132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar Alþingis, segir að hag Ríkisútvarpsins verði betur borgið sem hlutafélags en sem ríkisstofnunar og þá væntanlega fjárhagslega.

Mun hann stuðla að því og veita því brautargengi að Ríkisútvarpið fái meira fjármagn frá almenningi í landinu með nefskatti en það hefur fengið með afnotagjöldum til þessa? Mun hann styðja slíkt?

Í öðru lagi verður að segjast að margt af því sem hv. þingmaður sagði og lýtur að stjórnsýslu Ríkisútvarpsins fær hreinlega ekki staðist.

En hitt verður að leiðrétta, þ.e. að þetta frumvarp var rifið út ófullburða. Á því máli er yfirgnæfandi meiri hluti starfsmanna Ríkisútvarpsins sem kom saman til fundar í hádeginu (Forseti hringir.) og sögðu að í frumvarpinu væru opin (Forseti hringir.) ákvæði, það væri óútfyllt ávísun til frambúðar.