132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:22]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka eitt fram út af því sem hér kom síðast fram í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar varðandi réttindi starfsmanna. Ég tel að þau séu tryggð að fullu og það sem meira er, við erum að ganga lengra núna í að tryggja réttindi starfsmanna ríkisstofnunar sem breytt er í hlutafélag en áður hefur verið gert.

Hv. þingmaður veit það. Ég veit að hann þekkir þessi ákvæði og hann veit að með frumvarpinu er gengið lengra í þá átt að vernda réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Ég leyfi mér að mótmæla því enn og aftur að frumvarpið hafi verið rifið úr menntamálanefnd. Frumvarpið var til meðferðar í nefndinni í rúma tvo mánuði. Það komu upp undir 40 gestir á fundi nefndarinnar. Sumir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og jafnvel (Forseti hringir.) þrisvar sinnum. Málið fékk alla þá umfjöllun (Forseti hringir.) sem það átti skilið.