132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar.

237. mál
[19:11]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu um tillögu okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins. Umræðan hefur um margt verið mjög upplýsandi. Hún hefur varpað ljósi á afstöðu stjórnmálaflokkanna til hersetunnar, til hernaðarbandalaga og hún hefur að sjálfsögðu einnig tekið til þessarar þingsályktunartillögu sérstaklega og þar sýnist mér menn vera nokkuð á einu máli.

Það sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á er tvennt. Í fyrsta lagi að þverpólitísk aðkoma verði tryggð að viðræðum við Bandaríkjamenn um brottför hersins. Við leggjum til að nefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka komi að þessu starfi, verði stjórnvöldum til ráðuneytis, leitað verði til heimamanna o.s.frv. Við höfum talið eðlilegt að þetta yrði gert sérstaklega, en í reynd hefur ríkisstjórnin komið til móts við þetta sjónarmið að hluta til með því að opna utanríkisnefnd þingsins fyrir aðkomu fulltrúa allra stjórnmálaflokka að þessu starfi. Við hefðum hins vegar talið að hitt væri æskilegra, þetta er lögbundinn farvegur til að fjalla um utanríkismál en við vildum markvissara starf að þessu leyti.

Varðandi hina þættina sem þingsályktunartillagan tekur til um yfirtöku Íslendinga á borgaralegri atvinnustarfsemi í tengslum við flugvöllinn í Keflavík þá er það nokkuð sem þegar er farið að huga að. Eftir að þessi tillaga kom fram skýrði ríkisstjórnin frá því að hún hefði lagt til við Bandaríkjastjórn að Íslendingar tækju yfir þessa borgaralegu starfsemi. Um efnisþætti þingsályktunartillögunnar eru menn því tiltölulega sammála enda er ekki um annað að ræða, þetta er sá veruleiki sem blasir við eftir að Bandaríkjamenn lýstu því yfir að þeir hygðust hverfa af landi brott með sín tæki og tól.

Þessi þingsályktunartillaga er fyrst og fremst þingsályktunartillaga sem sýnir fyrirhyggju. Hún kom hvorki fram of seint né of snemma því að það var talað fyrir þessu máli fyrir allmörgum árum í fyrsta sinn af okkar hálfu. Þá þótti okkur sýnt hvert stefndi varðandi veru Bandaríkjamanna hér á landi, að hvað sem Íslendingar vildu í þeim efnum þá væri líklegt að þeir vildu draga úr umsvifum sínum hér og það væri mál til komið að við sameinuðumst um að finna leiðir til að bregðast við því.

Við höfum bent á að það eigi að líta á þetta sem sóknarfæri fyrir Íslendinga og það er margt ánægjulegt í stöðunni hvað varðar atvinnumálin en á Suðurnesjum hefur orðið talsverð atvinnuuppbygging sérstaklega í tengslum við flugstöðina. Í greinargerð sem fylgir þingmálinu bendum við á að ef litið sé á heildarfjölda þeirra starfa sem herinn ber kostnað af, hafi á tímabilinu 30. apríl 2003 til 31. desember 2004 fækkað um a.m.k. 535 störf án þess að það hafi leitt til atvinnuleysis. Þetta sýnir hina miklu uppbyggingu, sérstaklega í tengslum við flugstöðina í Keflavík og það er reyndar margt annað sem er að gerast á þessu atvinnusvæði sem gefur tilefni til að ætla að við getum leyst þennan vanda. Engu að síður þarf að koma þarna markvisst átak.

Við leggjum mjög ríka áherslu á að það verði samið á viðeigandi hátt við þá starfsmenn sem hafa starfað lengi í tengslum við herstöðina í Keflavík. Við nefnum biðlaunasamninga í því efni, framlag til endurmenntunar til þessa fólks og stuðning við að finna atvinnu.

Þá höfum við lagt ríka áherslu á mengunarþáttinn og í fyrri ræðu minni vísaði ég til þingmála sem við höfum flutt varðandi rannsóknir á mengun af völdum hersetunnar á Íslandi og við höfum minnt á tilraunir Íslendinga til þess að rétta sinn hlut og draga Bandaríkjastjórn og Bandaríkjamenn til ábyrgðar, þá sérstaklega fyrir austan, á Heiðarfjalli. Í tillögu til þingsályktunar sem við fluttum á 131. löggjafarþingi hvöttum við til þess að rannsókn yrði gerð varðandi umhverfishættu af völdum mengunar og við vildum að hugað yrði að réttarfarslegum hliðum málsins því að tilraunir bænda fyrir norðan til að draga Bandaríkjastjórn til ábyrgðar strönduðu á því að Hæstiréttur vísaði málinu frá á tæknilegum forsendum og einnig á þeirri forsendu að íslenskir dómstólar hefðu ekki lögsögu yfir þessum málum. Þetta eru mál sem við þurfum öll að fara rækilega í saumana á.

Síðan er hitt sem snýr að hinni pólitísku afstöðu flokkanna. Þá kemur í ljós að annars vegar eru NATO-flokkarnir hér á þingi og það eru Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Frjálslyndi flokkurinn og Samfylkingin. Hins vegar er Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem leggur upp úr því að Íslendingar standi utan hernaðarbandalaga, utan NATO, og við teljum að með því móti tryggjum við best öryggi Íslands.

Á þessu eru líka siðferðilegar hliðar. Teljum við sæmandi að leita skjóls hjá þjóðum og hjá þjóð sem hefur orðið uppvís að því að beita pyntingum, að beita fanga pyntingum, halda fólki utan dóms og réttar í fangelsum og beita það pyntingum? Eru það þessir menn sem við viljum að verndi okkur? Nú þegar fréttir berast af því að þingmannanefnd NATO er að leita í faðminn á einhverjum harðsvíraðasta afturhalds hægrimanni í Evrópu, formanni þingmannaráðs NATO, Pierre LaLouche, um aðstoð við varnir Íslands þá fer maður að spyrja ýmissa spurninga. Ég spyr: Væri íslenskum öryggishagsmunum ekki best borgið með því að standa utan hernaðarbandalaga og fylgja stefnu í heiminum sem ekki kallar á áreiti? Með því móti tryggjum við best öryggi Íslands.