132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

2. fsp.

[15:11]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ástæðan er sú að á ársfundi Norðaustur-Atlantshafssjávarspendýraráðsins, sem haldin var á Selfossi 14.–16. mars sl., voru kynntar bráðabirgðaniðurstöður vísindarannsókna Hafrannsóknastofnunar á hrefnu. Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur Hafró, greindi frá því að hlutfall þorsks í fæðu hrefnu er hærra en áður var talið. Samkvæmt mati sem stuðst hafði verið við var áætlað að þorskur og annar botnfiskur næmi 3% af heildarfæðu hrefnu en bráðabirgðaniðurstöður benda til að hlutfallið sé ekki 3% heldur á milli 5 og 15%. Enn fremur var greint frá því að í kjöti af dýrunum er lítið af þungmálmum og þrávirkum lífrænum efnum og langt innan viðmiðunarmarka.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvaða ályktanir hann dregur af þessum niðurstöðum og hvaða áhrif hafa niðurstöðurnar á framhald vísindarannsókna og hugsanlegar atvinnuveiðar?