132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[15:47]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þann 2. apríl 1946 voru fyrst sett lög um Rarik þannig að í gær voru 60 ár liðin. Þetta er fyrirtæki sem hefur þjónað landsmönnum vel í gegnum tíðina og þá einkum og sér í lagi landsbyggðinni. Það á sér merka sögu og það á sér líka mikla framtíð en tímarnir hafa breyst og árið 2003 voru samþykkt ný lög frá hv. Alþingi, ný raforkulög þar sem kveðið er á um samkeppni í vinnslu og sölu á raforku. Það samræmist einfaldlega illa því fyrirkomulagi að reka Rarik sem stofnun. Hlutafélagaformið er þekkt og skilvirkt rekstrarform og þess vegna eru flest orkufyrirtæki rekin í formi hlutafélaga.

Þetta hefur ekkert með einkavæðingu að gera. Fyrirtækið verður áfram í eigu ríkisins.

Ég vil að lokum þakka hv. iðnaðarnefnd fyrir góð og vel unnin störf í tengslum við þetta frumvarp og samþykki það að sjálfsögðu.