132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Verkefnasjóður sjávarútvegsins.

382. mál
[13:47]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp felur í rauninni í sér tvennt: Annars vegar er verið að auka með varanlegum hætti framlög til Hafrannsóknastofnunar um 100 millj. kr. frá og með næsta ári. Þar með hefur ríkisframlagið til Hafrannsóknastofnunar verið aukið um 10%. Þetta eru veruleg skref í þá átt að styrkja fjárhagslegar stoðir Hafrannsóknastofnunar og gera henni kleift að vinna að þeim fjölmörgu nauðsynlegu verkefnum sem hún þarf að vinna. Jafnframt þessu er verið að opna leiðir á það að hægt sé að stunda hafrannsóknir utan Hafrannsóknastofnunar, opna leiðir fyrir þá fjölmörgu vísindamenn okkar sem hafa áhuga á því að stunda þessar rannsóknir, enda kemur það glögglega fram í athugasemdum þeim og umsögnum sem sjávarútvegsnefnd hafa borist að það er mikill áhugi á þessu máli. Það er mjög mikil jákvæðni gagnvart þessu máli hjá flestum aðilum nema vitaskuld þeim sem alltaf eru neikvæðir, stjórnarandstöðunni á Alþingi.