132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Opinber gjöld af bensíni og olíu.

[15:35]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina tveimur spurningum til hæstv. fjármálaráðherra. Þær varða innheimtu opinberra gjalda af bensíni og olíu.

Í fyrsta lagi spyr ég hvort til greina komi að lækka tímabundið almennt vörugjald af bensíni og olíu. Sú ráðstöfun gæti verið skynsamleg þar sem olíuverð á heimsmarkaði er mjög hátt og gengi íslensku krónunnar hefur lækkað. Þetta verður til þess að olíu- og bensínverð mun að öllum líkindum hækka mjög á næstunni.

Hæstv. ráðherra hefur státað af því að ríkissjóður standi mjög vel. Í framhaldinu er því vert að spyrja hvort til greina komi að lækka þessi gjöld þannig að ríkissjóður standi ekki betur á eftir, heldur jafnsterkur, þ.e. að jafnmargar krónur komi í kassann þótt lækkunin komi til framkvæmda.

Hin spurningin varðar eina vitlausustu skattlagningu landsins, þ.e. skattlagningu á Landhelgisgæsluna. Hún býr við að þurfa að borga virðisaukaskatt af olíukaupum. Það leiðir til þess að Landhelgisgæslan fer úr landi til að kaupa olíuna á svipuðu verði og hún fær hana austur á fjörðum. Þetta getur ekki verið skynsamlegt, að láta Gæsluna búa við þetta. En hún er neydd til að fara þessa leið. Hún er í mikilli fjárþröng og þess vegna langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki komi til greina að aflétta þessu af Gæslunni þannig að hún sé ekki neydd til að fara úr landi til að kaupa olíu í Færeyjum, þar sem hún fær olíuna án virðisaukaskatts, og geti í stað þess keypt hana á sama verði austur á fjörðum hjá íslensku fyrirtæki.