132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[20:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Málið sem hér er til 2. umr., frumvarp til laga um breytingu á lögum um uppboðsmarkaði sjávarafla, felur í sér að opnað er á heimild fyrir erlenda aðila til að eiga hlut og reka uppboðsmarkaði hér á landi fyrir sjávarafla.

Hv. formaður sjávarútvegsnefndar, Guðjón Hjörleifsson, hefur gert grein fyrir nefndarálitinu. Ég á sæti í sjávarútvegsnefnd sem áheyrnarfulltrúi fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og er svo sem samþykkur því með fyrirvara.

Fyrirvari minn lýtur í fyrsta lagi að því að ég sé ekki að þetta sé nauðsynlegt, og ekki með þeim hraði sem hér er lagt af stað með.

Í öðru lagi vil ég slá varnagla við því að ekki sé verið að opna á aðkomu erlendra aðila, erlendra fjármagnseigenda, í íslenska fiskvinnslu og útgerð. Það hafa í sjálfu sér ekki komið óyggjandi upplýsingar um að svo geti ekki orðið, m.a. í gegnum þessa breytingu, þótt menn telji að líkurnar á því séu ekki miklar. En þar sem peningar og fjárgróðavon er annars vegar er ótrúlegt að sjá hvar menn finna sér leiðir. Við vitum af áhuga og ásælni erlendra aðila til að öðlast hlutdeild og aðkomu að íslensku fiskstofnunum. Það gildir reyndar um allar auðlindir sem við Íslendingar eigum. Erlendir aðilar vilja eignast hlutdeild í þeim eða komast að þeim á einn eða annan hátt. Við þekkjum það með raforkuna, eins og haft var eftir hæstv. iðnaðarráðherra, að margir kæmu hingað, vildu fá að byggja álver og fá ódýra raforku og stundum væri biðröð fyrir framan dyrnar. Hún vildi ekki láta þá bíða. Það er afstaðan, ekki megum við láta þá bíða því að þeir eru komnir um langan veg.

Ég vil a.m.k. slá varnagla við því að slíkt gæti verið upp á teningnum hér þó svo að ég ætli alls ekki hæstv. sjávarútvegsráðherra nokkuð í þá veru. Ég treysti á stöðugleika hans og vörn gegn erlendri ásælni í íslenskar auðlindir. Hann getur vart ætlað sér að opna fyrir eða greiða fyrir inngöngu Íslendinga í Evrópusambandið, sem sumir hafa varað við að gæti einmitt gerst, að þarna opnist glufa í þá veruna. Ég minnist þess að við 1. umr. vék hv. fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, að því í ræðu sinni að nú væri hæstv. sjávarútvegsráðherra að opna glufu fyrir umræðuna um inngönguna í Evrópusambandið. Hingað til hefur verið staðinn fastur vörður gegn því að hleypa slíkum aðilum inn í íslenskan sjávarútveg. Hér er síðan flutt frumvarp á grundvelli EES-reglna eða það haft sem afsökun. Mér finnst oft sem menn noti EES-reglur fyrir afsökun þegar þeir geta ekki skýrt málið út með öðrum hætti. En hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði hæstv. ráðherra hvort opnuð yrði glufa fyrir inngöngu í Evrópusambandið með því að brjóta niður eitthvað af varnarmúrunum sem stillt hefur verið upp í kringum íslenskan sjávarútveg. Ég hlusta á svona athugasemdir og legg áherslu á þennan varnagla minn.

Ég minni á að í fyrravetur voru þessi sömu lög til umræðu til ítarlegrar umræðu á þinginu og í sjávarútvegsnefnd. Það er því mjög skrýtið að innan við bara rúmu hálfu ári eða tæpu ári eftir viðamikla endurskoðun á lögunum skuli vera aftur gerðar breytingar á þeim. Það finnast mér ótrúverðug vinnubrögð, bæði þá í fyrravetur og eins núna. Við umfjöllun um frumvarp um uppboðsmarkað sjávarafla í fyrravetur var kom fram óttinn við samþjöppun í eignarhaldi og krosseignatengsl á milli útgerðar, fiskvinnslu og uppboðsmarkaða. En þau eru fyrir hendi og býsna mikil. Ég tel að það væri fróðlegt, áður en við ljúkum 3. umr. að það verði upplýst, þessi krosseignatengsl sem eiga sér stað um uppboðsmarkaði sjávarafla, krosseignatengsl á milli fiskvinnslu, útgerðar og uppboðsmarkaða. Þetta er það atriði sem er hvað mikilvægast til þess að tryggja sjálfstæði og hlutleysi uppboðsmarkaða, sem allir hafa lagt áherslu á að sé forsenda fyrir því að þeir geti starfað.

Þetta er ein ástæðan fyrir fyrirvara mínum. Ég ítreka að ég teldi mjög nauðsynlegt fyrir þessa umræðu, áður en henni er lokið, að við fáum upplýsingar um eignatengsl, um eignarhald á þeim uppboðsmörkuðum sem eru hér á landi og hafa fengið starfsleyfi. Við vitum að uppboðsmarkaðirnir eru að teygja sig inn í ýmsa þætti fiskvinnslu, aðgerð á fiski o.s.frv. Sumir fiskmarkaðir bjóða upp á að gera að fiski sem er gott og vel, býst ég við, í flestum tilvikum.

Ég vil vísa til varnaðarorða sem Samtök fiskvinnslu án útgerðar hafa sent varðandi þetta frumvarp. Þau fengu af einhverjum ástæðum ekki tækifæri til að gera formlegar ábendingar og athugasemdir við frumvarpið. En sjávarútvegsnefnd er sammála um að málið verði kallað inn til nefndar milli 2. og 3. umr. þar sem m.a. verði farið yfir þær athugasemdir sem Samtök fiskvinnslu án útgerðar vilja koma á framfæri, og það er vel. Þær eru nákvæmlega þær sömu og ég hef gert að umtalsefni í fyrirvara mínum. Þeir sendu nefndarmönnum, með leyfi forseta, eftirfarandi umsögn:

„Samtök fiskvinnslu án útgerðar telja afgreiðslu áðurnefnds frumvarps sem lög frá háttvirtu Alþingi í öllu falli ekki tímabær nú. Samtökin telja nauðsynlegt og leggja áherslu á að áður en til þess komi að útlendingum heimilist eignaraðild að íslenskum fiskmörkuðum þá verði að:

Setja inn í núverandi lög um innlenda uppboðsmarkaði fyrir fisk ákvæði um dreifða eignaraðild að þeim.“

Þetta er nákvæmlega það sama og ég var hér að segja. Ég vil þess vegna fá upplýsingar um núverandi stöðu eignarhalds á fiskmörkuðum. Mér finnst það eðlileg krafa því það er engin ástæða til að halda neinni leynd yfir því.

Í öðru lagi óska Samtök fiskvinnslu án útgerðar eftir að leidd verði í gildi reglugerð samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 79 frá maí 2005 um uppboðsmarkaði þar sem kveðið verði á um starfsemi uppboðsmarkaða og þá skilmála sem þeim ber að starfa eftir svo og reglugerð um sölu afla sem ekki er kominn á uppboðsmarkað.

Síðan kemur þarna ítrekun á þeirri skoðun samtakanna að uppboðsmarkaðir gegni þýðingarmiklu hlutverki og þurfi að svara ríkum kröfum um hlutleysi, bæði gagnvart kaupendum og seljendum. Þröng eignaraðild, eins og nú er möguleg, stangist augljóslega á við þessa kröfu og geti ekki samrýmst því hlutverki sem uppboðsmarkaði er ætlað að gegna.

Þá benda samtökin einnig á að mjög brýnt sé að uppboðsmörkuðum fyrir fisk verði settar skýrar og fullnægjandi starfsreglur. Hafa samtökin lengi lagt ríka áherslu á nauðsyn þess. Nú háttar svo til að forráðamenn markaðanna hafa komist upp með að setja upp viðskiptaskilmála sem eru í fullri andstöðu við viðskiptavini þeirra og sem við teljum stangast á við réttmæta viðskiptahætti. Afleiðingin er sú að því miður logar ófriður milli fiskkaupenda og einstakra fiskmarkaða sem fara sínu fram með slíkum hætti.

Ég er hér að vitna til umsagna þessara samtaka. Það er því ekki traustvekjandi að einmitt sömu aðilar skuli sækja fastar fram nú um að umrætt lagafrumvarp komist í gegn. Mér finnst þetta vera alvarlegar ábendingar. Mjög alvarlegar ábendingar. Við höfum fulla ástæðu til að taka alvarlega ábendingar þessara samtaka því Samtök fiskvinnslu án útgerðar eru gríðarlega þýðingarmiklar í okkar fiskvinnslu og sjávarútvegi og útflutningsmálum. Einmitt meðal þessara fiskvinnslna verða nýjungarnar oft til, nýbreytnin í fiskvinnslu. Þessar fiskvinnslur afla dýrra og sérhæfðra markaða erlendis, miklu frekar en þessar stærri útgerðir og fiskvinnslur sem reka útgerð og fiskvinnslu sameiginlega. Þannig að ábendingar þessara samtaka finnst mér mjög alvarlegar og sjávarútvegsnefnd ber skylda til að fara vandlega yfir þær og ræða málið mjög vel áður en það kemur til lokaafgreiðslu.

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg orð fleiri um þetta. Ég vil þó benda á að ég hef hér lagt fram tillögu til þingsályktunar um að sjávarútvegsráðherra verði falið að leita aðgerða til að tryggja að fiskur sem veiddur er við Íslandsstrendur komi á markað hér en ekki sé heimilt að flytja hann óunninn í gámum á markaði erlendis og meira að segja óvigtaðan. Ég hefði viljað sjá okkar ágæta og vaska sjávarútvegsráðherra taka á þeim málum sem ég hef hér tilgreint, stöðu fiskmarkaðanna og sjálfstæði þeirra og að tryggja að við séum a.m.k. ekki með ívilnandi aðgerðir í gangi til að hleypa fiski óunnum á uppboðsmarkaði erlendis eins og við erum með. Því við erum með ívilnandi aðgerðir ef heimilt er að flytja fisk óvigtaðan úr landi á uppboðsmarkaði erlendis, nógu mikil nákvæmni er á mörkuðum hér, og er það gott og blessað. Þannig að ég hefði viljað sjá hæstv. sjávarútvegsráðherra taka á þessum málum, ekki síður en vera að opna möguleika fyrir erlenda aðila til að koma hér inn á uppboðsmarkaði sjávarafla. Það þarf að koma þessum atriðum á hreint áður en slíkt yrði heimilað.