132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[17:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða við 2. umr.

Í nefndaráliti með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi þessu er lagt til að fallið verði frá sérreglum varðandi úthlutun á 3.000 lestum af þorski skv. 9. gr. a laganna og fiskiskipum sem þessarar úthlutunar hafa notið verði í staðinn úthlutað aflahlutdeild frá og með fiskveiðiárinu 2006/2007 samkvæmt nánar tiltekinni reiknireglu í ákvæði til bráðabirgða.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Nefndin er sammála því að umræddri úthlutun verði breytt í aflahlutdeild en leggur til að reiknireglunni verði breytt þannig að í stað þess að miða eingöngu við það meðaltal sem úthlutað hefur verið á grundvelli viðkomandi réttar á fiskveiðiárunum 1999/2000–2005/2006, þá verði einnig litið til þess hversu mikið hver réttur gefur án tillits til aflamarksstöðu fiskiskips og sá kostur valinn sem meira gefur í aflahlutdeild. Þetta val leiði hins vegar ekki til aukins heildaraflamagns þorsks sem ráðstafað er til þessarar sérstöku úthlutunar.“

Ég styð í sjálfu sér þá leiðréttingu sem verið er að gera á annars meingölluðu fiskveiðistjórnarkerfi. Og út af þeim rökum sem hafa komið fram að úr því að maður er kominn ofan í drullupottinn, ofan í fenið, eins og núverandi stjórn fiskveiða er, þá getur maður svo sem stutt við það að einhverjir fái að svamla þar lengur sér til lífs og um það snýst frumvarpið í sjálfu sér, enda stendur býsna víða í lögum, lagabreytingum og frumvörpum sem verið er að flytja um sjávarútvegsmál, eftirfarandi: „samkvæmt nánar tiltekinni reiknireglu í ákvæði til bráðabirgða“.

Ég veit ekki hversu víða þetta „bráðabirgða“ stendur í frumvörpum og löggjöf sem lýtur að stjórn fiskveiða en það er mjög víða og undirstrikar það hversu götótt þetta kerfi er og götótt á þann hátt að því er ætlað að verða tæknilega fullkomið í sjálfu sér, fiskveiðistjórnarkerfi sem hægt er að framkvæma uppi á skrifborði með tæknilegum útfærslum þar. En það er nú svo að bæði fiskurinn og lífkerfið í sjónum lýtur ekki endilega stjórn reiknireglnanna, tommustokkanna eða reglustikanna. Sömuleiðis verður líf og atvinna fólks vítt og breitt um landið ekki sett á slíkar mælistikur, a.m.k. ekki svo vel fari.

Þess vegna erum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á móti þessu fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur það eitt að markmiði, a.m.k. að meginmarkmiði, að hámarka arð þess fjármagns sem viðkomandi aðilar eiga í útgerðinni. Við leggjum áherslu á að fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar og nýting hans á að grundvallast á því.

Frú forseti. Í stefnuplaggi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um sjávarútvegsmál, um sjálfbæra nýtingu sjávarútvegsins og fiskveiðiauðlindarinnar stendur, með leyfi forseta — sem mér finnst mjög mikilvægt að vitna til þannig að við töpum okkur ekki í fiskveiðistjórnarumræðunni í eins konar tæknivandamálum í útfærslu á annars röngu kerfi eins og það frumvarp er sem við erum að fást við. Það er í sjálfu sér bara hluti af þeim tæknivandamálum sem menn standa frammi fyrir í útfærslu á slæmum lögum um stjórn fiskveiða.

Í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stendur, með leyfi forseta, og ég vil undirstrika eftirfarandi:

„Auðlindir sjávar verði raunveruleg sameign þjóðarinnar og einstökum byggðarlögum tryggður réttlátur skerfur veiðiheimilda og viðunandi öryggi.

Sjávarútvegurinn aðlagi sig markmiðum sjálfbærrar þróunar og vinni markvisst að því að bæta umgengni um náttúruna og lífríkið, þ.e. einstaka nytjastofna, vistkerfi hafsbotnsins og hafsbotninn sjálfan.

Sjávarútvegsstefnan treysti byggð og efli atvinnu í landinu öllu ásamt því að stuðla að aukinni fullvinnslu framleiðslunnar og þar með aukinni verðmætasköpun og hámarksafrakstri auðlindanna innan lands.

Sjávarútvegsstefnan stuðli að réttlátri og jafnri skiptingu gæðanna ásamt jöfnum og góðum lífskjörum þeirra sem við greinina starfa og veita henni þjónustu. Markmiðið er að afraksturinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda dreifist með réttlátum hætti til landsmanna allra.

Sjávarútvegurinn, ekki síst fiskvinnslan, þróist og verði fær um að bjóða vel launuð og eftirsóknarverð störf og standa sig í samkeppni við aðrar atvinnugreinar hvað launakjör, starfsaðstæður, vinnuumhverfi og aðra slíka þætti snertir.“

Þetta eru þeir fimm meginpunktar í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sjávarútvegsmálum. Það sjá allir að sú stefna sem nú er rekin gengur að mörgu leyti í berhögg við okkar stefnu enda eru afleiðingar hennar alveg augljósar. Við sjáum hina gríðarlegu samþjöppun sem á sér stað í sjávarútvegi, í fiskveiðunum. Við sjáum hvernig fiskveiðiheimildirnar hafa farið frá t.d. byggðarlögum eins og á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og reyndar víðar um land, farið frá byggðarlögum sem hafa byggst upp vegna fiskveiðiauðlindarinnar og treyst á hana. Fólkið í landi, íbúarnir, ætti líka að eiga sinn rétt til auðlindarinnar, ekki bara útgerðaraðilarnir, ekki bara fjármagnseigendurnir, heldur að fólkið ætti sinn rétt. En hagsmunir fólksins eru í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi fyrir borð bornir.

Í ljósi þessa hef ég þessi orð um frumvarpið og nefndarálitið þar sem verið er að færa á milli tæknileg atriði við útfærslu á fiskveiðistjórnarkerfinu, sem ég get í sjálfu sér stutt tæknilega en ekki pólitískt, því að ég tel að fiskveiðistjórnarkerfið sem við búum núna við sé mjög óréttlátt gagnvart íbúum og byggðarlögum víða um land, auk þess sem það hefur sýnt sig að hvetja til takmarkaðrar eða hæfilega takmarkaðrar og góðrar umgengni við auðlindina. Að minnsta kosti hefur verið harðlega gagnrýnt hvernig kerfið hefur hvatt til brottkasts, hvatt til slæmrar umgengni á miðum, hvatt til að notuð séu veiðarfæri sem allar líkur benda til að fari illa með vistkerfið, fari illa með botn sjávar o.s.frv. Sama er hvar á þetta fiskveiðistjórnarkerfi er litið, á því eru gríðarlegir grundvallarannmarkar sem verður að breyta. Það verður eitt fyrsta verk þeirrar ríkisstjórnar sem losnar við aðild Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hafa keyrt upp þetta kvótakerfi með þessum hætti, að breyta því til hagsbóta fyrir lífríkið, fyrir byggðir í landinu og fyrir atvinnulífið í heild.

Að öðru leyti um þá breytingu sem verið er að gera, þá er bara verið að stoppa í einn vandræðaganginn í fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég tek undir þau orð sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hafði um þetta að hann óttaðist að þetta mundi verða enn til þess að torvelda nýliðun í greininni, torvelda fólki sem ekki á miklar fiskveiðiheimildir eða mikið fjármagn að komast inn í greinina. Ég tek undir þau varnaðarorð en legg áherslu á í lok máls míns að breyta þarf í grundvallaratriðum fiskveiðistjórnarstefnunni og það koma tímar þegar það verður gert.