132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

1. fsp.

[15:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðherra vegna þeirra miklu sinubruna sem urðu í síðustu viku á Vesturlandi og reyndar víðar um land. Ég spyr hann hvort hann hyggist beita sér fyrir úttekt á því hvernig stjórnvöld séu viðbúin stórfelldum sinueldum, kjarr- og skógareldum og samræmingu á viðbrögðum, vörnum og aðgerðum við slíkar aðstæður sem urðu t.d. á Vesturlandi í síðustu viku og er hætta á víða um land.

Eins og við öll höfum fylgst með hófst sinubruninn á Mýrum við þjóðveginn rétt vestan við bæinn Fíflholt árla fimmtudagsins í síðustu viku. Menn telja að þar hafi verið um slys af hálfu vegfaranda að ræða. Mikil sina er í landinu og kvistur og lyng og allt skraufþurrt og því mikill eldsmatur, enda breiddist eldurinn hratt út og sannaðist þar máltækið að breiðast út eins og eldur í sinu. Vindur stóð á norðan svo eldurinn leitaði undan til suðurs og vesturs en þjóðvegurinn hélt að að austanverðu.

Við höfum fylgst með í fréttum lýsingu af öllu þessu og hetjulegri baráttu heimamanna, björgunarmanna og slökkviliðs úr Borgarfjarðarhéraði, Akranesi og Búðardal, undir stjórn slökkviliðsstjórans í Borgarnesi. Engu að síður hlýtur maður að velta því fyrir sér að þarna skuli ekki hafa komið samstjórn að. Ekki var ræst út almannavarnakerfið en það eitt hefur í sjálfu sér umboð til að kalla fólk og búnað til ef rýma þarf hús eða til varnar annarri vá. Ég beini þessari fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra.