132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[19:03]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eins og nefndi hér áðan er þessi þingsályktunartillaga sem hér er til umræðu nokkuð merkilegt plagg að mörgu leyti. Við erum að ræða yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins. Hér er lagt til að stofnuð verði nefnd, skipuð fulltrúum allra þingflokka auk formanns sem mundi þá vera skipaður af hæstv. utanríkisráðherra, til að skoða þessi mál.

Ég get alveg lýst mig mig sammála því að sennilega væri mjög skynsamlegt að svona nefnd yrði skipuð nú þegar og það ætti í raun og veru ekki að þurfa að flytja einhverja sérstaka þingsályktunartillögu til þess að farið yrði í það verk að skipa slíka nefnd fulltrúum allra þingflokka, til þess að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í þessu afar erfiða máli sem bíður okkar.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni hef ég aðeins rætt við forsvarsmenn verkalýðsfélaga í Reykjanesbæ um þessa hluti. Þeir benda til að mynda á að vandinn sem við stöndum frammi fyrir varðandi starfsfólkið, sem er mjög brýnn og bráður vandi sem við verðum að reyna að finna lausn á, að þar séu margar konur sem verði atvinnulausar. Þeir hafa bent á það að lausnin til að vinna bug á þeim vanda, eða svona a.m.k. í áttina, gæti t.d. verið að byggja upp þjónustu í öldrunarmálum og heilbrigðismálum sem nú þegar skortir í Reykjanesbæ. Þarna gætum við Íslendingar, þ.e. íslensk stjórnvöld og við öll lagt hönd á plóginn með það að leita leiða eða reyndar slá tvær flugur í einu höggi, setja aukið fjármagn í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, Heilbrigðisstofnunar á Suðurnesjum og öldrunarþjónustu, peninga sem þarf hvort eð er að setja í þessa málaflokka og þá um leið útvega þeim konum störf sem nú missa vinnu sína á Keflavíkurflugvelli. Þetta er svona ein hugmynd, virðulegi forseti, sem mér finnst vert að nefna en það eru að sjálfsögðu mörg önnur störf sem þarf að finna eða búa til. Í þessari þingsályktunartillögu eru ágætar hugmyndir reifaðar um ýmsa möguleika á því að efla borgaralega starfsemi á Keflavíkurflugvelli sem eru á margan hátt góðra gjalda verðar og ég tel fyllilega réttmætt að þetta verði skoðað nánar.

Ég vil þó minna á að það verður nú að segja kannski stjórnvöldum eilítið til hróss, þó að þau eigi í raun og veru skilið mikla skömm í þessu máli, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér inn á áðan í máli sínu, að það hefur þegar hafist vinna við að efla borgaralega starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Það er verið að stækka flugstöðina og gera ýmsar breytingar þar og víkka út starfsemina á margan hátt. Ég minnist þess þegar við þingmenn Suðurkjördæmis, Reykjanes er jú hluti af Suðurkjördæmi, þegar við vorum í árlegri ferð okkar um Suðurnesin nú í október þá sagði Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ okkur frá því að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ gerðu ráð fyrir því að þær framkvæmdir sem nú eru á Keflavíkurflugvelli og þau auknu umsvif, borgaralegu umsvif sem nú eru að verða á Keflavíkurflugvelli samfara aukinni flugumferð og öðru, að þetta mundi sennilega skapa eitthvað í kringum 80 störf árlega næstu tíu árin. Ég vona að ég sé ekki að fara rangt með, að ég muni rétt þessa tölu og þetta sé rétt haft eftir Árna Sigfússyni bæjarstjóra í Reykjanesbæ. Þetta voru að sjálfsögðu mjög jákvæðar fréttir og ég vona svo sannarlega að þetta gangi eftir.

Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni þá nefndi ég þá möguleika að önnur NATO-ríki mundu koma hér að borðinu og ég trúi því hreinlega ekki að varnarbandalagið NATO hafi ekki áhuga á að viðhalda samstarfi við Ísland áfram þó að Bandaríkjamenn hyggist draga sig héðan af landi brott. Þarna finnst mér að geti leynst mjög mörg tækifæri sem við ættum að skoða með opnum huga, samvinna við önnur ríki til að mynda á sviði björgunarþjónustu, á sviði landhelgisgæslu. Til dæmis mætti spyrja hvort önnur NATO-ríki séu reiðubúin til þess að taka að einhverju leyti þátt í kostnaði við þessa hluti, að við værum hér með tæki og tól, þyrlur, flugvélar jafnvel, skip sem að einhverju leyti yrðu þá líka kostuð af öðrum NATO-ríkjum en skip og annar viðbúnaður af starfseminni í kringum það væri þá mannað af Íslendingum, svo og tæki og tól. Þarna finnst mér að gætu verið möguleikar sem vert væri að skoða.

Við gætum líka boðið upp á það, því ég geri ráð fyrir að meiri hluti þjóðarinnar vilji vera áfram í NATO, að lið frá NATO gæti komið hingað til æfinga hér á Íslandi, lið frá NATO gæti notfært sér hafnaraðstöðu hér á landi og þá er ég ekki bara að tala um Evrópuþjóðir heldur líka um Bandaríkjamenn og jafnvel Kanadamenn ef þeir mundu líka vilja koma að þessu. Ég held að það séu ótal, ótal möguleikar og það er engin ástæða til þess að fara neitt á taugum og örvænta þó að þetta hafi gerst núna sem við vissum öll að mundi gerast kannski nema forusta Sjálfstæðisflokksins, þ.e. að Bandaríkjamenn væru á förum. Því verður ekkert breytt héðan af, þeir eru á förum, þeir hafa sagt okkur að orrustuþotur og þyrlur fari í haust. Við heyrum þær fréttir af Keflavíkurflugvelli að þeir séu þegar byrjaðir að pakka. Það er búið að segja upp starfsfólkinu þannig að þetta er staðreynd sem blasir við okkur. Þarna eru vandamál, vandamál kalla á lausnir og ég hygg að ef við leggjumst öll á árarnar munum við geta leyst þessi vandamál sem fram undan eru.

Að sjálfsögðu vakna ýmsar spurningar, til að mynda varðandi allt það sem Bandaríkjamenn munu skilja eftir hér á landi. Það hefur verið bent á að þeir hafi mengað varnarsvæðið á Reykjanesskaga. Þessa hluti verður að fara mjög vandlega yfir og það verður að sjá til þess og tryggja það að þeir hreinsi upp eftir sig eða þá sjái til þess að við Íslendingar munum gera það og þá á þeirra kostnað. Það gæti hugsanlega skapað einhver störf að hreinsa til á þessu svæði og gera það byggilegt. Þeir munu skilja eftir miklar fasteignir, mjög miklar fasteignir sem ég hygg að enginn hafi enn þá fyllilega yfirsýn yfir hverjar eru. Það hefur heldur enginn svarað þeirri spurningu almennilega hvað eigi að gera við allar þessar fasteignir. Þetta er spurning eða viðfangsefni sem við þurfum að velta fyrir okkur nú á næstu vikum og mánuðum.

Það brýnasta, virðulegi forseti, og ég læt það verða mín lokaorð, því að tími minn er að verða búinn, er að leysa úr vandamálum þeirra starfsmanna sem nú missa vinnuna og sjá til þess að öryggismálum sé borgið og þá sérstaklega björgunarþjónustu umhverfis landið. Hvernig við förum síðan að því er efni í allt aðra og miklu víðtækari umræðu, ekki síst í þessum sal.