132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[16:27]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns sjávarútvegsnefndar, Guðjóns Hjörleifssonar, hér áðan skrifa ég undir nefndarálitið með fyrirvara. Mig langar að eyða nokkrum orðum í að gera grein fyrir þeim fyrirvara eins og hann liggur.

Þegar frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra kom til nefndarinnar og farið var í gegnum þá leið sem frumvarpið gerði ráð fyrir, að taka þennan 3.000 tonna jöfnunarpott sem áður hafði verið úthlutað frá ári til árs og breyta honum í varanlega úthlutun sem ekki væri neitt öðruvísi en aðrar úthlutanir á aflahlutdeild, kom mjög snemma í ljós að svo virtist sem frumvarpið hefði ekki verið nægjanlega undirbúið í sjávarútvegsráðuneytinu. Mjög fljótlega vöknuðu spurningar um hvort það gæti verið að frumvarpið eins og það var búið og frumvarpið eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra mælti fyrir því hér á þingi gæti, ef það yrði óbreytt að lögum, skapað ríkinu skaðabótaábyrgð varðandi nokkuð marga aðila sem útgerð stunduðu á árum áður og útgerð stunda enn þá, en höfðu ekki, vegna takmarkandi þátta í úthlutun á jöfnunarpottinum, átt möguleika á að fá úthlutun meðan hún var tímabundin eins og lög gerðu ráð fyrir.

Þessi spurning varð mjög áleitin í vinnu nefndarinnar og ég verð að hrósa hv. formanni nefndarinnar, Guðjóni Hjörleifssyni, fyrir að taka á sig rögg, eftir að ljóst var orðið að það var orðin stór spurning hvort frumvarpið óbreytt, yrði það að lögum, skapaði ríkinu skaðabótaábyrgð, og reyna að finna leið sem aðilar gætu frekar sætt sig við en þá leið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði til í frumvarpi sínu.

Fyrirvarinn snýst að mestu leyti um að við þessa vinnu var kannski ekki gefinn nægjanlega langur tími til að fara í gegnum hvort hin nýja leið, sem formaður hv. sjávarútvegsnefndar hafði lagt til, stæðist þá frekar lög um skaðabætur eða hvort hún leysti þetta mál eins og ég veit að góður hugur hv. formanns, Guðjóns Hjörleifssonar, stóð til. Það er aldrei einfalt þegar verið er að flytja mikil verðmæti frá einum til annars. Við sem tökum nú daglegan þátt í umræðum um sjávarútvegsmál vitum að tonnin þurfa ekki að vera mörg til að tölurnar verði háar. Sú breyting sem hér er verið að leggja til á frumvarpinu þýðir að aðilar sem samkvæmt frumvarpi hæstv. ráðherra áttu ekki að fá 1 tonni eða 1 kílói úthlutað úr þessum jöfnunarpotti öðlast nú, samkvæmt þeirri leið sem verið er að leggja til, jafnvel rétt til að fá hámarksúthlutun upp á 5,5 tonn, eins og hv. formaður fór yfir í framsöguræðu sinni. 5,5 eða 5,6 tonn eru ekkert litlir fjármunir í þessu kerfi þegar haft er í huga að leiguverð á svona aflaheimildum, það að fá leyfi til að sækja 1 kíló einu sinni í sjóinn, er kannski 120 kr. Þá er leiguverðmæti svona aflamarks, sem flutt er frá einum til annars, á einu ári 700–800 þús. kr. Varanlega væri hægt að selja þær aflaheimildir sem nú er verið að ákveða, samkvæmt þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir, að flytja til útgerðarmanna sem ekki áttu að fá 1 kílói úthlutað samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra fyrir 8–9 millj. kr. Það er verið að flytja til varanleg verðmæti fyrir 8–9 millj. kr.

Þannig að við sem stöndum í því hér á þingi að setja lög sem fjalla um svona mikla fjármuni verðum að gefa okkur þann tíma sem þarf til að fullvissa okkur um að það sem við gerum og það sem við leggjum til skapi ekki ríkinu skaðabótaskyldu á nokkurn hátt, og reyna að gæta eins mikillar sanngirni í okkar störfum og mögulegt er þegar verið er að ráðast í svona breytingar.

Flýtirinn í þessu máli kemur mjög glöggt í ljós þegar við veltum fyrir okkur umsögnum frá hagsmunaaðilum. Þann 7. febrúar sendi Landssamband smábátaeigenda til okkar umsögn sem segir í stuttu máli að landssambandið geri ekki athugasemdir við frumvarpið. Með umsögninni fylgdi síðan samþykkt sem gerð hafði verið á aðalfundi félagsins, sem haldinn var 14. og 15. október, þar sem fram kemur að aðalfundurinn skorar á sjávarútvegsráðherra að veiðiheimild til jöfnunar verði úthlutað varanlega til þeirra sem nú þegar hafa jöfnunarúthlutunina. Landssambandið var sem sagt að segja: Við samþykktum á okkar aðalfundi að við vildum leggja til og skora á sjávarútvegsráðherra að veiðiheimildunum úr jöfnunarpottinum yrði úthlutað varanlega til þeirra sem hafa áður notið úthlutunar úr pottinum.

Nú gerir breytingin sem talað er um í nefndarálitinu ráð fyrir að það verði ekki bara þeir sem áður hafi notið úthlutunar úr jöfnunarpottinum sem fái úthlutun heldur líka þeir sem aldrei uppfylltu skilyrði til að fá úthlutun áður. Þá er þetta ekki orðið í sama dúr og lesa má út úr samþykkt Landssambands smábátaeigenda og þá er í raun umsögnin, sem kemur 7. febrúar, ekki gild lengur því hún fjallar um allt annan hlut en við erum að fjalla um hérna núna.

Þann 7. febrúar berst líka umsögn frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og hún er svolítið öðruvísi vegna þess að hún fer í gegnum það með hvaða hætti almenna reglan er við úthlutun á aflaheimildum. Þeir benda á að þeir sem áttu rétt til að fá úthlutað jöfnunarkvóta. en voru tímabundið yfir í sínum eigin kvóta eða uppfylltu ekki að öðru leyti þau skilyrði sem sett voru þá fyrir úthlutun á jöfnunarkvóta, ættu þennan rétt í raun og veru. Það mætti ekkert taka þann rétt af þeim því hann væri þarna og þeir gætu hvenær sem er vakið hann upp. Bátur sem var með 450 tonn af þorski áður og fékk þar af leiðandi ekkert úr jöfnunarpottinum því hann átti meira en hámarkið gerði ráð fyrir í þorski gat hvenær sem er losað sig við eitthvað af þessum 450 tonnum og öðlast þá rétt til að fá úthlutun úr pottinum ef engin breyting væri gerð á.

Það er þessi réttur sem verið er að benda á að hefði getað skapað skaðabótarétt gagnvart ríkinu síðar meir. Það er augljóst að við breytingu á því sem hér var verið að gera er að mestu leyti tekið tillit til athugasemda sem fram koma í umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Þegar þetta lá fyrir hefði kannski verið í lagi að gefa sér tíma og skoða hvort við værum nú að gera þarna breytingar sem væru sanngjarnari en þær sem áður höfðu verið lagðar til og breytingar sem ætla mætti að mundu ekki ganga þannig gegn hagsmunum manna að þær gætu skapað ríkinu skaðabótaskyldu.

Þann 3. mars sendir Landssamband smábátaeigenda nefndinni bréf þar sem fram kemur að landssambandinu hafi borist texti frá ritara sjávarútvegsnefndar sem sendur hefði verið sambandinu í umboði formanns og fram hefði komið að það væri í raun ætlun nefndarinnar að gjörbreyta frumvarpi hæstv. ráðherra, þ.e. gjörbreyta grunninum fyrir úthlutun á þessum jöfnunarpotti varanlega. Þá kveður við annan tón hjá Landssambandi smábátaeigenda vegna þess að með þessu sjá þeir að það er verið að gera talsverðar breytingar og útreikningar sýna að þær breytingar, má segja, koma aðeins niður á félagsmönnum landssambandsins og koma sér ívið betur fyrir þá sem eru í Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Það sem landssambandið bendir kannski líka á er að, og ég leyfi mér að lesa, með leyfi forseta, upp úr þessu bréfi:

„Í drögum að nýjum texta frumvarpsins er gert ráð fyrir að fallið verði frá því að veiðirétti sem myndast við hlutdeildartengingu verði úthlutað í hlutfalli við það sem viðkomandi fékk í sinn hlut á tímabilinu 1999/2000 og til ársins 2005/2006. Það leiðir til að 40 aðilum sem ekki hafa uppfyllt eftirfarandi skilyrði til úthlutunar verður nú úthlutað samkvæmt grunnréttindum. Þar af eru 10 sem fá full réttindi en þeir voru með þorskígildi umfram 450 á tímabilinu. Tveir fá nánast full réttindi en þeir höfðu ekki þorsk í sínum veiðiheimildum á tímabilinu. Réttur þeirra 28 sem þar standa eftir er afar rýr en þeir voru flestir án veiðiheimilda í þorski á viðmiðunartímabilinu.

Landssambandið ítrekar þá skoðun sína að rétturinn sem hér um ræðir eigi að ganga til þeirra sem fengu honum úthlutað á viðmiðunartímabilinu. Landssambandið hefur þó skilning á að gera þurfi breytingar á frumvarpinu stangist það óbreytt á við lög og skapi ríkissjóði þannig skaðabótaskyldu sem gæti leitt til enn meiri skerðingar hjá umbjóðendum landssambandsins. Landssambandið furðar sig hins vegar á að slíka breytingu sé ekki hægt að gera á annan hátt en að viðurkenna full réttindi á þá aðila sem áttu samkvæmt upphaflegu markmiði þessa ákvæðis ekki tilkall til þessara veiðiheimilda, þ.e. þeirra sem höfðu veiðiheimildir umfram 450 þorskígildi og engar þorskveiðiheimildir.

Ákvæðið var lögfest í framhaldi af ábendingu landssambandsins og var ætlað að styrkja smáar útgerðir sem höfðu nánast allar sínar veiðiheimildir í þorski og höfðu þannig orðið fyrir veiðiheimildaskerðingu umfram aðra útgerðarflokka.“

Þarna fara þeir rétt í gegnum það af hverju þessi jöfnunarpottur var settur á á sínum tíma. Hann var hugsaður þannig að hann ætti að bæta veiðiheimildaskerðingu umfram aðra útgerðarflokka þeim sem að mestu höfðu veiðiheimildir sínar í þorski.

En það er annað í seinna bréfinu frá landssambandinu sem ég vil sérstaklega vekja athygli á og það er þessi setning, með leyfi forseta:

„Landssambandið hefur þó skilning á að gera þurfi breytingar á frumvarpinu stangist það óbreytt á við lög og skapi ríkissjóði þannig skaðabótaskyldu sem gæti leitt til enn meiri skerðingar hjá umbjóðendum landssambandsins.“

Bara þessi lína í bréfi landssambandsins hefði átt að þýða að við tækjum okkur í nefndinni meiri tíma til að fara í gegnum þetta skaðabótamál, velta því fyrir okkur. Við hefðum einnig átt að spyrja embættismenn í sjávarútvegsráðuneytinu og aðra sem komu að því að semja frumvarpið hvernig á því stæði að við værum að fá frumvarp inn í sali Alþingis, og framsögumaður væri hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem eftir tiltölulega stutta skoðun veki spurningar um skaðabótaábyrgð ríkisins.

Að mínu viti eru það ekki ásættanleg vinnubrögð í ráðuneytinu að senda frá sér slíkt frumvarp, kynna það hér, eins og gert var í 1. umr., sem svona eðlilega litla breytingu á lögunum. Þess má geta að dagsetningin á seinna bréfinu frá Landssambandi smábátaeigenda er 3. mars 2006. Nefndarálitið er afgreitt úr nefndinni 3. mars 2006. Þannig að sama dag og bréfið kemur frá Landssambandi smábátaeigenda, þar sem farið ef yfir þetta, er nefndin að afgreiða þetta út og gefur sér ekki tíma til að fara í gegnum þetta og skoða betur.

Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni erum við að fjalla hér um mikil verðmæti. Við erum að fjalla um að flytja verðmæti frá einum til annars með lagasetningu. Við slíkan gerning verðum við að vanda okkur.

Ég ætla ekki að fara í gegnum útreikninginn á þessu og af hverju það flyst til milli útgerðarflokka. Það er of flókið til að lesa það upp hér úr ræðustól. Ég verð þó að segja að ástæðan fyrir því að ég skrifa undir þetta nefndarálit, þó með fyrirvara sé gert, er einfaldlega sú að úr því búið var að lögfesta þennan jöfnunarpott varanlega, áður var hann í bráðabirgðaákvæði, inn í lög um stjórn fiskveiða er að mörgu leyti skynsamlegra, ég get tekið undir það, að hann lúti almennum úthlutunarreglum. Umræðan sem ég tók hér í 1. umr., og ég held að sé fullgild umræða og menn verði að velta fyrir sér, er sú staðreynd að þetta voru 3.000 tonn. Það var verið að úthluta 3.000 tonnum á hverju einasta ári, burt séð frá því hvert heildaraflamarkið var í þorski. Með þessari breytingu núna eru þetta ekki lengur 3.000 tonn. Þetta er talsvert mikið minna. Það munar náttúrlega fyrir alla þá sem hafa fengið úthlutun úr þessum potti. En á móti kemur, eins og ráðherra fór yfir í máli sínu við 1. umr., að við að gera þessar aflaheimildir að varanlegum ósérmerktum heimildum eykst verðmæti þeirra á hinum almenna markaði. Verðmæti þeirra eykst í viðskiptum manna á milli með þessar veiðiheimildir. Eins og ráðherrann orðaði það, ef ég man rétt, þá græddu allir, þó ég sé ekki alveg sammála þeirri skýringu að það sé til einhver gullgerðarvél sem sett er í gang og allir geti grætt. Því yfirleitt er það þannig í viðskiptum að ef einn græðir þá lætur annar.

Með þessari breytingu er verið að skera þau 3.000 tonn af óslægðum fiski sem hingað til hefur verið úthlutað á hverju ári niður í 2.376 tonn. Það er verið að skera þetta niður um 634 tonn, sem eru náttúrlega, ef við förum aftur í reikningana mína hér áðan, geysilega mikil verðmæti. 600 tonn í varanlegri sölu eru ekki litlir peningar. Þetta þýðir að samkvæmt þeirri reiknireglu sem kynnt var til leiks í nefndinni, og er ætlað að minnka óréttlætið, að margra mati, í úthlutuninni — það að breyta þessu úr sérmerktri úthlutun í varanlega ómerkta úthlutun þýðir að það verða í kringum 2.053 tonn af slægðum fiski sem fara bara inn í pottinn. Þetta hefur ekki mikil áhrif á heildina vegna þess að áður hafði þetta verið dregið frá — þetta er áfram dregið frá, ekki lengur 3.000 tonn heldur talsvert minna.

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Ég hefði viljað taka aðeins lengri tíma í að skoða hvort það eru þá minni líkur eða engar líkur á að þær breytingar sem nú er verið að leggja til baki ríkinu skaðabótaskyldu. En tek þó undir það, eins og fram hefur komið í máli hv. formanns sjávarútvegsnefndar, að ætla megi að þessi breyting sýni að minni líkur séu á að einhverjir telji sig þurfa að sækja rétt á hendur ríkinu. En að mínu viti, þegar upphæðirnar eru svona háar og hagsmunirnir svona miklir fyrir hvern og einn sem þarna á hagsmuni, verðum við að gefa okkur lengri tíma en svo að þegar við fáum ábendingu í bréfi 3. mars afgreiðum við álitið úr nefndinni sama dag.

Það er svolítið langt síðan 3. mars var svo að við hefðum alveg getað gefið okkur lengri tíma. En oft er það nú þannig að það er verið að koma málum áfram og skófla þeim út úr nefnd. Ég held að þetta sé skólabókardæmi, frú forseti, um að stundum er betra að gefa sér lengri tíma. Það þarf ekki alltaf að vinna með þessum hætti því önnur vinnubrögð hefðu ekki tafið málið neitt. Við vitum jú hvaða dagur er í dag og við vitum hve langt er síðan 3. mars var.