132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[18:58]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef maður dregur það saman í stuttu máli sem hv. 1. þm. Reykv. n. segir hefði sennilega verið skynsamlegra fyrir Íslendinga að ganga til þeirra viðræðna með markmið Samfylkingarinnar að vopni og segja: Ja, það er nú allt opið, það kemur allt til greina. Við viljum bara skipa þverpólitíska nefnd til að fara yfir málin og skoða stöðuna og meta þessa hluti.

Það er alveg spurning hvort það hefði fært okkur eitthvað fram í viðræðum við Bandaríkin að nálgast málin út frá þeim skýra kosti sem Samfylkingin hefur boðið upp á í þessum málum.

Ég hygg að ef grannt er skoðað komi í ljós að Samfylkingin hefur verið afar vaklandi í þessari umræðu og í sjálfu sér kannski ekki ástæða til að eyða mörgum orðum í það út frá fortíðinni.

Hins vegar má segja að Samfylkingin hefur verið afar tvístígandi í þessum efnum og ég minni aftur á niðurstöðu eða niðurstöðuleysi landsfundar Samfylkingarinnar þegar fjallað var um niðurstöður svokallaðs framtíðarhóps í maí sl. þar sem því var skotið á frest að taka afstöðu til orðalags í álitsgerðinni eða drögum að áliti framtíðarhóps þar sem þó var að finna afar loðið og teygjanlegt orðalag sem vissulega fól í sér stuðning við áframhaldandi veru í Atlantshafsbandalaginu en slegið úr og í varðandi varnarþáttinn. Um þá niðurstöðu gátu menn ekki einu sinni verið sammála á landsfundi Samfylkingarinnar í maí á síðasta ári. Afstaða flokksins hefur því auðvitað verið mjög vaklandi og spurning hvort betra væri að ganga til viðræðna við Bandaríkjamenn með skýr markmið eða (Forseti hringir.) með markmiðið: Allt er opið, allt kemur til greina.