132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

3. fsp.

[15:17]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þannig er að byggðamálin eru í algjöru uppnámi. Þau hafa auðvitað verið það lengi en það er merkilegt að hæstv. iðnaðarráðherra, sem fer með þau mál, hefur núna sett þau í uppnám. Ég á sæti í iðnaðarnefnd og þar höfum við fjallað um byggðaáætlun. Í nefndinni var komið samkomulag um að við skoðuðum hvort ekki væri hægt að ná þverpólitísku samkomulagi um að endurskoða þá áætlun eða tillöguna sem lá fyrir.

Þá bregður svo við að hæstv. iðnaðarráðherra heldur blaðamannafund og setur fram mál sem algjört ósætti virðist um í stjórnarflokkunum. Það kemur fram að allir nefndarmenn sjálfstæðismanna í iðnaðarnefndinni eru á móti málinu.

Hæstv. iðnaðarráðherra segir hins vegar að þeir þurfi, eins og er haft eftir henni, með leyfi forseta:

„Ég tel ekki nauðsynlegt að gera breytingar á frumvarpinu heldur þurfa þingmenn Sjálfstæðisflokksins að mynda sér samstillta skoðun á málinu.“

Það er víst eitthvert tímaspursmál um að ná slíkri skoðun fram.

Mér er þó ekki skemmt. Ég tel að byggðamálin séu alvörumál og mér finnst að þegar hæstv. iðnaðarráðherra sprengir allt í loft upp, með því að koma fram með mál sem engin samstaða liggur fyrir um, sé ekki vel af stað farið. Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra þess vegna hvort hún telji ekki fulla ástæðu til þess að láta reyna á það hvort hægt sé að ná samstöðu í iðnaðarnefnd um þessi mál, eins og menn höfðu stefnt að. Eða er hæstv. ráðherra enn á þeirri skoðun að bíða eigi eftir því að sjálfstæðismenn komist á sömu skoðun og hún hvað varðar þessa stofnun sem ráðherra (Forseti hringir.) leggur til að stofna?