132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:48]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni að hann hefur talað mikið um að setja þurfi meiri peninga í rannsóknir. Hann og flokksfélagar hans eru sérstaklega þekktir fyrir það, að tala um hlutina en þegar kemur að því að reyna að framkvæma þá hlaupa þeir alltaf í skjól.

Núna er verið að auka varanlega fjárhagslegan ramma Hafrannsóknastofnunar um 100 millj. kr. á ári. Það er auðvitað aukning á framlögum til hafrannsókna í landinu. Hv. þingmaður hefur samviskusamlega í löngu máli skautað algjörlega fram hjá einni grundvallarspurningu, sem hefði þó átt að vera fyrsta spurningin sem hann spurði í ræðu sinni. Við erum að tala um fé úr Þróunarsjóði upp á um 700 millj. kr. eða eitthvað nálægt því. Við erum að tala um peninga sem runnu inn í Verkefnasjóð en þeir ættu að renna til hafrannsókna. Var það þá meining hv. þingmanns að ekkert af þeim peningum ætti að fara til Hafrannsóknastofnunar? Er það skoðun hv. þingmanns að það hefði átt að ganga þannig fram í þessum efnum að peningarnir færu ekki til hafrannsókna í landinu heldur til annarra rannsókna?

Það var algjörlega ómögulegt að skilja hv. þingmann á hvorn veginn hann hallaðist í hinni löngu ræðu sinni áðan. Þótt ég reyndi að rifja upp í huganum það sem hann hafði fram að færa í enn þá lengri ræðu sinni þegar við ræddum málið við 1. umr. í sölum Alþingis þá dugði það ekki. Það er auðvitað þannig að meginhafrannsóknastofnun okkar er Hafrannsóknastofnunin. Við þurfum, til að standa undir þeim grunnrannsóknum og margvíslegum rannsóknum öðrum sem Hafrannsóknastofnun hefur með höndum, þurfum við að sjá til þess að hún hafi næga fjármuni.

Ég er fyrstur manna til að viðurkenna að þar vantar talsvert á. Núna varð það pólitísk niðurstaða og pólitískt samkomulag um að auka verulega fjármuni til Hafrannsóknastofnunar. Jafnframt skapaðist svigrúm til að opna á möguleika fyrir sjálfstæða vísindamenn til að stunda rannsóknir. Það mun takast (Forseti hringir.) og við eigum eftir að sjá að þetta leiðir til þess (Forseti hringir.) að verulega auknir fjármunir fara til hafrannsókna í landinu á grundvelli samkeppnissjóðanna.