132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:25]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Rétt er að mótmæla því harðlega sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að vinnubrögð í nefndinni hefðu verið vönduð og mikil umræða. Þetta er alrangt og það er ekki að ástæðulausu sem hv. þingmaður í lok ræðu sinnar reyndi að klóra í bakkann varðandi eiginfjárstöðu Ríkisútvarpsins hf. ef það verður að lögum. Vegna þess að það liggur alveg ljóst fyrir í þeim gögnum sem fram hafa komið í nefndinni, í frumvarpinu sjálfu og í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að eiginfjárhlutfall hlutafélagsins er neikvætt ef engar breytingar verða gerðar.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að eðlilegt er að sækja fjármagn til slíkra hluta í fjárlög. En það vekur sérstaka athygli að í frumvarpinu sem hv. þingmaður er að leggja til að verði samþykkt, þá verður það samþykkt að lagðar verði til 5 millj. kr. til hlutafélagsins. Það liggur ljóst fyrir miðað við umsagnirnar að slík upphæð mun að sjálfsögðu þýða að eiginfjárhlutfallið verður neikvætt. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður segir hins vegar (Forseti hringir.) að svo verði ekki. Það er rétt að hann færi þá rök fyrir því hvernig á að tryggja (Forseti hringir.) það.