132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:46]
Hlusta

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að fé til rannsókna væri ekki aukið í heild sinni. Þetta fé var eyrnamerkt rannsóknum og það er einfaldlega rangt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra, að sá þingmaður sem hér stendur segi að ekkert þurfi að hugsa um Hafró og að stofnunin hafi nægilega fjármuni til að stunda grunnrannsóknir á hafinu og lífríki þess. Þetta er einfaldlega rangt hjá hæstv. ráðherra.

Ég hef og flokksfélagar mínir í Samfylkingunni staðið hér í þessum stól og talað um nauðsyn þess að auka fé til hafrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun. Við höfum farið yfir það og það hefur legið skýrt fyrir að auka þyrfti fé á fjárlögum sem bólgna út á hverju einasta ári hjá hæstv. ríkisstjórn. Það virðast nógir peningar til í verkefni þegar á þarf að halda, nema þegar talað er um hafrannsóknir og nauðsynlegar grunnrannsóknir á lífríkinu í hafinu. Þá eru ekki til peningar og ekkert til að auki. En í öll önnur verkefni hjá ríkisstjórninni er hægt að auka við fjármuni, við þurfum ekki annað en sjá hvernig fjárlögin bólgna út ár eftir ár, án þess að mikill afgangur verði til viðbótar við það sem áður var, þótt tekjur ríkisins hafi tvöfaldast á síðustu tíu árum að raungildi, á hverjum degi og á hverju ári. Þrátt fyrir það hefur ekki verið hægt að sækja í fjármálaráðuneytið fjármuni í nauðsynlegar grunnrannsóknir til það reka þann rannsóknarbúnað sem til er.

Hlutskipti hæstv. ráðherra er snautlegt, að þurfa að enda málið þannig, til að geta rekið rannsóknarskipin og raunverulegar rannsóknir, að þurfa að seilast í Verkefnasjóð sjávarútvegsins og seilast í Þróunarsjóðinn sem átti að vera til viðbótar þessu fé sem átti að ganga til grunnrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun.