132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:37]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins, sem hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, mælti hér fyrir og er flutningsmaður að ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er á margan hátt mjög forvitnilegt plagg. Hún er að sjálfsögðu barn síns tíma, eins og hv. flutningsmaður benti á, hún er á vissan hátt kannski orðin úrelt að því leyti að allar dagsetningar sem í henni eru eru dottnar upp fyrir ef svo má segja, en efni tillögunnar er á margan hátt mjög áhugavert og ég hygg að a.m.k. sögulega séð muni þessi þingsályktunartillaga þykja nokkuð merkilegt plagg.

Í henni eru ýmsar áhugaverðar upplýsingar sem ég ætla að halda til haga. Hér eru bókanir milli Íslendinga og Bandaríkjamanna, bæði frá 1994 og 1996, þýddar á íslensku, og síðan ýmsar upplýsingar í fylgiskjali. Ég minni á það, virðulegi forseti, að í næstu viku mun sennilega fara hér fram umræða um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál og þá hygg ég að rædd verði í þaula í þessum sal hins háa Alþingis einmitt sú staða sem komin er upp í varnarmálum okkar Íslendinga, sú staða sem komin er upp í tengslum við varnarsamninginn á milli Íslendinga og Bandaríkjamanna og sú staða sem komin er upp á milli okkar Íslendinga og annarra þjóða í varnarbandalaginu NATO, Norður-Atlantshafsbandalaginu.

Ég vil fyrir mitt leyti segja að ég sakna þess svolítið að ekki skuli fleiri þingmenn, eða svo virðist vera, ætla að taka þátt í þessari umræðu hér og nú því að þessi þingsályktunartillaga er út af fyrir sig ágætistækifæri, hún gefur ágætistilefni til að ræða þessa hluti, ræða þessa stöðu, því að ég tel að það sé mjög brýnt að við höldum áfram þeirri umræðu sem hér átti sér stað, að mig minnir 16. mars sl., eftir að þjóðinni hafði verið gert kunnugt um að Bandaríkjamenn væru á förum héðan af landi brott. Þá flutti hæstv. utanríkisráðherra munnlega skýrslu sína og fulltrúar annarra stjórnmálaflokka á Alþingi töluðu líka en málið var þá að sjálfsögðu engan veginn útrætt. Síðan hafa menn að sjálfsögðu verið að gera sér betur grein fyrir því hvaða staða er í raun og veru komin upp þó að ég hyggi reyndar, virðulegi forseti, að við séum kannski ekki enn búin að gera okkur fyllilega grein fyrir hvaða afleiðingar þetta allt muni hafa. Ég held að við séum heldur alls ekki búin að gera okkur grein fyrir hvernig við ætlum að fara að því að leysa þann vanda sem við nú stöndum frammi fyrir.

Mörgum spurningum er ósvarað, það hefur verið bent á mörg vandamál sem fram undan eru. Það vandamál sem er kannski mest aðkallandi núna er hvernig við ætlum að leysa mál þeirra starfsmanna sem nú munu missa vinnuna á örfáum næstu mánuðum. Það er mjög brýnt úrlausnarefni. Ég hef hugleitt það svolítið, ég hef farið suður í Reykjanesbæ og átt þar viðræður við verkalýðsforingja og kynnt mér þetta mál eftir fremsta megni og ég verð að segja að þarna bíður okkar mikið og brýnt úrlausnarefni.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það hljóti að vera skylda okkar allra, þ.e. þjóðarinnar, að sjá til þess að þeir sem eru komnir á það sem kallað er aldur og eiga kannski erfitt með að fá vinnu annars staðar, geti hætt störfum með þeirri reisn og virðingu sem þeir eiga skilið. Það hlýtur einnig að vera skylda okkar að sjá til þess að það sé gert með þeim hætti að þetta fólk þurfi þá ekki að líða efnahagslegan skort eða verða fyrir miklum tekjumissi.

Í mínum huga er þetta ákaflega skýrt, í mínum huga er þetta fólk sem hefur unnið mjög þörf og brýn störf í þágu íslensku þjóðarinnar með því að vinna að vörnum landsins, með því að vinna á vegum Bandaríkjahers og — gleymum því ekki — vinna að vörnum landsins, vinna í þágu íslensku þjóðarinnar. Þetta hefur á vissan hátt verið framlag okkar Íslendinga til varna landsins, þ.e. við höfum lagt varnarliðinu til ákveðinn mannskap sem hefur starfað í tengslum við þessa starfsemi. Það er skylda okkar að sjá til þess að vel sé gert við þetta fólk sem hefur unnið í þágu okkar allra, Íslendinga, okkur ber siðferðileg skylda til þess að tryggja það, og það á réttláta kröfu á því, nú þegar líður að leiðarlokum hvað varðar starfsemina fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli eða Bandaríkjaher á Íslandi.

Annað sem er mjög brýnt og við þurfum að leysa er það hvernig við ætlum að greiða úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir varðandi öryggismálin, varðandi björgunarmálin sérstaklega. Ég byrjaði strax að tala um það þegar ég settist inn á þing vorið 2003 að nú yrðu Íslendingar, ríkisstjórnin, að fara að taka sig saman og huga fram í tímann, velta því fyrir sér hvernig hún ætli að bregðast við þegar Bandaríkjamenn færu loksins héðan, því það væri alveg augljóst, og það kemur mjög vel fram í þeim gögnum sem lögð eru fram með þessari þingsályktunartillögu, að sú ákvörðun sem okkur íslensku þjóðinni var tilkynnt þann 15. mars sl. þyrfti ekki að koma neinum á óvart. Mér finnst það mjög ámælisvert að ríkisstjórnin skuli ekki hafa verið komin lengra en raun ber vitni í því að leita nýrra leiða varðandi lausnir á varnar- og öryggismálum íslensku þjóðarinnar. Það er fyrst núna sem við sjáum hæstv. utanríkisráðherra ferðast á milli landa og eiga viðræður við utanríkisráðherra NATO-þjóða og aðra um þessi mál, fyrst núna þegar við höfum fengið að vita að Bandaríkjamenn eru að fara.

Þetta eru að sjálfsögðu viðræður sem við hefðum átt að fara út í miklu, miklu fyrr, óformlegar að vísu en viðræður samt, því að ég er alveg sannfærður um að við munum finna lausn á þessum málum, ég er alveg sannfærður um að aðrar þjóðir innan NATO munu ekki skilja okkur eftir. Ég hygg að það séu svo miklir hagsmunir í húfi fyrir NATO-þjóðirnar, bæði Bandaríkjamenn og líka Evrópuþjóðir NATO, að viðhalda einhverri stöðu á Íslandi, viðhalda einhvers konar eftirliti og viðbúnaði á hafsvæðinu umhverfis Ísland, einnig viðbúnaði og eftirliti með lofthelginni yfir landinu. Sú umferð sem á sér stað um þessi svæði, bæði á legi og í lofti, yfir Norður-Atlantshafið á milli Norður-Ameríku og Evrópu er einfaldlega það mikilvæg að ég hygg að þessar þjóðir, þegar þær hugsa sig um, geti ekki hugsað sér að hér sé ekki fyrir hendi neinn viðbúnaður af neinu tagi, ekki einu sinni björgunarviðbúnaður.

Norðmenn hafa þegar komið auga á þetta, ég hygg að það hafi runnið upp fyrir þeim ljós í fyrradag þegar þeir sáu hina vel heppnuðu björgunaraðgerð Landhelgisgæslunnar þar sem norskur sjómaður var sóttur norður í höf. Norðmenn gera sér grein fyrir því að hafsvæðið umhverfis Ísland er mjög mikilvægt. Ég minni á að Norðmenn eru að hefja núna umfangsmikla olíu- og gasvinnslu í Barentshafi og jafnvel norður við Svalbarða, það er mikil umræða um þetta í Noregi núna. Norðmenn hafa sjálfir sagt og bent á það að siglingaleiðin fram hjá Íslandi mun verða mjög mikilvæg til að koma þessum afurðum, olíu og gasi, til mikilvægasta markaðarins, sem er markaðurinn í Norður-Ameríku. Norðmenn hafa þegar byrjað að hugsa leiðir til þess (Forseti hringir.) að öryggishagsmunir þeirra verði tryggðir umhverfis Ísland hvað varðar þessa flutninga í framtíðinni.