132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það var nú svo sem ekki von á frumlegri spurningu frá hv. þingmanni varðandi þetta mál. Hann hefur spurt mig þessarar spurningar margoft. Skoðanir mínar á ríkisrekstri og fjölmiðlum hafa ekkert breyst. Ég hef reynt að afla skoðunum mínum fylgis í þingsölum en hv. þingmaður hefur ekki haft neinn áhuga á að styðja slíkar hugmyndir. Það liggur því fyrir að enginn pólitískur vilji er til þess að einkavæða Ríkisútvarpið. Þegar það liggur fyrir hlýtur maður að spyrja: Hver eru þá réttu skrefin að taka í þessu máli?

Ég tel að við þurfum að breyta rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins og ég tel að hlutafélagaformið sé það form sem heppilegast sé til rekstrar á þessum fjölmiðli.