132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:43]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði mig hversu mikil upphæð væri endanlega í Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Ég hef það ekki alveg á reiðum höndum en hygg að það sé mjög nálægt 700 millj. kr.

Í ræðu sinni núna fór hv. þingmaður nákvæmlega með sambærilegan texta og hann gerði hér í 1. umr. þegar hann notaði það einfalda trikk að segja sem svo: Nú skulum við gefa okkur það að við þurfum ekkert að hugsa um fjárhagsvanda Hafrannsóknastofnunar. Ef það er þannig þá getum við tekið um það ákvörðun að ráðstafa öllum peningunum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins til annarra rannsókna. Það er í rauninni það sem hv. þingmaður var að segja. Hann lætur eins og hann hafi ekki tekið eftir því að það er þörf á því að auka fjármuni til Hafrannsóknastofnunar, hann hefur þó sjálfur talað um það í ræðu, flokksfélagar hans hafa talað um það í ræðu, það hefur verið kvartað undan því að við séum ekki að setja nógu mikla peninga þangað.

Nú er tekin um það pólitísk ákvörðun að auka varanlega framlög ríkisins til Hafrannsóknastofnunar um sem svari kannski 10%, 100 miljónum á ári, og það þýðir auðvitað að verið er að auka framlög til hafrannsókna í landinu og þar með til rannsóknarstarfseminnar.

Síðan erum við að opna hérna inn á samkeppnisrannsóknir alveg eins og við höfðum áformað og til viðmiðunar er sett talan 25–40 millj. kr. eins og meiri hluti sjávarútvegsnefndar leggur til. Hér er auðvitað um heilmikil þáttaskil að ræða og það er verið að opna fyrir nýjar leiðir sem menn eru að átta sig á eins og fram kemur í umsögnum, því þó að hv. þingmanni líki ekki þessar umsagnir eru þær hins vegar kórrétt ábending um að hér er verið að opna á nýjar leiðir til hafrannsókna í landinu. Þetta er samkeppnissjóður og þess vegna er það eðlilegt að þeir sem sækja í þann sjóð leggi fjármuni á móti. Það er sú stefna sem hefur orðið ofan á í Vísinda- og tækniráði sem Alþingi hefur samþykkt lög um og það er sú stefna sem er að verða æ meira ofan á í allri vísindastarfsemi í landinu. Þetta er það vinnulag sem menn vilja helst hafa, þ.e. að menn keppi um þessa fjármuni, leggi fram fjármuni á móti og auðvitað er það þannig (Forseti hringir.) að góðir vísindamenn munu geta aflað sér þess fjármagns (Forseti hringir.) sem þeir þurfa til þess að standa fyrir slíkum rannsóknum.