132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

3. fsp.

[15:21]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég er nú ánægður að heyra að hæstv. ráðherra telur að nefndin eigi að halda áfram sínu striki hvað þetta mál varðar. Fundir um málið hafa fallið niður í nefndinni eftir að hæstv. ráðherra hélt blaðamannafundinn. Ég varð var við að menn vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið og það er greinilega mikið ósætti milli stjórnarþingmanna um framhald málsins. Ég held að það séu fréttir fyrir þá og gott að hæstv. ráðherra lýsir yfir að menn eigi að halda sínu striki og ná saman um þessi mál.

Þau verða auðvitað ekki slitin í sundur. Byggðastofnun hefur farið með stórt hlutverk í byggðamálum í landinu þótt hæstv. ráðherra hafi undanfarin ár reynt að hluta hana í sundur. Þess vegna skiptir máli hvernig mál það sem snýr að Byggðastofnun er sett fram í byggðaáætlun. Það hefur ekki verið gert með þeim hætti að það sé skýrt og m.a. þarf að taka á því í framsetningu tillögugreinarinnar um byggðaáætlun.