132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[13:45]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér á að fara að greiða atkvæði um frumvarp til laga um ráðstöfun fjár úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins. Frumvarpið gengur út á það að 660 millj. af fjármunum sem nú eru í Verkefnasjóði sjávarútvegsins og áttu að ganga til hafrannsókna á samkeppnisgrunni eru gerðar upptækar í ríkissjóð.

Frumvarpið gengur út á það að út úr verkefnasjóðnum renni 660 millj. kr. beint í ríkissjóð og því fylgir góður vilji um að þeir fjármunir gangi til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna. Á sínum tíma þegar ákveðið var að leggja niður Þróunarsjóð sjávarútvegsins var ákveðið að fjármunir þróunarsjóðsins gengju inn í verkefnasjóð. Það var samdóma álit þeirra sem um málið fjölluðu að rétt væri að fjármunir þróunarsjóðsins mundu nýtast til viðbótarrannsókna á sviði sjávar og sjávarlíffræði. Það var ekki hugmynd manna að þeir fjármunir, sem útgerðin sjálf hafði greitt inn í þróunarsjóðinn og fiskvinnslan á 11 ára tímabili, 6 milljarðar kr., færu í að reka Hafrannsóknastofnun til grunnrannsókna.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur heykst á því að ná í nægilega fjármuni til rannsókna hjá Hafrannsóknastofnun af fjárlögum. Þess í stað er nú seilst í fjármuni verkefnasjóðsins og ákveðið að láta þá renna í ríkissjóð til að standa undir nauðsynlegum rannsóknum Hafrannsóknastofnunar sem enginn efast um að þurfi að ráðast í. Í stað þess að verið sé að bæta við til rannsókna eins og áður hafði verið talið er verið að taka þessa fjármuni og setja þá í venjulegar grunnrannsóknir. Þetta gerir ríkisstjórnin undir því yfirskini að verið sé að auka fjármuni til rannsókna. Það er alrangt. Með þessu er verið að minnka fjármuni til hafrannsókna um 660 millj. kr. Því segjum við þingmenn Samfylkingarinnar nei.