132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

2. fsp.

[15:15]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Til viðbótar því sem ég sagði áður er ástæða til að árétta það sem kom fram í máli hv. þingmanns áðan, þ.e. að samkvæmt þeim niðurstöðum sem kynntar voru á NAMMCO-fundinum á Selfossi á dögunum er mengun í hrefnunni mun minni en margir höfðu talað um. Miklar umræður hafa verið um að mikil díoxín-mengun væri í hvölum og þetta geti verið hættuleg fæða. Niðurstaðan sem við höfum þegar séð er sú að svo er alls ekki. Þvert á móti sanna rannsóknir að um er að ræða mjög hreina og góða afurð.

Það er líka athyglisvert sem fram kom í fréttum nýlega, að neysla á þessum afurðum hefur aukist í Noregi. Þannig er það líka hér á landi. Hér er mikil og vaxandi neysla og áhugi almennings á að borða hvalkjöt. Það er ánægjulegt fyrir okkur að vita því að margir trúðu því að hvalkjötsneysla hér á landi heyrði brátt sögunni til. En það er alls ekki þannig.