132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að á þessu atriði verði tekið í lögum sem eru hér til meðferðar um opinber hlutafélög. Ég hlýt þó að mótmæla því að hlutafélagaform á Ríkisútvarpinu henti ekki vegna útvarpsþjónustu í almannaþágu. Ég get ekki séð að hlutafélagaformið henti eitthvað verr en t.d. sjálfseignarstofnunarformið til að standa í slíkum rekstri.

Ég leyfi mér síðan líka að efast um að það muni hvíla einhver sérstök leynd yfir starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég veit ekki betur en að gert sé ráð fyrir að haldnir verði aðalfundir í þessu félagi, að þetta félag muni hafa stjórn sem hafi eftirlit með starfsemi félagsins og að Alþingi geti eftir sem áður fylgst með starfsemi þess. Síðan gerum við auðvitað ráð fyrir að ríkisendurskoðandi muni ekki einungis endurskoða reikninga félagsins (Forseti hringir.) heldur líka hafa eftirlit með því að þeim fjármunum sem til þess renna (Forseti hringir.) með nefskatti verði varið með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að fara ekki fram yfir þann ræðutíma sem gefinn er í þessari umræðu.)