132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:15]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég kom að í fyrra andsvari mínu tel ég að um starfsemi Ríkisútvarpsins muni ekki fara sú leynd sem hv. þingmaður óttast svo mjög. Hann spyr hvers vegna upplýsingalög eigi ekki að gilda um þetta tiltekna hlutafélag. Því er til að svara að ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að það eigi ekki að setja neinar slíkar sérreglur um þetta hlutafélag umfram önnur hlutafélög. Það höfum við ekki gert þegar ríkisstofnanir hafa verið hlutafélagavæddar fram til þessa. Að mínu mati gildir það sama um þetta hlutafélag og önnur.

Það eru sömu prinsippin sem gilda í þessu og í skattamálunum. Menn hafa rætt um hvort þetta hlutafélag eigi að hafa einhverja sérstaka stöðu í virðisaukaskattslögunum umfram önnur hlutafélög. Ég er einfaldlega á móti slíkum sértækum aðgerðum og tel að almennar reglur eigi að gilda (Forseti hringir.) um þetta hlutafélag eins og öll önnur.