132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Rannsóknamiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

223. mál
[17:35]
Hlusta

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu sem er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna möguleika á stofnun alþjóðlegrar rannsóknamiðstöðvar á Íslandi sem hafi það meginhlutverk að þróa aðferðir við rannsóknir á hnignun lands, jarðvegsrofi og endurheimt landgæða. Rannsóknamiðstöðin hafi jafnframt það hlutverk að miðla þekkingu á þessu sviði, m.a. til vísindamanna frá þróunarlöndum ....“

Ég legg mikla áherslu á að þessi rannsóknamiðstöð verði í Gunnarsholti.

Með þessari þingsályktunartillögu er greinargerð, með leyfi forseta:

„Ísland hefur þá sérstöðu að hafa glatað stærri hluta af þeim auðlindum sem felast í gróðri og jarðvegi en flestar ríkar þjóðir.“ — En gróður og jarðvegur eru auðvitað auðlindir landa. — „Íslendingar eiga sér jafnframt óvenjulanga sögu hvað varðar stöðvun jarðvegseyðingar og endurreisn landgæða.“

Ísland staðfesti sáttmála um varnir gegn eyðingarmyndun árið 1997. Íslendingar hafa samt sem áður ekki tekið nægilega virkan þátt í slíku starfi á alþjóðavettvangi sem er í mótsögn við mikla þekkingu okkar á þessu sviði. Íslendingar eru öflugir þátttakendur í alþjóðastarfi á öðrum sviðum þar sem sérstaða landsins er mikil í tengslum t.d. við eldvirkni, jarðhita og fiskveiðar. Þetta samstarf veitir bæði hvatningu og leiðsögn um það hvernig unnt er að nýta sérstöðu Íslands hvað varðar vernd og endurreisn landkosta í alþjóðlegu samstarfi. Mikils er um vert að búa svo að faglegu landgræðslustarfi að unnt sé að taka þátt í öflugu, alþjóðlegu vísindastarfi á þessu sviði. Einkum er mikilvægt að hingað geti komið sérfræðingar frá þróunarlöndunum til þess að afla sér þekkingar og nýrra viðhorfa á sviði endurreistra landgæða.

Landgræðsla ríkisins er elsta stofnun í heimi á þessu sviði en skipulögð barátta gegn uppblæstri lands hófst hér árið 1907, áratugum fyrr en í öðrum löndum. Þess vegna er Landgræðsla ríkisins elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum.

Mikil þekking og reynsla hefur safnast saman um leiðir til að stöðva jarðvegsrof og endurreisa landkosti. Við eigum því miklu að miðla til annarra þjóða á þessum sviðum. Það kom m.a. vel í ljós þegar verkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins um rannsóknir á jarðvegsrofi og leiðir til að „lesa landið“ fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998.

Hnignun landgæða er gríðarlegt vandamál í heiminum. Þessi vandi vex stöðugt og mun hafa mikil áhrif á ástand heimsmála næstu árin ef ekki tekst að efla varnir gegn eyðingaröflunum og vinna af meiri krafti að landbótum. Vandamálin eru erfiðust og verst þar sem hagur íbúanna er bágastur, t.d. á jaðarsvæðum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Vegna aðstæðna hér á landi hafa Íslendingar óvenjugóða möguleika á að rannsaka landhnignun og leiðir til úrbóta miðað við t.d. aðrar Evrópuþjóðir.

Til þess að svo megi verða þarf að auka og samræma faglegt starf við verndun og endurreisn landkosta á Íslandi með áherslu á alþjóðlegt samstarf. Því er hér lagt til að komið verði á fót alþjóðlegri rannsóknamiðstöð á þessu sviði. Rannsóknamiðstöðin hafi m.a. bein tengsl við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskóla Íslands. Slík miðstöð gæti lagt mikla þekkingu af mörkum til þjóða sem berjast gegn eyðingu gróðurs og jarðvegs.

Ég lagði þessa þingsályktunartillögu fram á 127. löggjafarþingi og síðan hef ég endurflutt hana í tvígang. Eins og þingmenn vita og forseti er ástand jarðvegsauðlindarinnar á Íslandi með þeim hætti að gervitunglamyndir sýna að landið okkar er því miður að fjúka burt. Það er hraðfara jarðvegsrof sem er talið vera um 17% landsins og þegar við skyggnumst í tölur kemur í ljós að neðan 500 metra yfir sjávarmáli er um mikið jarðvegsrof að ræða á um 8% landsins og um töluverða gróður- og jarðvegseyðingu að ræða á um 25% landsins. Um 32% lands sem er yfir 500 metra yfir sjávarmáli þarfnast landgræðslu og skógræktar.

Ég talaði hér áðan í greinargerðinni um eyðimerkursáttmála sem við erum aðilar að. Sá sáttmáli var gerður árið 1994 og tók gildi árið 1997. Markmið þessa sáttmála er að bæta landnýtingu og koma í veg fyrir uppblástur og skapa möguleika á alþjóðsamstarfi á þessum sviðum, sérstaklega varðandi rannsóknir og fræðslu. Það er einmitt utanríkisráðuneytið sem fer með þetta málefni og þennan samning hér á landi. Fjölmargir vísindamenn hafa gefið þessari tillögu gaum og unnið út frá henni og reyndar ýmsu öðru. Bæði Ása L. Aradóttir og Ólafur Arnalds lögðu til árið 1987 að komið yrði á laggirnar alþjóðlegri rannsóknarmiðstöð í jarðvegsvernd og endurheimt vistkerfa og þáverandi forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, lagði þessu máli lið. Þá hefur einnig vísindamaðurinn Freysteinn Sigurðsson fjallað oft og vel um þetta á Oddastefnum og reyndar víðar, hann fjallaði líka um þessi mál á umhverfisþingi 2005. Einnig hefur verið fjallað um þessa tillögu í stefnumótun Rangárþings og Mýrdalshrepps fyrir árin 2005–2010, en markmið okkar er að koma upp náttúrufræðisetri á þessum sviðum og Gunnarsholt er kjörinn vettvangur í þeim efnum.

Það kom einnig fram hjá mér í greinargerðinni að Jarðhitaskóli Orkustofnunar eða Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna, eins og við köllum hann oft, sem er á vegum Orkustofnunar, hefur verið hér starfræktur um nokkurt skeið og þar er unnið gríðarlega gott starf á þessum alþjóðlega vettvangi. Sjávarútvegsskólinn hefur verið starfræktur hér síðan 1998 og þar er einnig unnið gríðarlega gott starf og í Gunnarsholti eru aðstæður kjörnar til að vinna að þessu máli. Það er mikill áhugi og stuðningur á Suðurlandi fyrir háskólamenntun, þá erum við líka að tala um að svona alþjóðastofnun væri nokkurs konar skóli eins og ég er að benda á með jarðhitaskólann og eldfjallaskólann o.fl.

Við viljum gjarnan vinna vísindalegt starf á þessum sviðum í Gunnarsholti. Þar er fyrir ákveðin þekking og þessar hugmyndir samrýmast mjög vel hugsjónum forstjóra Landgræðslu ríkisins, Sveins Runólfssonar, en hann talar um að hugsjónir staðarins séu ræktun lands og lýðs og þetta á auðvitað mjög vel við.

Eins og við vitum öll er Ísland ríkt land. Við erum rík í efnahagslegum skilningi en við búum því miður í landi sem er að fjúka burt, eins og ég hef verið að benda á. Við höfum fram að færa mjög mikla reynslu og þekkingu til þróunarlandanna á sviði landgræðslu og vísinda á þessum sviðum. Það er mikill hugur í starfsmönnum Landgræðslunnar og reyndar í Rangárþingi öllu og á Suðurlandi um þessi mál og nú er lag að berjast fyrir því að koma á slíkri alþjóðlegri rannsóknarmiðstöð. Ég hvet til þess að þessi tillaga verði samþykkt og að við hefjumst handa sem allra fyrst við að hrinda henni í framkvæmd.