. þingmanna að flytja það hér ár eftir ár og raunar einkennilegt um margt um starfshætti Alþingis að jafnsjálfsagt mál sem flutt er af þingmönnum stjórnarliðsins skuli ekki einu sinni getað náð fram að ganga þó að þau séu flutt ítrekað. Ég held að þessi skoðun sé sannarlega þörf en bendi hv. þingmanni einfaldlega á að við getum engu að síður þegar gripið til aðgerða til að hafa áhrif á kjör hundruða eða þúsunda Íslendinga í þessu efni og spyr þingið og hv. þingmann hvort það séu ekki leifar frá liðinni tíð að hugsa um hjónabandið þannig að ef annað hjónanna verður til að mynda öryrki til lífstíðar þá eigi framfærsluskylda hans að hvíla á makanum og öryrkinn aðeins að fá liðlega 40 þús. kr. á mánuði í bætur sér til framfærslu. Og hvort það sé ekki skoðun okkar á 21. öldinni að hver og einn einstaklingur eigi sjálfstæðan rétt til mannsæmandi lífs og ákveðinnar reisnar í daglegu lífi sínu og hvort við eigum ekki einmitt í þágu hjónabandsins, sem hv. þingmaður ber fyrir brjósti, að afnema tengingar við tekjur maka í örorkulífeyriskerfinu og hugsanlega í fleiri bótakerfum sem við höfum, auk þess að fara í þá skoðun sem hv. þingmenn eru hér að leggja til.