132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:18]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þorði ekki að gangast við sínum eigin skoðunum. Hann kom hingað í ræðustól eins og gamall landhelgisbrjótur sem breiðir yfir nafn og númer. Hann þorði ekki að gangast við því sem hann hefur áður sagt í þessum sölum, að selja eigi Ríkisútvarpið. Það finnst mér ekki boða gott fyrir framtíð þessa unga þingmanns, að minnsta kosti í þessu máli.

Það voru tveir möguleikar uppi. Annar var sá að gera þetta að hlutafélagi eða að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri í ljósi úrskurðarins sem kom frá ESA.

Þessi leið var farin. Hvers vegna? Annað frumvarp liggur hér fyrir þar sem á að gera hlutafélag úr ríkisstofnun og þar er skýrt nákvæmlega af hverju ekki var farin leið sjálfseignarstofnunar. Niðurstaða athugunarinnar var sú að það yrði auðveldara fá fleiri aðila til að taka þátt í hlutafélagi og til að auka hlutafé. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Um þetta snýst málið, (Forseti hringir.) að selja part úr Ríkisútvarpinu og að lokum að öllu leyti. Það er stefna þessa (Forseti hringir.) hv. þingmanns þó hann þori ekki að kannast við það núna.