132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[17:59]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins.

Það er ekki oft sem hægt er að segja um þingmál sem er aðeins nokkurra mánaða gamalt að það sé barn síns tíma því að dagsetningarnar í þingmálinu sem var lagt fram í upphafi þessa þings eru þegar orðnar úreltar en efni frumvarpsins og inntak á ekki síður við nú en þá.

Tillagan til þingsályktunar er flutt af öllum þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og er 1. flutningsmaður hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka auk formanns sem utanríkisráðherra skipar án tilnefningar til að hafa yfirumsjón með og vera stjórnvöldum til ráðuneytis í viðræðum við bandarísk stjórnvöld um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar samhliða brottför hersins. Nefndin kanni einnig rækilega möguleika á að auka hvers kyns borgaralega atvinnustarfsemi í tengslum við flugvöllinn og geri tillögur um aðgerðir í því skyni. Nefndin leiti eftir hugmyndum og þátttöku heimamanna á Suðurnesjum í starfi sínu og eigi við þá náið samstarf. Nefndin skili ráðherra skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2006.“

Með öðrum orðum, það var fyrir mánuði síðan í reynd sem við hefðum viljað að þessu starfi yrði lokið. Ekki nóg með það, við höfum flutt samsvarandi mál á fyrri þingum einnig og ég vek athygli á því að það sem hefur verið að gerast hér núna síðustu vikurnar, yfirlýsingar Bandaríkjamanna um að þeir hyggist hverfa af landi brott með öll sín tæki og tól var í reynd fyrirséð. Við rekjum það í greinargerð með þingmálinu hvernig smám saman hefur dregið úr umsvifum Bandaríkjamanna hér á landi og ef mannaflinn er borinn saman 1990 annars vegar og í ársbyrjun 2005 kemur fram að hermenn á vegum Bandaríkjahers voru hér 1990 3.294 en voru í fyrra komnir niður í tæp 1.500 eða 1.453. Íslenskir starfsmenn hersins í marsmánuði 1990 voru yfir 1.000, 1.086 en voru í fyrra komnir niður í 674.

Síðan rekjum við í greinargerð hvernig dregið hefur úr þeim umsvifum, hvernig flugvélum og hertólum margvíslegum hefur fækkað enda í fullu samræmi við þær breyttu aðstæður sem nú eru uppi í þessum heimshluta. Kalda stríðinu, sem svo var nefnt, lauk um 1990 og augljóst að Bandaríkjamenn mundu hverfa af landi brott. Það var reyndar ásetningur okkar að berjast fyrir því að svo yrði og hefur verið í langan tíma, að minnsta kosti margra þeirra sem eiga núna aðild að Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þó að það sé engan veginn einhlítt. En allar götur frá því að sá flokkur var stofnaður árið 1999 hefur hann flutt þingmál þessa efnis og ekki aðeins um brottför hersins og nauðsynlegar ráðstafanir sem grípa þurfi til í tengslum við atvinnuuppbyggingu og yfirtöku á mannvirkjum sem herinn hefur rekið, heldur einnig varðandi umhverfisáhrif. Ég vísa í tillögu til þingsályktunar sem var upphaflega lögð fyrir 125. þing, þ.e. árið 1999, af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Sú tillaga var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta fara fram rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og hernaðarumsvifa á Íslandi og hættum sem eru núverandi hernaðarumsvifum samfara. Einnig verði gerð úttekt á lagalegum álitaefnum þessu tengdum.

Rannsókn beinist sérstaklega að eftirfarandi þáttum:

1. grunnvatnsmengun,

2. jarðvegsmengun,

3. frágangi spilliefna og sorphauga,

4. umhverfishættu sem stafar af núverandi hernaðarumsvifum,

5. réttarfarslegum hliðum málsins varðandi skaðabótaskyldu erlendra og/eða íslenskra stjórnvalda gagnvart landeigendum í þeim tilfellum sem mengun hefur orðið og skyldu þeirra til að hreinsa menguð svæði.

Jafnframt verði reynt að áætla kostnað við hreinsun þeirra svæða sem hafa orðið fyrir mengun.“

Við höfum staðið fyrir umræðu um þessi efni hvað eftir annað í þinginu og ég vísa t.d. til umræðu sem fram fór í febrúarmánuði árið 2004 þar sem fyrirspyrjandi var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og beindi fyrirspurnum til þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar. Þær fyrirspurnir lutu að mengun af völdum Bandaríkjahers á Heiðarfjalli á Langanesi en þar hafði bandarískur her haft setu allt frá 6. áratugnum og fram til ársins 1971.

Við þær umræður var fátt um svör af hálfu stjórnvalda, af hálfu hæstv. utanríkisráðherra, en landeigendur á þeim slóðum hafa reynt að sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Það var reynt árið 1997 og það var reynt aftur árið 2001. Hæstiréttur vísaði málinu í báðum tilvikum frá vegna þess að íslenskir dómstólar ættu ekki lögsögu hvað bandarísk stjórnvöld varðaði og vegna einhverra galla sem Hæstiréttur taldi vera í málatilbúnaði fyrir rétti. Þetta var nú sú hjálp sem bændurnir sem hafa þurft að súpa seyðið af hersetunni þarna fyrir norðaustan fengu frá íslenskum stjórnvöldum.

Nú segjum við: Þegar gengið verður til samninga við herinn eða viðræðna við herinn um brottför og viðskilnað hér á landi hvað varðar herstöðina á Miðnesheiði þá er ekki um annað að ræða en að ganga kirfilega frá þessum þáttum einnig. Ég vek athygli á því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur óskað eftir utandagskrárumræðu sérstaklega um það efni og ætla ég ekki að fara ítarlega í þá sálma af þeim sökum við umræðuna nú.

Eins og menn þekkja verður viðræðufundur á morgun á milli íslenskra stjórnvalda og fulltrúa Bandaríkjahers, fulltrúa Bandaríkjastjórnar um viðskilnað Bandaríkjamanna. Ég fagna því sérstaklega að þetta þingmál skuli koma til umræðu í þinginu núna því að við höfum ákveðin skilaboð frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði til íslenskra stjórnvalda inn í þær viðræður. Í dag sendi þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá sér yfirlýsingu sem ég vil, með leyfi forseta, lesa.

Hún er svohljóðandi:

„Það er athyglisverð staðreynd að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur á næstliðnum árum einn þingflokka lagt fram tillögur og hugmyndir um viðbrögð vegna brottfarar herliðs Bandaríkjanna frá Keflavíkurflugvelli. Má þar nefna ítrekaðan tillöguflutning, nú síðast á yfirstandandi þingi, um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins, svo og tillögu um rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu. Aðrir flokkar hafa ekki séð ástæðu til viðbragða né fyrirhyggju þrátt fyrir augljós merki þess að herinn væri á förum. Einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna um brottför þrátt fyrir tvíhliða samning um veru herliðsins sýnir vitaskuld betur en nokkuð annað að þeir héldu hér her sjálfs sín vegna og telja það koma sér einum við hvenær og hvernig þeim hentar að halda á brott. Framkoma Bandaríkjamanna kemur þeim vafalaust á óvart sem hafa talið það einhverja tryggingu að í ríkisstjórn Íslands sitja tveir af þremur stjórnmálaflokkum sem stutt hafa hersetuna. Þessi framkoma er vitaskuld niðurlægjandi fyrir ríkisstjórnina sem hefur sýnt Bandaríkjamönnum fylgispekt í flestum málum og m.a.s. skipað sér að baki þeim í ólögmætu árásarstríði þeirra á hendur Írökum.

Í þeim viðræðum sem nú eiga sér stað um framhald málsins er áríðandi að fulltrúar Íslendinga geri réttmætar kröfur til Bandaríkjamanna um viðunandi viðskilnað á Keflavíkurflugvelli og á öðrum svæðum sem hersetan hefur sett mark sitt á. Undir engum kringumstæðum á að þrýsta á um áframhaldandi sýndarviðbúnað hersins, eins og m.a. hefur heyrst í máli forsætisráðherra landsins. Fráleitt væri að ganga að viðræðunum með slíku hugarfari. Einhvers konar draugastöð á Keflavíkurflugvelli væri versta niðurstaðan sem komið gæti út úr viðræðunum og ber að hafna því algjörlega. Krafan hlýtur að vera að bandarískur her hverfi að fullu og öllu af vellinum og afhendi Íslendingum svæðið og öll mannvirki og aðstöðu þar. Gera ber skýlausa kröfu um ábyrgð Bandaríkjamanna á hreinsun og umbótum vegna mengunar og umhverfisspjalla. Tryggja þarf að skilið verði við starfsfólk með sómasamlegum hætti, starfsmönnum til margra ára verði greidd biðlaun og veitt aðstoð við endurmenntun og leit að nýjum störfum. Þess má geta að fyrir liggur beiðni frá þingflokki VG um umræðu utan dagskrár um viðskilnað Bandaríkjahers við landið og íslenska starfsmenn.

Þingflokkur VG leggur áherslu á að brottför hers ásamt tilheyrandi vopnabúnaði af Keflavíkurflugvelli og öll sú aðstaða sem þar með losnar býður upp á sóknarfæri sem mikilvægt er að nýta til nýsköpunar og uppbyggingar á svæðinu. Ekki er síður mikilvægt að nú skapast til þess skilyrði að móta nýjar áherslur í utanríkis- og friðarmálum, móta sjálfstæða friðarstefnu þar sem leið hernaðarbrölts og hernaðarbandalaga er hafnað, en þess í stað byggt á virkri friðarviðleitni, afvopnun og friðlýsingum. Þau verkefni sem nú þarf að takast á við og tengjast brottför hersins eru öll þess eðlis að Íslendingar geta auðveldlega axlað þau sjálfir. Meginverkefnin eru rekstur Keflavíkurflugvallar, efld landhelgisgæsla og aukið landamæraeftirlit. Loks þarf að stórefla tækjakost og mannafla til björgunarstarfa. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur hvatt til þverpólitísks samstarfs um öll þessi mál. Nú ríður á að menn snúi bökum saman og breyti stöðunni þjóðinni í hag.“