132. löggjafarþing — 98. fundur,  3. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[21:54]
Hlusta

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jón Gunnarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast ekki við að hafa orðið fyrir vonbrigðum með umsagnir sem komu fram í málinu. Ég kannast ekki við að hafa sagt það. Ég benti á að umsagnir sem byrja á að segja að með þessu frumvarpi sé fé til rannsókna stóraukið byggi á röngum forsendum.

Ég tók eftir því að hv. formaður sjávarútvegsnefndar svaraði ekki spurningunni sem ég beindi til hans. Ég bað hann um að svara því hvort það væri rétt að með þessu frumvarpi væri fé til rannsókna á hafinu og lífríki þess aukið. Var ekki búið að eyrnamerkja þessa fjármuni til hafrannsókna? Hverju er verið að bæta við? Er ekki fjármunum ráðstafað að mestu leyti í grunnrannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar en ekki lagðir til viðbótarfjármunir?

Þegar ríkisstjórnin og þeir sem hana styðja á Alþingi berja sér á brjóst og segja að fé til hafrannsókna sé stóraukið með því að seilast í þennan sjóð til að setja í grunnrannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar þá er það einfaldlega fölsun.

Áðan var kallað eftir því hver mín skoðun væri, hvort úr Verkefnasjóði ættu engir fjármunir að ganga til Hafrannsóknastofnunar. Mín skoðun er ósköp einföld: Meginuppistaðan af þessum fjármunum hefði örugglega, samkvæmt umsóknum, gengið til Hafrannsóknastofnunar. En hún hefði þurft að sýna fram á hvaða verkefni hún ætlaði að ráðast í til viðbótar við grunnrannsóknir. Það var minn skilningur þegar við ræddum um þetta í sjávarútvegsnefnd, að þetta kæmi til viðbótar hefðbundnum grunnrannsóknum sem ríkið ætlaði að standa undir með fjárlögum. En þeir sem hér hafa talað af hálfu ríkisstjórnarinnar virðast algjörlega hafa gefist upp á því, fara auðveldu leiðina (Forseti hringir.) og seilast í sjóði annarra.