132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Uppboðsmarkaðir sjávarafla.

616. mál
[13:38]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79, um uppboðsmarkaði sjávarafla. Þetta er einfalt frumvarp. Það felur í sér að heimila á útlendingum innan Evrópska efnahagssvæðisins að fjárfesta í íslenskum uppboðsmörkuðum og heimila á Færeyingum að gera slíkt hið sama.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið kemur fram að ástæðan fyrir því að Færeyingar eru í þessum pakka er sú að undirritaður hafði verið samningur við Færeyjar um fríverslun þann 31. ágúst árið 2005. Ástæðan fyrir því að Færeyingar eiga að fá að fjárfesta í íslenskum uppboðsmörkuðum er sem sagt þessi samningur milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar, ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnarinnar í Færeyjum hins vegar.

Nú víkur þannig við að á dagskrá í dag, 13. dagskrárliður, er fullgilding Hoyvíkur-samningsins. Það er sá samningur sem hér um ræðir, samningurinn sem er grundvöllurinn fyrir þessari lagasetningu hvað Færeyinga varðar. Við höfum mótmælt þeim vinnubrögðum við lagasetningu að verið sé að vísa í að nauðsynlegt sé að breyta íslenskum lögum samkvæmt samningi sem gerður hefur verið af ríkisstjórninni og er ekki fullgildur á Alþingi. Þetta eru óeðlileg vinnubrögð og því munu þingmenn Samfylkingarinnar sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.