132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:18]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lofa hv. þingmanni Guðjóni Arnari Kristjánssyni að hægja aðeins á mér þegar líða tekur á daginn. Þetta er nú bara mitt eðli að tala hratt en ég skal aðeins hægja á mér. Ég var einu sinni á fundi úti í Vestmannaeyjum og þar var maður sem talaði hraðar en ég og það kom athugasemd utan úr sal. Þá sagði hann við þann sem gerði athugasemdina: Þú verður bara að hlusta hraðar. Það er mjög erfitt en þetta var mjög snaggaralega afgreitt út í sal.

Varðandi þessa breytingartillögu þá kom í ljós þegar lögfræðingar fóru að ræða saman að frumvarpið skapaði bótarétt. Ég veit að Landssamband smábátaeigenda lét skoða þetta mál og þess vegna er farinn þessi millivegur. Okkur fannst heldur ekki sanngjarnt, miðað við upphaflegt frumvarp, að taka grunninn af beint. Við reynum að láta alla njóta þess að taka betri leiðina og taka síðan prósent af því til þess að það sé ekki tekið af öðrum sem fá úthlutað. Þannig er þetta unnið. Það er alveg ljóst að þau skip sem voru með meira 450 lestir og voru stærri en 200 tonn höfðu ekki rétt til að veiða samkvæmt frumvarpinu. Þá dreifðist það á þau skip sem ekki voru með full 8,4 tonn. Þannig var þetta. Upphaflegt frumvarp miðaðist við reynslu þeirra síðastliðin sjö ár og þá yrði sú uppbót til staðar en lögin eru með þeim hætti að við urðum að fara þessa leið til að breyta þessu.