132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[14:30]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. og les það hér með, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er ekki skapaður til frambúðar sá starfsrammi sem Ríkisútvarpinu hæfir og þar með ekki sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu er nauðsynlegur. Með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag væri stigið varhugavert skref sem í langflestum tilvikum öðrum hefur leitt til sölu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Þá gera margir lausir endar í frumvarpinu og málatilbúnaði í tengslum við það að verkum að málið er vanreifað.

Lagarammi sá sem reynt er að marka starfsemi Ríkisútvarpsins með frumvarpinu er ekki ljós. Alls er óvíst að Ríkisútvarp það sem á að starfa eftir frumvarpinu verði raunverulegt almannaútvarp. Skilgreining frumvarpsins á hlutverki RÚV og skyldum er óglögg, þrátt fyrir ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu og forvera þess“ — því að frumvarpið um Ríkisútvarpið sameignarfélag kom fram á síðasta þingi — „að kröfu ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA. Í stað þess að móta Ríkisútvarpinu framtíðarstefnu hefur sá kostur verið tekinn að halda að mestu áfram því róli sem fyrirtækið hefur verið á síðan rekstrarumhverfi þess gjörbreyttist við afnám einkaleyfis árið 1985. Ólíklegt er að þessi lagarammi dugi Ríkisútvarpinu til lengdar. Reglur Evrópusambandsins eru í örri þróun á þessu sviði, og keppinautar Ríkisútvarpsins innan lands hafa uppi kröfur um að það noti ekki ríkisstuðning sinn til að bæta stöðu sína í samkeppni á ljósvakavettvangi umfram það sem eðlilegt getur talist fyrir almannaútvarp. Þá er ekki sennilegt að hin nýja fjármögnunarleið, nefskattur, sem á að taka upp í stað útvarpsgjaldsins, efli samstöðu meðal almennings við Ríkisútvarpið, einkum ef dagskrárframboð þess dregur dám af kröfum auglýsenda og kostenda á svipaðan hátt og í markaðsstöðvunum.

Meðmælendur frumvarpsins halda því fram að með breytingum á yfirstjórn sé losað um þau flokkspólitísku tök á Ríkisútvarpinu sem því hefur lengi verið þrándur í götu. Því miður er engin trygging fyrir því í frumvarpinu að pólitískri íhlutun linni. Að ýmsu leyti hefur menntamálaráðherra og ríkisstjórnarmeirihluti á Alþingi hverju sinni meiri möguleika en áður á að beita áhrifum sínum hvað varðar starfsemi og rekstur Ríkisútvarpsins. Frumvarpið er því ekki þess eðlis að það skapi frekari sátt að þessu leytinu. Efasamt er að frumvarpið stangist á við tilmæli Evrópuráðsins um sjálfstæði almannaútvarps frá 1994 og 1996.

Löngu var kominn tími til þess að skapa Ríkisútvarpinu nýjan lagaramma og gera því auðveldara að vera sjálfstætt og öflugt almannaútvarp. Frumvarp það sem nú liggur fyrir Alþingi er því miður ekki fullnægjandi. Það varð til sem málamiðlun milli stjórnarflokkanna tveggja, og milli andstæðra afla innan Sjálfstæðisflokksins, og hefur síðan smám saman verið lagfært þannig að standist lágmarkskröfur Eftirlitsstofnunar EFTA um samkeppnisaðskilnað á ríkisrekinni útvarpsstöð. Þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu með háeffuninni miðast við fyrirtæki í rekstri með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi en ekki almannaþjónustu þar sem eðlilegt þykir að allar viðeigandi upplýsingar liggi fyrir og að vald einstakra stjórnenda sé temprað. Gagnsæi í starfsemi á ekki að hafa að leiðarljósi við rekstur Ríkisútvarpsins hf. heldur er þvert á móti hætt við að breytingin leiði til leyndar og pukurs.

Frumvarpið gengur í mörgu of skammt og í öðru of langt — það er hvorki samið, flutt né afgreitt í menntamálanefnd með þeim hætti að skýr sýn ráði för. Verði frumvarpið samþykkt er ljóst að innan skamms þarf að taka lagarammann um Ríkisútvarpið til endurskoðunar á ný — eigi þau markmið að nást að skapa til frambúðar samstöðu um öflugt og sjálfstætt almannaútvarp.

Þrátt fyrir ýmsa vankanta síðari áratugi í dagskrárframboði, rekstri, mannaráðningum o.fl. lítur yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga enn svo á að Ríkisútvarpið sé einhver dýrmætasta sameign þjóðarinnar og treystir (PHB: Eru það ekki handritin?) því betur til frétta og fróðleiks en öllum öðrum fjölmiðlum.“

Pétur Blöndal spyr um handritin. Því er til að svara, forseti, að hér er talað um einhverja dýrmætustu sameign þjóðarinnar og það er ekki útilokandi hugtak heldur geta sameignir þjóðarinnar verið fleiri, þar á meðal handritin góðu, sem reyndar er nú þannig ástatt um að þau eru ekki eign Íslendinga og ekki heldur Dana, heldur má segja að þau séu á forræði heimsbyggðarinnar en í varðveislu og umsjón Íslendinga. (Gripið fram í.) Um það mætti, forseti, flytja nokkuð langan texta, sem ég er reiðubúinn til að gera úr því að hv. þm. Pétur Blöndal óskar eftir, og ég gerði reyndar hér í vatnalögunum, í umræðunni um vatnalögin, mig minnir að það hafi að vísu tekið mig u.þ.b. 30 mínútur. Ég gæti gert það aftur. Það var merkileg umfjöllun og byggðist m.a. á ritgerð í þeirri bók eftir Þorstein Gylfason sem liggur á borðinu mínu fyrir framan þann stað þar sem hv. þingmaður stendur núna. (Gripið fram í.) Ég hyggst geyma það þangað til síðar í umræðunni að fara í gegnum eignarrétt á handritunum og það sem við getum lært af því eignarfyrirkomulagi eða því forræðisfyrirkomulagi um þjóðareign og muninn á þjóðareign og einkaeign.

Úr því að hv. þm. Pétur Blöndal spyr þá er hér auðvitað miklu frekar um það að ræða með Ríkisútvarpið, eins og til þess er stofnað og eins og háttað er sambandi þess og þjóðarinnar, að um sé að ræða þjóðareign, þjóðarforræði yfir útvarpinu, en einkaeign ríkisins á þann hátt sem háttar til t.d. um bifreið í eigu ráðherra, eða sem ætlað er að þjóna ráðherra, eða stólarnir hér á Alþingi sem eru einkaeign ríkisins. Það er einkaeignarréttur ríkisins sem yfir þeim hvílir en þeir geta ómögulega talist þjóðareign í venjulegum skilningi þess orðs.

Ég tel nú, forseti, að rétt sé að halda áfram að lesa nefndarálitið, sem var nú það sem ég var að gera í fullkomnu sakleysi hér þegar mér var sparkað inn í umræðuna um þjóðareign á handritunum eða hver ætti handritin. Ég hafði sagt þetta, að Íslendingar að meiri hluta litu enn svo á að Ríkisútvarpið væri einhver dýrmætasta sameign þjóðarinnar og þessi yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga treystir því betur til frétta og fróðleiks en öllum öðrum fjölmiðlum. Það hefur komið fram í fjölda kannana og ég hygg að menn þekki þá staðreynd.

„Þar skiptir máli að í 76 ár hefur Ríkisútvarpið verið áhrifarík menningar- og uppeldisstofnun, hjálparhella í atvinnulífi til sjávar og sveita og miðill fyrir lýðræðisumræðu og afþreyingu. Staða Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps á Íslandi á liðinni öld var svo sterk að ekki verður víða til jafnað í Evrópu.

Í flestum nálægum ríkjum er litið svo á að þegar um slíka þjóðfélagsstofnun er að ræða beri stjórnmálamönnum að leita sem breiðastrar samstöðu um nauðsynlegar breytingar í tímans rás. Hér er einfaldast að minna á Bretland, þar sem stjórnmálaflokkarnir hafa borið gæfu til einstakrar samvinnu um þjóðarútvarpið BBC þrátt fyrir grimmileg átök um næstum alla aðra grunnþætti í bresku samfélagi á 20. öld.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki litið svo á þessi mál að nein þörf væri á samstarfi eða samráði um breytingar á Ríkisútvarpinu. Jafnvel eftir að þjóðin knúði ríkisstjórnina til samvinnu við stjórnarandstöðuflokkana um tilhögun fjölmiðlamála var ákveðið að stjórnarflokkarnir skyldu áfram véla um Ríkisútvarpið,“ — einir saman — „þrátt fyrir eindregnar óskir stjórnarandstöðunnar um að þessi mál væru bæði undir í vinnunni að fjölmiðlamálum. Þessi munur á vinnubrögðum menntamálaráðherra að fjölmiðlamálum annars vegar og málefnum RÚV hins vegar er undarlegur og vekur ýmsar spurningar.

Ekki hefur ráðherranum þó tekist betur til en svo að frumvarpinu frá fyrra þingi, sem þá stöðvaðist, var breytt verulega vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA og héldu þær breytingar áfram fram á síðustu dvalarstundir frumvarpsins í menntamálanefnd. Rétt er að minna á að bréf Eftirlitsstofnunarinnar og íslensku ráðuneytanna um þetta átti upphaflega að binda trúnaði, loksins þegar þau fengust afhent í nefndinni. Við það var ekki hætt fyrr en ljóst varð að slík binding væri á svig við upplýsingalög. Athyglisvert er einnig að mikilvægt bréf ESA, sem leiddi til breytingartillagna frá meiri hlutanum, var ekki kynnt í menntamálanefnd fyrr en 24. mars en er dagsett 20. janúar.“ — Þar munar meira en tveimur mánuðum.

„Þegar þessi ferill málsins er hafður í huga er í sjálfu sér viðeigandi að meiri hluti menntamálanefndar skuli að lokum hafa tekið málið út úr nefndinni gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga. Við bentum þá á að enn hefði ekki verið rætt við fulltrúa tveggja lykilstofnana vegna málsins, annars vegar Ríkisendurskoðunar sem á að annast endurskoðun hlutafélagsins og hafa meðal annars eftirlit með aðskilnaði samkeppnisrekstrar svokallaðs frá almennum rekstri,“ — rekstri útvarps í almannaþjónustu — „hins vegar Samkeppniseftirlits, en í hennar hlut kemur meðal annars að taka á málum sem varða samkeppni á markaði auglýsinga og kostunar, en á hvort tveggja leggur Eftirlitsstofnun EFTA mikla áherslu í bréfi sínu til íslenskra stjórnvalda dags. 20. janúar.“ — Það er villa, forseti, í nefndarálitinu, þar stendur 30. janúar en á að vera 20. eins og fram kemur áður. — „Þá var á það bent að ekki hefði verið farið yfir tilmæli Evrópuráðsins um almannaútvarp (fyrst og fremst R (96) 10 um að tryggja sjálfstæði almannaútvarps, samþykkt 4. ráðherrafundar Evrópuráðsins um fjölmiðlastefnu, Prag 1994). Þess var óskað að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til fyrir lægju upplýsingar um eiginfjárstöðu hins nýja hlutafélags, sem fulltrúi úr menntamálaráðuneytinu taldi að yrði innan 2–3 vikna, en þeirri ósk var hafnað.

Af þessu má vera ljóst að rannsókn nefndarinnar á málinu er áfátt á mikilvægum sviðum. Auk þess var aldrei efnt til umræðu um einstök atriði málsins innan nefndarinnar með þeim hætti að metnar væru tillögur um breytingar frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar og þess ekki freistað á nokkurn hátt að ná saman um frumvarpið í heild eða einstaka hluta þess.“

Vegna ummæla hv. formanns menntamálanefndar áðan um gang mála í nefndinni er rétt að taka tvennt fram, annars vegar almennt og hins vegar sértækt. Það virðist vera skilningur formanns nefndarinnar að vönduð afgreiðsla og fullnægjandi afgreiðsla máls í þingnefnd felist í því að sem flestir séu beðnir um umsögn og að töluverðum hópi þeirra sé síðan beint á fund nefndarinnar til þess að ræða við nefndarmenn, kynna umsögn sína, fara yfir hana og svara spurningum nefndarmanna. Það er vissulega rétt að þetta er ákaflega mikilvægur þáttur í umfjöllun máls í nefnd. Þessi fyrsti þáttur í nefndarstarfinu, að undantekinni þeirri kynningu frá ráðuneyti sem yfirleitt er undanfari þessa þáttar, aflar nefndarmönnum mikilvægra upplýsinga. Nefndin fær oftast góðar ábendingar og athugasemdir og það verður ljóst fyrir nefndinni hvernig landið liggur í hópi hagsmunaaðila og áhugamanna um það efni sem um ræðir. Þegar þessu lýkur er það hins vegar ekki svo að þar með sé lokið störfum nefndarinnar.

Í fyrsta lagi þarf að athuga hvort koma þeirra sem boðaðir voru kalli á að fleira sé gert í málinu, að aukinna upplýsinga sé aflað eða rætt við þá sem menn hafa nú komist að að kunni að skipta máli. Dæmi um það er að framan nefnt í nefndarálitinu sem ég las í þeim helmingi sem lokið er, um Ríkisendurskoðun og Samkeppniseftirlit. Þátttaka þeirra í þessu efni varð mér a.m.k. ekki fullljós fyrr en eftir umræðurnar um bréfið frá ESA sem dagsett er 20. janúar en barst okkur 24. mars, því þar var sérstaklega um það spurt hvernig háttaði til um þennan Icelandic General Auditor sem ég sá í orðabók að mundi vera Ríkisendurskoðun, og hvaða eftirlit það mætti hafa og hins vegar hverjir ættu að hafa eftirlitið gagnvart útvarpsstöðinni í samkeppni sinni við aðrar útvarpsstöðvar. Menntamálaráðuneytið eða formaður nefndarinnar svaraði með því að það væri Samkeppniseftirlitið.

Þessu nefndarstarfi lauk heldur ekki þótt full ástæða væri til með því að nefndinni væri ljós eiginfjárstaða þessa fyrirtækis sem í vændum er. Það kann að vera rétt hjá hv. formanni að ekki er fest niður eiginfjárstaða í lögum en það held ég að hljóti að vera fágætt að umsjónarmenn þjóðfélagsstofnunar eins og Ríkisútvarpsins breyti henni í annað rekstrarform án þess að mönnum sé ljóst fyrir fram hver eiginfjárstaðan er á fyrsta starfsdegi hins nýja fyrirtækis. Hér er ekki um að ræða — ég nefni jafnhátíðlegt fyrirtæki og Malbikunarstöð Reykjavíkurborgar eða önnur slík venjuleg fyrirtæki sem menn láta frá sér vegna þess að samkeppni er komin af þeim ástæðum sem flestir eru sammála um, að samkeppnin er orðin til á sviði þar sem hún var ekki til áður. Hér er um að ræða Ríkisútvarpið, hið 76 ára gamla Ríkisútvarp sem er einhver mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar, einhver mikilvægasti hlekkurinn í keðju lýðræðisins í samfélaginu, vinur í fjölskyldunum með fræðslu, skemmtun og barnaefni. Það er þess vegna aukin ábyrgð sem hvílir á þingnefnd þegar hún fer í þetta starf sem á að enda með því að slíkt fyrirtæki sé hlutafélagavætt, að vita hvernig fjárhagur þess verður á fyrsta degi hinnar nýju skipunar.

Ég hlýt síðan sérstaklega að gera athugasemdir við orð hv. formanns um Evrópuráðið og verð að lýsa því örlítið að ég bað formanninn — það var aðeins byrjað að tala við fólk sem fyrir nefndina kom — að stilla svo til að hægt væri að ná í einhvern mann til þess bæran að bera saman þessi tilmæli Evrópuráðsins, bæði almenna stefnu þess og sérstaklega tilmælin sem ég nefndi áðan, og nefndi við formanninn að bera þau saman við frumvarpið eins og það lægi fyrir. Ég minntist sérstaklega á í því sambandi að Evrópureglur um þessi mál sem okkur er skylt að fara eftir eða gera sérstakar athugasemdir við koma úr tveimur áttum, annars vegar frá Evrópusambandinu og þeirri stofnun sem við höfum þar okkur til sóknar og varnar, Eftirlitsstofnun EFTA, og hins vegar frá Evrópuráðinu.

Reglur Evrópusambandsins um ríkisútvarp og ríkisstyrki miðast við það meginhlutverk Evrópusambandsins að vera rammi utan um sameiginlegan markað. Evrópusambandið lítur fyrst og fremst á viðskiptaleg álitaefni og þess vegna er það sérstakt áhyggjuefni Evrópusambandsins, eða Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel, ESA, sem er nú oft kaþólskari en páfinn sjálfur, hvernig væri háttað um samkeppnisrekstur þann sem hér kynni að vera á ferðinni en þeir gerðu hins vegar ekki athugasemdir í sjálfu sér við skipan almannaútvarpsins eða reglurnar um það. Spurning þeirra var ósköp einfaldlega sú: Er með frumvarpi þessu, eða þeirri tilhögun sem menn vilja hafa, verið að brjóta þær reglur sem eiga að gilda um samkeppni á þessu sviði? Er almannaútvarpið með einhverjum hætti að þrengja að markaðsstöðvunum, að þeim stöðvum sem ekki njóta ríkisstyrkja og eru reknar á venjulegum viðskiptaforsendum?

Evrópuráðið tekur ekki þessa afstöðu. Evrópuráðið eru samtök Evrópuríkja sem fyrst og fremst beina starfi sínu, eins og þeir þekkja sem hafa verið í þinglegu samstarfi á vegum ráðsins, að mannréttindamálum og lýðræðismálum. Evrópuráðið var lengi mönnum nokkuð dulið í Evrópu, öðrum en þeim sem voru á ferðinni á fundum þar. Segja má að Evrópuráðið hafi fengið uppreisn æru og viðreisn í starfi þegar Austur-Evrópa varð frjáls undan oki Sovétríkjanna og kommúnisma vegna þess að Evrópuráðið hefur öðrum stofnunum fremur, held ég að hægt sé að segja, hjálpað til við að móta nýjar lýðræðishefðir og koma mannréttindamálum eystra í það lag sem til frambúðar getur gengið.

Það var því sjálfsagt að gera hvort tveggja, ekki aðeins það að standa í einhvers konar samningum eins og menntamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið eða fulltrúar þeirra tveggja ráðherra sem þar ráða töldu sig vera að gera við ESA og þá helst án þess að láta þingið nokkuð af því vita, heldur þurfti auðvitað líka að athuga það þegar við erum að breyta meira 70 ára gömlum grunnreglum um Ríkisútvarpið hvernig hinar nýju tillögur stæðust þær hugmyndir sem orðnar eru viðurkenndar í Evrópu um tilhögun almannaútvarps, og ekki bara viðurkenndar í Evrópu heldur sem hluti af samþykktum Íslendinga því að þeir eiga aðild að Evrópuráðinu. Þeir sóttu þá fundi sem um er rætt þar sem þessi tilmæli og samþykktir voru sendar út. Þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir að ekki sé hægt að fara í mál við okkur vegna þess að við brjótum hugsanlega þessar reglur og þess vegna þurfum við ekkert að skoða þær, þá er það nokkuð kaldranalegur hugsunarháttur og ummæli frá manni sem telst vera formaður menntamálanefndar á íslenska þinginu.

Niðurstaða minni hlutans í menntamálanefnd í áliti sínu um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Þar sem

a. ekki er ljóst í frumvarpinu með hvaða hætti Ríkisútvarpið á að sinna hlutverki sínu sem almannaútvarp og hver eiga að vera skil milli starfssviðs þess og annarra útvarpsstöðva,

b. eftirlitshlutverk Ríkisendurskoðunar og Samkeppniseftirlits er óljóst og ókannað hvort þessar stofnanir búa yfir faglegri hæfni til að skera úr um viðkvæm álitamál sem varða fjárhagslegan aðskilnað milli starfsemi á sviði almannaútvarps og á sviði markaðsstöðvar,

c. ekki er gert ráð fyrir viðeigandi gagnsæi í starfsemi og rekstri Ríkisútvarpsins, t.d. með því að um það gildi upplýsingalög,

d. tillögur frumvarpsins um kjör stjórnar og ráðningu útvarpsstjóra eru ekki til þess fallnar að hefja fagleg sjónarmið til vegs og virðingar og losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum,

e. ekki er í frumvarpinu gert ráð fyrir eftirlitsráði, t.d. í formi „akademíu“ með tilnefningum frá almannasamtökum, samanber m.a. leiðbeiningar Evrópuráðsins um verkaskiptingu stjórnar annars vegar og eftirlitsráðs hins vegar,

f. engin ákvæði frumvarpsins tryggja að innlent efni aukist í dagskrá Ríkisútvarpsins,

g. ákvæði í frumvarpinu um „a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá“ virðist ætlað að auðvelda afnám Rásar tvö,

h. ekki hefur í frumvarpinu eða í tengslum við það verið gengið með fullnægjandi hætti frá réttindamálum núverandi starfsmanna og óljóst er um starfskjör og samningamál í framtíðinni,

i. nefskattur sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er ekki heppileg leið til fjármögnunar, byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda,

j. fjárhagsleg staða hlutafélagsins sem frumvarpið gerir ráð fyrir er í óvissu og ráðgert hlutafé svo lítið að félaginu virðist ætlað að hefja starfsemi sína með neikvæða eiginfjárstöðu,

k. ekki hefur verið gengið frá ráðstöfun þeirra verðmæta sem Ríkisútvarpið býr nú yfir í söfnum sínum og ekki fyrirhugaðir samningar við aðra rétthafa um þau,

l. og hvorki menntamálaráðherra né meiri hluti menntamálanefndar hafa borið við að ná samstöðu um framtíð Ríkisútvarpsins, sem er einhver helsta lýðræðis- og menningarstofnun í íslensku samfélagi, leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá: Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“

Undir álit þetta skrifa Mörður Árnason, Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson og Kolbrún Halldórsdóttir.

Ég vil síðan segja í framhaldi af þessu að þetta er hið sameiginlega nefndarálit okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og á þessum grunni stöndum við saman gegn frumvarpinu. Ég hygg að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir komi á eftir og lýsi sjónarmiðum sínum og flokks síns til frumvarpsins umfram það sem kemur fram í nefndarálitinu og sérstaklega þar sem þau kunna að vera önnur en Samfylkingarinnar. Ég vænti þess að hún fyrirgefi mér að á eftir tala ég einkum fyrir munn okkar þriggja samfylkingarmanna í menntamálanefnd, auk mín þeirra hv. þingmanna Björgvins G. Sigurðssonar og Einars Más Sigurðarsonar. Ég er ekki þar með að gera ráð fyrir að Kolbrún eða félagar hennar séu mér ekki sammála í meginhluta þess sem ég ræði hér. Það er blæbrigðamunur, áherslumunur og kannski efnismunur — hugsanlega talsverður í einhverjum málum — á milli okkar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þeirri vinnu sem hefur farið fram um Ríkisútvarpið. Ég er ekki viss um að hann sé í sjálfu sér mikill eða varði mjög mikilvæg mál og ef við nytum þeirrar gæfu að vera sett í að vinna saman að þessu efni geri ég ráð fyrir að það yrði tiltölulega fljótlegt að komast að niðurstöðu um sameiginlegt álit með málamiðlunum sem eru tæki stjórnmálanna til að komast að efnislegri niðurstöðu og geta haldið áfram að lifa og skapa.

Í upphafi nefndarálits okkar er talað um starfsfrið og um samstöðu. Það má auðvitað spyrja að því af hverju við leggjum slíka áherslu á starfsfrið og samstöðu um Ríkisútvarpið, þá áherslu sem fram kemur í því að fyrstu setningarnar í nefndaráliti okkar eru helgaðar því máli. Af hverju viljum við nákvæmlega í þessu máli að menn séu samferða, að stjórnmálaflokkarnir eigi samleið eins og hægt er og reyni að búa sér hana til, að vinna að málefnum Ríkisútvarpsins og breytingum á lagaramma þess og starfsemi allri, að hún fari fram ásamt starfsmönnum þar, ásamt blaðamönnum og fjölmiðlamönnum, ásamt fræðimönnum, áhugamönnum um Ríkisútvarpið og ásamt öllum þeim almenningi sem lætur sig málið að einhverju leyti skipta? Ja, af hverju ekki í öllum málum? Svarið er auðvitað: Jú, best er að hafa það þannig í öllum málum. Hins vegar eru auðvitað til þau pólitísku átakamál á vettvangi dagsins sem krefjast þess, þótt stjórnarandstæðingar hverju sinni kunni að vera óánægðir með það, að teknar séu ákvarðanir og að þegar menn eru búnir að lýsa skoðunum sínum á þeim þá ráði meiri hlutinn eins og lýðræði okkar gerir ráð fyrir, að undangenginni umræðu, þannig að allir hafi getað lýst skoðunum sínum á málinu og öllum sé sem ljósust niðurstaðan af því að meiri hlutinn ráði. Í því ferli gerist það auðvitað líka alla jafna að meiri hlutinn breytir að einhverju leyti skoðun sinni, fellir hana að skoðunum annarra þannig að það myndast víðtækari samstaða en stefnt var að í byrjun.

Hér er sérstakt mál á ferðinni og það skiptir mjög miklu máli að skapa frið í kringum það til frambúðar, að skapa frið og samstöðu um útvarp allra landsmanna. Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930 og þegar það var stofnað voru ekki nema tólf ár liðin frá því að Ísland varð sjálfstætt og fullvalda ríki. Á þeim tíma voru Íslendingar að koma sér upp ýmsum stofnunum í ríki sínu sem þá var sjálfstætt og fullvalda í tengslum við Danmörku gegnum sameiginlegan konung, með danskri verktöku í utanríkismálum, svipað og gilt hefur um varnarmálin frá 1951 til ársins 2006. Þau tólf ár sem liðu frá stofnun fullveldisins 1918 og til stofnunar Ríkisútvarpsins 1930 eru sennilega ástæðan fyrir því ætlunarverki Íslendinga og stjórnmálamanna og alþýðu og almennings á þeim tíma að þjóðfélagið byggi sér til það sem þarf að vera í einu þjóðfélagi, kæmi sér upp þeim búshlutum og gögnum sem búinu tilheyra. Þetta er sennilega ástæðan fyrir því að Ríkisútvarpið heitir Ríkisútvarp, það er ágætt að rifja það upp hér.

Ef við værum núna að stofna einhverja álíka stöð eða einhverja álíka gagnlega stofnun mundum við sennilega ekki nota orðið ríki heldur mundum við sennilega nota orðið þjóð eða kenna hana við Ísland eða Íslendinga með einhverjum hætti. En þarna voru menn sem sé stoltir af því að nota orðið ríki og notuðu það mikið. Ég minnist úr æsku minni Ríkisútgáfu námsbóka sem var til fram á að ég held síðasta áratug a.m.k. og fleira af þessu tagi var þá stofnað. Hlutverk Ríkisútvarpsins var sem sé að þessu leyti beinlínis samfélagslegt, það átti að vera einn af búshlutunum í samfélagi Íslendinga. Það er hollt fyrir okkur núna að minnast þess hlutverks og hvernig það gekk upp fyrir íslenskum almenningi í Íslandssögunni allt frá upphafsdögunum á fjórða áratugnum þegar menn söfnuðust saman á heimilum til að hlusta á örstutta dagskrá úr viðtækjum sem ekki voru þá í hvers manns ranni. Ég heyrt af því sögur að í sveitum fóru menn langar leiðir, klukkutíma, tvo klukkutíma, öll börnin á bænum, á næsta bæ til þess að hlusta á stutta dagskrá Ríkisútvarpsins á kvöldin, fréttir í nokkrar mínútur, klassískt tónverk sem snemma var nú umdeildur þáttur í dagskrá útvarpsins, íslenska söngmenn, fyrirlestur hjá fræðimanni og nokkur danslög á laugardagskvöldum eða sunnudagskvöldum. Þetta lögðu menn á sig fyrir þetta og það er ótrúlegt fyrir okkur nútímamenn að virða þetta fyrir okkur.

Hlutverk Ríkisútvarpsins var ekki bara menningarlegt, ekki bara uppeldishlutverk með ýmsu móti heldur var það auðvitað líka beinlínis stoð fyrir atvinnulífið með fréttaflutningi, þar á meðal ítarlegum veðurfréttum frá upphafi og til okkar daga, sem hafa skipt samfélag okkar, íslenska samfélagið mjög miklu máli, og líka með fræðslu og umræðu. Ekki má gleyma því að Ríkisútvarpið hefur leikið ákaflega mikilsvert hlutverk í lýðræðisskipan okkar. Í miðjum látunum sem hér stóðu bæði fyrir stríð og sérstaklega kannski í kalda stríðinu, sameinuðust menn um að hefja Ríkisútvarpið eins og hægt var yfir flokkadrætti og reyna að hafa það sem einhvers konar íslenskan samnefnara í því samfélagi sem stjórnmálaflokkarnir réðu mörgu í og flestu alveg fram undir okkar tíma og gera kannski óþægilega mikið enn, að þá var Ríkisútvarpinu ætlað að þræða hið þrönga einstigi þannig að því væri hægt að treysta. Það átti að vera hlutlaust og það átti að vera hlutlægt og þetta reyndi Ríkisútvarpið að vera af öllum kröftum, hlutlaust og hlutlægt, með öllum þeim þverstæðum sem í því fólust, t.d. þeirri þverstæðu að hlutleysi er ekki sama og hlutlægni.

Það er hollt að minnst þessa vegna þess að þessi saga hefur búið Ríkisútvarpinu ákveðinn stað í samfélagi okkar og í þjóðarhjartanu sem er kannski ekki mjög vísindalegt hugtak en engu að síður til með einhverjum hætti. Við sjáum af þessu að verðmæti Ríkisútvarpsins kemur ekki bara fram í eiginfjárstöðunni sem við ræddum hér um áðan, sem betur fer ekki eingöngu í hæfu starfsfólki og reynslu þess, ekki bara í dýrmætunum sem við eigum í söfnum útvarps og sjónvarps heldur líka í sjálfri sögu þess og þeim sess sem það hefur skapað sér í menningu, lýðræði, menntun og fjölskyldulífi á Íslandi allan þennan langa tíma frá 1930.

Við erum hér, forseti, að ræða um einhverja merkilegustu samfélagsstofnun síðan nútíminn varð til á Íslandi. Við lifum á hveli hverfanda, það er gamall sannleikur og nýr, og einmitt núna eru breytingarnar hraðar í kringum okkur, hafa kannski aldrei verið hraðari, á fjölmiðlasviði auðvitað og í daglegu lífi, að ekki sé minnst á hnattvæðingu og loftslagsvanda, nýja pólitíska heimsmynd, stórveldi sem vaxa og hníga. Á slíkum tímum er ákaflega mikilvægt að geta brugðist við nýjungum, gert sér tækifæri úr nýjum aðstæðum en við þurfum líka að gæta þess að missa ekki fótanna, við verðum að kunna að meta trausta hornsteina hinna háu sala, bæði í lífi okkar hvers og eins og í samfélaginu sjálfu. Við megum ekki glutra niður þeim árangri sem okkur var færður í hendur, ekki sóa verðmætunum sem hér hafa byggst upp. Þetta sjónarmið varðar m.a. Ríkisútvarpið og fyrir okkur stjórnmálamenn sem Íslendingar hafa nú gert að fulltrúum sínum á þingi og í ríkisstjórn merkir þetta að við eigum eða ættum a.m.k. að einbeita okkur að þessu máli með sérstakri athygli og gætni í því augnamiði að ná samkomulagi, sátt sem gæti leitt til samstöðu um þetta mál til frambúðar.

Maður veltir því fyrir sér: Af hverju hefur þetta ekki verið sú leið sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar hafa farið? Af hverju hefur hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ekki valið þessa leið? Ég kann ekki svör við því og kalla eftir þeim hjá meðmælendum frumvarpsins, einn þeirra situr hér í salnum, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, annar situr í forsetastóli, hv. þm. Birgir Ármannsson. (Gripið fram í.) Ég biðst afsökunar á því, hér er komin nýr forseti sem er nú ósennilegur til að styðja þetta frumvarp, þannig að svarskyldan hvílir hér á Dagnýju Jónsdóttur einni a.m.k. af þeim sem hér í salnum sitja. Nú er kominn einn gangandi stjórnarliði í salinn líka og svarar þessu kannski enn fremur.

Nefna má auðvitað nokkrar skýringar. Að einhverju leyti kann þetta að vera kredda úr nýlíberalismanum, úr þeirri kenningu sem hefur verið ráðandi afl í hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins síðustu 20 árin. Það styður þetta m.a. að einir þrír þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa flutt sérstakt frumvarp um að selja Ríkisútvarpið eins og minnst var á hér í andsvörum áðan. Ég hygg að það frumvarp hafi fyrst verið flutt á síðasta þingi og þá hafi 1. flutningsmaður þess verið Pétur H. Blöndal hv. þm. og síðan þeir Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson hv. þingmenn. Það er auðvitað athyglisvert að tveir hinir síðarnefndu eru núna skrifaðir undir meirihlutaálitið úr menntamálanefnd um Ríkisútvarpið hf. og mynda þar með þann meiri hluta. 40% þeirra þingmanna sem skrifa undir meirihlutaálitið eru á móti því að Ríkisútvarpið sé til sem almannaútvarp. Heilir tveir af þessum fimm sem skrifa undir meirihlutaálitið úr menntamálanefnd vildu selja Ríkisútvarpið á síðasta þingi. Annar þeirra er nú formaður menntamálanefndar, sem hann var ekki síðast, en hinn, hv. þm. Birgir Ármannsson, var kallaður inn í forföllum, ég man ekki hvaða hv. þingmanns í menntamálanefnd, og varð góðfúslega við þeirri beiðni og greiddi atkvæði með meirihlutaálitinu, glöðu hjarta og reistu höfði.

Þetta var endurflutt á þessu þingi — þegar ég var að athuga þetta tókst tölvukerfi Alþingis að bila á nákvæmlega þeim stað sem ég þurfti að fara inn á en ég verð þá leiðréttur hér ef það er ekki rétt — en þá bregður svo við að maður saknar vinar í stað þar sem Sigurður Kári Kristjánsson er nú ekki einn af flutningsmönnum þessa frumvarps, sem kann að standa í tengslum við þá breytingu á högum hans að hann er nú orðinn formaður menntamálanefndar og kynni að skammast sín fyrir að vera annars vegar formaður menntamálanefndar sem á að fylgja fram frumvarpi menntamálaráðherrans og hins vegar að vera á sama þinginu flutningsmaður frumvarps um að selja Ríkisútvarpið. En eins og vinsælt er að segja í Sjálfstæðisflokknum þá gerir þetta sama gagn. Það gerir sama gagn vegna þess að hv. þingmaður lýsti því hér áðan skýrt og greinilega að mér heyrðist að hann væri enn þá áfram um að selja Ríkisútvarpið og það væri eingöngu vegna þess að fylgismenn hans aðrir í Sjálfstæðisflokknum einhverjir og síðan framsóknarmenn vildu ekki styðja hann í þessu og það væri eina ástæðan fyrir því að hann styddi þó eitthvað sem væri í áttina. Væri í áttina, segi ég, vegna þess að það er athyglisvert í þessu dæmi að 1. flutningsmaður frumvarpsins um að selja Ríkisútvarpið, hv. þm. Pétur Blöndal, sem því miður er ekki hér í salnum en ég veit að fylgist með á skrifstofu sinni af miklum áhuga, þegar hann var að bera saman sitt frumvarp og frumvarp menntamálaráðherra og fannst sitt betra þá sagði hann þetta, með leyfi forseta:

„Ég tel að frumvarp hæstv. menntamálaráðherra yrði þó til að bæta stöðuna frá því sem nú er.“ Þó að það sé vont, sem sé. „Ég mun því eiga í vandræðum með að greiða atkvæði þegar þar að kemur. Væntanlega mun ég greiða atkvæði gegn 1. greininni til að byrja með“ — greinin er um að til sé sjálfstætt hlutafélag í eigu ríkisins sem heitir Ríkisútvarpið hf. og að sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess sé óheimil — „eða sitja hjá. Ég hef ekki enn alveg áttað mig á því en kannski verða gerðar viðunandi breytingar í menntamálanefnd. Ég mun a.m.k. sitja hjá við þá grein en að öðru leyti mun ég styðja frumvarp menntamálaráðherra þótt það gangi ekki eins langt og ég gjarnan vildi,“ segir Pétur Blöndal hv. þm.

Hann lýkur þessari ræðu sinni svo, með leyfi forseta:

„Það býður þó upp á leið til að hægt sé að selja það eftir einhvern tíma.“

Ég endurtek vegna þess að ég tel hollt fyrir hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson að hlusta hér á félaga sinn um þetta efni.

Pétur Blöndal sagði þetta, með leyfi forseta:

„Það býður þó upp á leið til að hægt sé að selja það eftir einhvern tíma.“

Það er forsendan fyrir því að hv. þm. Pétur Blöndal ætlar að styðja frumvarpið eða gerir ráð fyrir því. Það er kannski líka ástæðan fyrir því að félagar hans þeir Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, 40% meiri hluta menntamálanefndar, þess sem samþykkti jákvætt nefndarálit um þetta frumvarp, að þeir hyggjast líka styðja þetta frumvarp menntamálaráðherra.

Önnur skýringartilgátan liggur einfaldlega í starfsstíl menntamálaráðherra og metnaði hennar. Hún fékk pólitískt uppeldi sitt á tímum Davíðs Oddssonar sem formanns Sjálfstæðisflokksins og leiðtoga ríkisstjórnarinnar og það uppeldi markar þessa kynslóð af sjálfstæðismönnum. Það hefur nokkuð einkennt menntamálaráðherra að hún hefur farið fram með mál — eigum við ekki að reyna að orða það jákvætt — af miklum þrótti og hug og hefur ekki sést fyrir í málatilbúnaði sínum hvað sem andstæðingar kunna að segja og hvað sem þeir kunna að hafa við það að athuga sem málið einkum varðar eða bitnar á, sem oftast er. Þetta er meginsniðið í starfsstíl menntamálaráðherrans og auðvitað passa þessi vinnubrögð við frumvarpið við þann starfsstíl.

Þær leiðir sem farnar eru í frumvarpinu eru auðvitað þvert á forna stefnu Framsóknarflokksins og það vekur auðvitað líka hugleiðingar. Til að geta verið með í þessu þurfti flokkurinn sérstaklega að taka sig til og breyta samþykktum sínum um Ríkisútvarpið á flokksþingi sem haldið var fyrir nokkru. Framsóknarflokkurinn hafði það að stefnu sinni að Ríkisútvarpið ætti að vera sjálfseignarstofnun en í miðri þessari á skipti Framsóknarflokkurinn um hest og snaraði sér yfir á hest hlutafélagsins.

Það kemur auðvitað ekki á óvart. Framsóknarflokkurinn er hættur að koma á óvart. Það er ekkert spennu-element lengur í framgöngu Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Hann er satt að segja varla lengur eiginlegur flokkur með stefnu eða baráttumál eða lýðræðislegt flokksstarf eða neitt af því sem einkennir stjórnmálaflokk, heldur er hann í raun og veru pólitískur armur viðskiptaveldisins sem einstaklingar komust yfir úr gamla SÍS og síðan er hann auðvitað eins konar atvinnumiðlun, eins og rakið hefur verið og skoðað í þessum ræðustól og annars staðar í samfélaginu. Af slíku fyrirbrigði í stjórnmálum er ekki við miklu að búast.

Þriðja skýringartilgátan fellur reyndar ágætlega að þessu nýja eðli Framsóknarflokksins. Hún er hreinlega sú að stjórnarflokkarnir — þegar þeir fara að ráðast í þessar breytingar vilja þeir ekki missa tök sín á Ríkisútvarpinu — vonist til þess að þau geti haldist með þessu frumvarpi og jafnvel að þeim sé þá betur fyrir komið þar sem þau eru óbeinni. Það er ekki lengur meiri hluti í útvarpsráði sem leggur línuna, það eru ekki gömlu beinu tengslin milli menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og útvarpsstjóra Sjálfstæðisflokksins sem við höfum þurft að horfa á að undanförnu heldur óbeinni leiðir.

Geta komið upp fréttastjóramál eftir að þetta frumvarp er samþykkt? Vissulega. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem tryggir að farið sé fram af faglegum metnaði við mannaráðningar eða að þar ráði ekki annarleg sjónarmið, því miður. Munurinn á því fréttastjóramáli sem nú gæti komið upp og því sem kom upp hér um árið er sá að þá voru þó a.m.k. upplýsingar um málið það greiðar að það sást hvað verið var að gera og hægt var að bregðast við innan húss, hér á þinginu og um allt samfélagið. En hætt er við að með þeirri leynd og þeirri litlu valddreifingu sem um er að ræða í Ríkisútvarpinu hf. mundi útvarpsstjóri einfaldlega geta gengið frá því máli að ráðum stjórnar eða án þeirra, án nokkurrar innri umræðu og án nokkurrar skyldu um upplýsingar þannig að menn stæðu frammi fyrir orðnum hlut, óbreytanlegum, þegar upp kæmi.

Það er sem sé ákaflega óheppileg aðferð að fara svona fram, eins og stjórnarflokkarnir og ráðherrann hæstv. hafa gert, og ekki vænlegt til árangurs til lengdar litið. Þetta er sérkennilegt vegna þess að þegar maður lítur til grannlandanna einbeita menn sér alls staðar að því að hafa starfsfrið og halda sæmilega sátt um hlutverk ríkisútvarps. Slíkur friður hefur skapast um almannaútvarpið í helstu grannlöndum okkar, í Bretlandi með BBC, í Noregi með NRK, í Danmörku með DR, í Svíþjóð með SR þar sem verið er að leggja til reyndar mjög athyglisverðar formbreytingar núna en með allt, allt öðrum hætti en hér er gert og væri ástæða til að rekja það síðar í umræðunni.

Samt eru allir nema Pétur Blöndal og menn hans, hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson, sammála um það, a.m.k. í orði, að Ríkisútvarpið sé ein besta tryggingin fyrir fjölbreytilegri og lýðræðislegri fjölmiðlun, að Ríkisútvarpið sé ein helsta leiðin sem við getum haft til að halda hér fjölræðislegri skipan til að vinna gegn óæskilegum áhrifum af samþjöppun á fjölmiðlavettvangi sem menn hafa áhyggjur af og hafa haft lengi. Þó hlýða menn ekki þeim náttúrlegu og lýðræðislegu kröfum til sérhverrar ríkisstjórnar að haga sér þannig við fyrirhugaðar breytingar á stofnun eins og Ríkisútvarpið er — þá á ég við stofnun í félagsfræðilegri merkingu en ekki viðskiptafræðilegri — að slíkur friður skapist að almenningur geti treyst Ríkisútvarpinu sem heiðarlegu almannaútvarpi í þágu menningar og lýðræðis.

Það hefur ekki verið gerð tilraun til að skapa slíkan frið, efna til almennrar umræðu og sameiginlegrar stefnumótunar um Ríkisútvarpið. Það stendur þó ekki á stjórnarandstöðuflokkunum að leggja sitt fram til þess. Hver og einn, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin — grænt framboð, Frjálslyndi flokkurinn, hefur flutt ítarleg þingmál um Ríkisútvarpið en stjórnarflokkarnir hafa í staðinn fyrir að leggjast yfir þau og reyna að ná almennri sátt kosið að pukrast með málið, en það er rétt að minnast þess frá því í fyrra að í upphafi var RÚV-frumvarpið unnið nánast í myrkrakompum, enginn mátti vita hverjir voru að verki. Það var spurt hvar það væri og það var hvergi og enginn vissi það. Spurt var hverjir væru að vinna það og það vissi enginn þangað til að tveir lögfræðingar gengu á fund menntamálanefndar, þeir Sigurbjörn Magnússon og Jón Sveinsson, sem hafði verið falið sem verkefni að búa til frumvarp handa þjóðinni um nýtt ríkisútvarp. Það eru hvort tveggja mætir menn en hafa — þið fyrirgefið orðfærið, það kom hér fram áðan hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni — ekki hundsvit á fjölmiðlalegum þætti málsins eða lýðræðislegum þætti málsins. Þetta segi ég vegna þess að það kom ljóst fram í umræðunum við þá sem, eins og ég segi, eru að öðru leyti auðvitað fínir fagmenn á sínu sviði.

Vinnubrögðin hafa öll verið á þessa leið. Málið hefur verið keyrt áfram með látum án þess að gera nokkurs staðar ráð fyrir samræðu eða umhugsun umfram tómar formsreglur. Það hefur rekið sig á einn vegg sem ekki hefur látið undan og það er veggur Evrópusambandsins. Þess vegna varð að breyta frumvarpinu, eins lítið og hægt var, en vinnubrögðin hafa orðið til þess að öðru leyti að málið er, eins og segir í nefndaráliti minni hlutans, vanreifað í mikilvægum atriðum.

Forseti. Í nefndaráliti okkar, sem ég ætla að tala hér aðeins meira um eftir að ég hef farið yfir, kannski í nokkuð löngu máli, aðferðirnar við flutning þessa frumvarps, er fjallað um þrjá helstu galla frumvarpsins í meginmáli nefndarálitsins.

Þeir eru í fyrsta lagi að ekki hefur í raun og veru verið búin til nein stefna um það hvort Ríkisútvarpið á að vera almannaútvarp í framtíðinni eða hvort það á að vera blanda af almannaútvarpi og markaðsstöð eftir einhvers konar hentugleikum svipað og raunar hefur verið síðustu 20 árin.

Í öðru lagi er það mikill galli á frumvarpinu að það kemur ekki í veg fyrir að flokkspólitísk ítök haldi áfram. Eins og ég sagði áðan getur fréttastjóramálið gerst upp á nýtt og öll þau mál önnur sem upp hafa komið og þau sem ekki hafa komið upp. Það er engin trygging fyrir því í frumvarpinu að útvarpið verði sjálfstætt.

Í þriðja lagi er það galli á frumvarpinu að það gerir ráð fyrir rekstrarformi, hlutafélagsforminu, sem ekki hentar Ríkisútvarpinu, a.m.k. ekki sem almannaútvarpi. Frumvarpsflytjendur, flytjandinn og síðan styðjendur frumvarpsins, virðast hafa valið það versta úr báðum heimum, annars vegar eru þeir að búa til fyrirtæki með ríkisstuðningi sem keppir sem hlutafélag á markaði með öllum þeim tækjum sem hlutafélagsformið færir því í hendur, en síðan hvílir hlutafélagsleyndin yfir starfseminni og rekstrinum, einnig að því leyti sem snýr að almannaþjónustunni þannig að almenningur og fulltrúar hans hafa samkvæmt frumvarpinu enga von um að fá sérstakar upplýsingar um það sem viðkemur rekstri og starfsemi. Annað mál er svo, af því að Sigurður Kári Kristjánsson nefndi í andsvari að e.t.v. yrði leyndin ekki jafnmikil, að auðvitað ræðst það af mönnum og aðstæðum hvernig þetta verður á hverjum tíma. Það sem skiptir höfuðmáli hér er að stjórnendum er ekki skylt, það hvílir engin skylda á þeim um að gefa upplýsingar um almennan rekstur og almenna starfsemi.

Almannaútvarp eða markaðsstöð. Árið 1985 var afnám einkaleyfis Ríkisútvarpsins til útvarps á Íslandi samþykkt í þessum sal eða þessum sölum, því að þeir voru tveir á þeim tíma eins og við vitum. Síðan hefur í raun og veru ekkert gerst í innra skipulagi Ríkisútvarpsins eða í þeim starfsháttum þess sem ákveðnir eru í lögum og reglum. Þó hafa orðið miklar breytingar á þessum 20 árum og enn meiri eru fram undan á næstu árum með stafrænni skipan og tröllauknu framboði á efni, einkum erlendu, einkum ensku. Hér eru nú tvær stöðvar, 365 miðlarnir og Síminn með Skjá einn, sem senda út á sjónvarpsrásum og útvarpsrásum, og fleiri hygg ég á útvarpsrásum og reyndar í sjónvarpi líka en þó ekki á landsvísu þannig að um sé talandi, þannig að ljósvakavettvangurinn er skipaður þessum tveimur og Ríkisútvarpinu að meginhluta.

Menn hafa í nokkur ár gert athugasemdir við eigendur þessara stöðva, a.m.k. annarrar þeirra, og samþjöppun eignarhalds þar. Við deilum ýmsum áhyggjum af þeirri þróun, en eins og áður kom fram teljum við einmitt að besta ráðið til að tryggja fjölræði í fjölmiðlun og til að bregðast við hættunum af samþjöppun eignarhalds á því sviði sé öflugt Ríkisútvarp. Við sjáum hins vegar ekki vit í því að slíkt útvarp í eigu þjóðarinnar sé gert út með einhverjum hætti á hverjum tíma til að keppa við aðrar stöðvar á þeirra forsendum, hinum markaðslegu forsendum, heldur er það hugmynd okkar að Ríkisútvarpið sé öflugt og sjálfstætt almannaútvarp sem sinnir hlutverki sínu sem heildstæð útvarps- og sjónvarpsstöð með áherslu á þjónustu við íslenskt samfélag með sínar sérstöku menningarlegu og lýðræðislegu skyldur.

Það er kannski rétt að spyrja hér í upphafi 2. umr. um frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið, annað frumvarp ráðherrans um þetta efni: Af hverju eiga stjórnvöld að skipta sér af fjölmiðlum? Ég er nefnilega sammála þeim Pétri Blöndal, Birgi Ármannssyni, hv. nefndarmanni í forföllum, og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, flutningsmanni fyrra frumvarpsins um sölu Ríkisútvarpsins en nú formanni menntamálanefndar, um eitt. Um það að sérstök rök þarf til þess að stjórnmálamenn, handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, skipti sér af fjölmiðlun. Það þarf sérstök rök, sem á hverjum tíma þarf að endurskoða og meta, til að ríkisvaldið sjálft reki fjölmiðil eða fjölmiðill njóti sérstaks stuðnings frá ríkisvaldinu, eftir því hvernig menn vilja orða þetta og eftir því hvernig það liggur á hverjum tíma.

Við í Samfylkingunni höfum verið að huga að þessu efni síðan flokkurinn varð til um aldamótin og um leið höfum við verið að móta stefnu um nauðsyn almannaútvarps. Við teljum að stjórnvöld og stjórnmálamenn hafi sérstökum skyldum að gegna og að þær skyldur byggist á því að berjast fyrir almannahagsmunum í því samfélagi sem við viljum byggja, í samfélagi lýðræðis, samfélagi sem í auknum mæli byggist á þekkingu og menningu. Grundvallarsjónarmið í fjölmiðlastefnu okkar eru þau að það sé hlutverk stjórnvalda að tryggja sem kostur er að ætíð séu til staðar góðir fjölmiðlar sem uppfylli kröfur almennings um upplýsingu, fræðslu og afþreyingu, að fjölmiðlun í landinu sé samofin menningu þjóðarinnar og menningararfi, en opin nýjum áhrifum jafnframt, og að fjölmiðlun sé eðlilegur hluti lýðræðislegrar framvindu í samfélaginu. Við teljum mikilvægt að tjáningarfrelsið og réttur til upplýsinga sé tryggður með almennum leikreglum og við teljum að stjórnvöld verði líka að gæta þess að fjölbreytileg fjölmiðlafyrirtæki hafi svigrúm til blómlegs rekstrar.

Hér er talað um fjölmiðlana í heild og skyldu stjórnvalda gagnvart fjölmiðlavettvanginum sem slíkum, skyldur sem bæði felast í því að gera og gera ekki, að gera með því að huga að rekstrargrundvelli fjölmiðlanna, að sköpun tækifæra á fjölmiðlasviði, en gera ekki með því að virða tjáningarfrelsi og markaðslegt svigrúm einstaklinga og fyrirtækja. Innan þessa ramma leggur Samfylkingin áherslu á hlutverk almannaútvarps og við höfum gert rækilega grein fyrir viðhorfum okkar í þessa veru í greinargerð með þingsályktunartillögu um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp sem flutt var á síðasta þingi.

Það er ef til vill þörf á því í framhaldi af þessu að ræða aðeins almennt um almannaútvarp. Skilgreiningin á því hefur verið nokkuð á reiki í umræðu hérlendis og þarf engan að undra í sjálfu sér. Við höfum miðað allt okkar við Ríkisútvarpið sem slíkt og talað um það eins og það er á hverjum tíma, sum okkar sem hið æðsta markmið, eins og það starfar með smávægilegum endurbótum. Önnur okkar hafa viljað breyta því verulega og sum selja það eins og áður hefur komið fram í þessari umræðu. Það er auðvitað líka þannig að þó að hægt sé að styðjast við nokkuð nákvæma almenna skilgreiningu á fræðasviði þá hlýtur útfærslan að miðast við stöðuna í hverju ríki eða á hverju því svæði sem almannaútvarpið tekur til.

Ég hef rakið það áður hér að við fengum aldrei svar eða viðbrögð við þeirri beiðni okkar að bera tilmæli Evrópuráðsins um almannaútvarp saman við það frumvarp sem hér er til umræðu. Við báðum um þetta eins og ég nefndi áðan. Þeir fræðimenn sem nefndir voru eða komu við sögu í umræðu minni og hv. formanns menntamálanefndar voru ýmist ekki á landinu eða illa tiltækir. Við ræddum sérstaklega um Pál Þórhallsson sem er fyrrverandi starfsmaður á fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins og þekkir þar vel til. En vegna orða hv. formanns menntamálanefndar hér áðan þá var því auðvitað ekki hafnað að fá Pál Þórhallsson heldur talaði ég þvert á móti um að það kynni að setja hann í erfiða stöðu að kalla hann á fund okkar vegna þess að hann er nú starfsmaður forætisráðherra og þar með vinnumaður hjá þeirri ríkisstjórn sem þetta frumvarp flytur.

Þegar útséð var um að nokkur kæmist af þeim fræðimönnum sem nefndir voru var ákveðið að reyna að fá Pál Þórhallsson og boð voru flutt um að hann kæmist ekki. Ég skildi það nú þannig á þeim tíma að hann færðist undan því að koma á fund nefndarinnar. En hér upplýstist áðan að það var vegna þess að hann var erlendis á þeim tíma sem hann var beðinn um að koma. Það eru fréttir fyrir mér og ég hefði brugðist við þeim á sínum tíma með því að leggja til að hann kæmi þá síðar á fundinn þegar hann væri kominn aftur til landsins. En hann sem sé kom ekki og ekkert er við því að gera.

Þá bað ég og minni hluti nefndarinnar um að frumvarpið yrði sent til fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins og beðið um að fjölmiðlaskrifstofan gæfi um það einhvers konar umsögn. Að sjálfsögðu var tíminn naumur ef það ætti að afgreiða þetta fyrir vorið en erindið hins vegar mikilvægt og það væri a.m.k. þess virði að kanna það hver viðbrögð fjölmiðlaskrifstofunnar yrðu við slíkri beiðni, hvað hún þyrfti langan tíma til vandaðrar umsagnar og hvort hún gæti látið frá sér fara eitthvað annað á skemmri tíma, bent a.m.k. á þá staði sem kynnu að skipta máli og nefndin sjálf ætti þá að reyna að kynna sér betur. En þetta sem sé gerðist ekki. Það var ekki kannað hver viðbrögð fjölmiðlaskrifstofunnar yrðu við þessu eða hvaða tíma þyrfti til. Þessu erindi var bara hafnað og á síðasta eða næstsíðasta fundi menntamálanefndar um þetta mál var ástæðan nefnd sú að tilmæli Evrópuráðsins væru ekki bindandi og þess vegna þyrftum við ekki að hafa af þeim áhyggjur. Ég hef rætt þetta áður og rætt hversu mikilvæg starfsemi Evrópuráðsins er í þessu efni og að hvaða leyti hún er öðruvísi en starfsemi Evrópusambandsins og EFTA-stofnana að þessu leyti. Mér finnst satt að segja að rök hv. formanns menntamálanefndar séu ekki boðleg um það að við þurfum ekki að sinna tilmælum Evrópuráðsins um almannaútvarp vegna þess að tilmælin bindi okkur ekki, vegna þess að þau gera það auðvitað á sinn hátt. Þó að Evrópuráðið sé ekki líklegt til þess að hefja málsókn fyrir alþjóðadómstólum gegn okkur á þessu sviði þá gera þau það að sjálfsögðu og að lokum kemur að því að Evrópuráðið eða starfsmenn þess fara með einhverjum hætti yfir þau lög sem gilda um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp. Við erum heppin að Evrópuráðið skuli ekki hafa gert það hingað til vegna þess að sjálfur Páll Þórhallsson, sem ég nefndi, benti á það í grein sem hann skrifaði fyrir tveimur árum, að ég hygg, að það væri ósennilegt að þáverandi og núverandi skipulag Ríkisútvarpsins og starfshættir þess stæðust þessar reglur sem eru frá 1994 og 1996.

Ég spurði þar að auki, og við fulltrúar minni hlutans í nefndinni, höfunda frumvarpsins og fulltrúa úr menntamálaráðuneytinu, starfsmann menntamálaráðherra sem sendur var, að ég held, tvisvar eða þrisvar sinnum á fund nefndarinnar — ég þakka honum hér með fyrir iðni við það að mæta þar og ágætar umræður sem við áttum þar tveir og ýmsir aðrir um þetta mál og önnur — ég spurði þessa menn um Evrópuráðstilmælin sérstaklega og gerði mér far um það en fékk aldrei nein svör og í raun var svona meira um að menn könnuðust lítið við þessi tilmæli og virtust ekki hafa kynnt sér þau. Ég leyfi mér að draga af þessum viðbrögðum þeirra og viðlíka svari eða svarleysi menntamálaráðherra hér við 1. umr. og viðbrögðum formanns nefndarinnar við þessari beiðni um samanburð við Evrópuráðstilmælin, þá ályktun að tilmæli Evrópuráðsins, hvorki frá 1994, 1996 eða síðar, hafi aldrei á margra missira ævi þessa frumvarps um RÚV, fyrst frumvarpsins um sameignarfélagið og síðan frumvarpsins um hlutafélagið, verið könnuð og borin saman við frumvarpið.

Þar kemur til dæmis að sjálfri skilgreiningu Evrópuráðsins á almannaútvarpi sem ég held að sé mikilvægt að menn hlusti á og beri saman við það frumvarp sem hér liggur fyrir. Það er í Prag-samþykktinni frá 1994 og þar segir að almannaútvarp skuli:

mynda með dagskrá sinni sameiginlega viðmiðun allrar þjóðarinnar, vinna að félagslegri samstöðu og þátttöku allra einstaklinga, hópa og byggðarlaga í samfélaginu; sérstaklega skal þar hafnað allri menningarlegri, kynbundinni, kynþáttar- eða trúarlegri mismunun og félagslegum aðskilnaði í hvaða mynd sem er;

skapa vettvang almennrar umræðu þar sem fram komi svo fjölbreytilegar skoðanir og sjónarmið sem unnt er;

annast hlutlægan og óháðan flutning upplýsinga, frétta og fréttaskýringa;

bjóða fram margbreytilegt dagskrárefni sem einkennist af fjölhyggju eða fjölræði — hér er orðið plúralismi í enska textanum eða í útlenda textanum — og hugmyndaauðgi;

miða í dagskrá og þjónustu við almennan áhuga en taka einnig tillit til þarfa minnihlutahópa;

endurspegla ólíka heimspekilega afstöðu og trúarviðhorf í samfélagi sínu í því augnamiði að auka gagnkvæman skilning og umburðarlyndi, og hvetja til eðlilegra samskipta í samfélagi fjölmenningar og margvíslegra kynþátta;

stuðla með dagskrá sinni að því að betur og víðar sé metinn fjölbreytileiki hins þjóðlega og hins evrópska menningararfs;

tryggja að umtalsverður hluti dagskrárefnis sé frumframleiddur, sérstaklega kvikmyndir, sjónvarpsleikrit og annað listrænt efni, og gera sér grein fyrir nauðsyn þess að nýta sjálfstæða framleiðendur og starfa með kvikmyndageiranum;

fjölga dagskrárkostum hlustenda og áhorfenda með því að hafa í boði efni sem alla jafna stendur ekki til boða á markaðsstöðvunum.

Þetta er lausleg þýðing mín og hana er að finna í þingsályktunartillögu okkar frá í fyrra sem ég minntist á áðan um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp, 400. mál á 507. þingskjali.

Samkvæmt þessari skilgreiningu ræðst það af hlutverki því sem útvarpsstöð gegnir hvort hún telst almannaútvarp. Það ræðst fyrst og fremst af dagskrárlegum þáttum, en ekki af eignarhaldi eða stjórnarháttum. Þetta sést enn betur í þeim kafla þessarar Prag-samþykktar sem fjallar um fjármögnun almannaútvarps. Þar skuldbinda aðildarríkin, þar á meðal Ísland, sig til að tryggja fjárhagslega undirstöðu fyrirtækja eða stofnana sem reka almannaútvarp, t.d. með afnotagjöldum, styrkjum úr almannasjóðum, leyfi til auglýsinga og kostunar o.s.frv., en í samþykktinni felst engin krafa um að slíkt útvarp skuli vera hefðbundin ríkisstofnun eða í opinberri eigu.

Þetta er merkilegt þegar verið er að ræða almannaútvarp. Það er hægt að gagnálykta þannig að þar sem það sé komið undir því hvernig fyrirtæki rækir hlutverk sitt hvort það telst almannaútvarp, að þá sé ekki gefið að útvarpsstöð sem ríkið á og rekur sé almannaútvarp. Það hefur raunar verið reyndin um ýmsar útvarpsstöðvar, fornar og nýjar, þótt þær séu í ríkisrekstri. Útvarp í alræðisríki getur á þann hátt varla talist almannaútvarp þar sem það uppfyllir ekki ýmis þau skilyrði um hlutlægni og fjölbreytileika eða fjölræði sem talin eru að framan og ekki heldur opinber útvarpsstöð sem hefur verið knúin til grimmilegrar auglýsingasamkeppni við markaðsstöðvarnar með þeim afleiðingum að dagskrárstefna hennar og rekstrarmarkmið draga dám af markaðsstöðvunum. Um þetta er í McKinsey-skýrslunni sem BBC lét gera um síðustu aldamót nefnt dæmið RAI á Ítalíu.

Til eru aðrar skilgreiningar almannaútvarps, t.d. skilgreining breska útvarpsrannsóknarráðsins, sem finna má í endurskoðun starfshóps á útvarpslögum frá 1996, merkilegu plaggi sem mikið var vitnað til í umræðunni um fjölmiðlalögin, en þær eru keimlíkar. Breska ráðið segir í stuttu máli að almannaútvarp verði að ná til allra landsmanna, þurfi að byggjast á almennum viðhorfum og áhugamálum en taka tillit til minnihlutahópa, að slíkt útvarp eigi að leggja rækt við þjóðerni og þjóðarsál, að dagskrá slíkrar stöðvar þurfi að miðast við gæði umfram áhorfslíkur, og að almannaútvarpið verði að fá fjármagn sitt frá notendunum, þ.e. ekki fyrst og fremst frá auglýsendum. Þá leggja Bretarnir áherslu á að almannaútvarp sé óháð viðskipta- og stjórnmálahagsmunum og að starfsmenn njóti ritstjórnarlegs sjálfstæðis.

Íslenskar aðstæður eru alltaf sérstakar vegna fólksfjöldans og fjarlægðar frá öðrum löndum. Leiða má rök að því að vegna framleiðslukostnaðar, einkum í sjónvarpi, sé það hlutverk almannaútvarps enn mikilvægara hér en í grannlöndum að standa að framleiðslu innlends dagskrárefnis.

Hugleiðingar sem ég var með áðan um að almannaútvarp sé hugsanlegt án rekstrarlegrar þátttöku almannavaldsins, án þess að ríkið reki útvarpið eða út af fyrir sig styrki það sérstaklega, eru fyrst og fremst til skilningsauka á því hvað almannaútvarpið er. Á Íslandi er almannaútvarp nær óhugsandi án þess að ríkið komi beint eða óbeint að rekstri þess. Þannig háttar því miður til á okkar landi, það er kannski einn af ókostunum við að vera Íslendingur, eins og það hefur marga kosti.

Það er fróðlegt að bera þessa skilgreiningu Evrópuráðsins, og út af fyrir sig aðrar skilgreiningar á almannaútvarpi sem til eru, saman við 3. gr. frumvarpsins um Ríkisútvarpið hf. Þar eru 14 töluliðir sem meiri hlutinn leggur reyndar til að sé fækkað í 12, held ég. Þeir voru fyrst 18 ef ég man rétt. Þeir eru um hlutverk Ríkisútvarpsins og inngangurinn að greininni er eins og í Biblíunni, en hann er þannig, með leyfi forseta:

„Útvarpsþjónusta í almannaþágu felur í sér eftirfarandi:“ — Síðan koma þessir 14 liðir, eins og þetta séu boðorðin tíu. Útvarpsþjónusta í almannaþágu, ekki bara á Íslandi heldur alls staðar, er nákvæmlega þetta og ekkert annað og allt það sem nefnt er í þessum 14 liðum er útvarpsþjónusta í almannaþágu.

Þegar menn bera þetta saman sjá þeir að þessir töluliðir í frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. eru samsafn af hinum og þessum ákvæðum. Sumir þeirra segja ýmislegt, aðrir allt og enn aðrir ekkert. Í 6. tölulið, svo ég nefni dæmi, er fjallað um að útvarpsþjónusta í almannaþágu feli sérstaklega í sér: „Að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri.“

Ég segi það um þetta að að því leyti sem skemmtiefni er hluti af menningu og hluti af þjónustu almannaútvarpsins þá er þetta út af fyrir sig rétt. Samt er undarlegt að þetta sé haft í sérstakri grein. Þetta skemmtiefni eða afþreying kemur ekki við sögu í þeim samþykktum sem ég minntist á. Ég tel að það leiði hreinlega af eðli útvarpsins í sjálfu sér að það þurfi ekki að vera leiðinlegt, almannaútvarp er ekki samheiti fyrir leiðinlegt útvarp. Það vekur líka athygli í þessum 6. tölulið að seinni málsliður hans er svohljóðandi: „Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi.“

Höfundar frumvarpsins, forseti, þeir Jón Sveinsson og Sigurbjörn Magnússon, flutningsmaður þess, hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ríkisstjórnin, sem heimilar henni að flytja þetta frumvarp, meiri hlutinn í menntamálanefnd, hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem hér situr í salnum og félagar hennar í Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki og væntanlega framsóknar- og sjálfstæðismenn, þeir sem hleyptu þessu frumvarpi áfram í gegnum þingflokkana og hafa heitið við það stuðningi sínum, eru á því að hið fjölbreytta efni við hæfi barna flokkist í raun undir skemmtiefni. Það flokkast undir skemmtiefni samkvæmt 6. tölulið 3. gr.

Það má kannski segja að það sé fáfengilegt af mér að pirra mig á þessu en þetta sýnir að einhverju leyti hve vanbúið frumvarpið er og hve illa það er hugsað, þ.e. mikilvægar hlutverksgreinar, skilgreiningin á þeirri þjónustu sem Ríkisútvarpið á að veita í almannaþágu. Af því sést hvað þetta er mikið klúður, hve augljóst er að þetta hefur ekki verið borið saman við þær skilgreiningar sem til eru við þau tilmæli sem Ísland hefur sjálft verið með í, samþykkt í Evrópuráðinu til aðildarríkja Evrópuráðsins um meininguna með almannaútvarpi.

Það er athyglisvert að þegar fulltrúi menntamálaráðherra var spurður að því í menntamálanefndinni hvers vegna þetta væri svona, jafnvel þegar búið var að taka burt fjóra liði sem Eftirlitsstofnun ESA ruddi út í sumar með hávaða, sem menn voru varaðir við fram í rauðan dauðann í umræðum um forvera frumvarpsins í fyrra, hvað ylli því að ekki væri skilgreint betur hvað væri almannaþjónusta, þá sagði fulltrúinn að það væri með ráðum gert, að það væri stefna ráðherra og stjórnvalda að hafa þennan ramma eins víðan og hægt væri. Hugsunin er sú að við stöndum í einhvers konar reiptogi við Evrópusambandið og Eftirlitsstofnun EFTA um hversu víður ramminn um almannaútvarp megi vera. Það átti að vera sérstakt metnaðar- og hagsmunamál okkar Íslendinga, og nánast óviðurkvæmilegt að finna að því, að hafa þennan ramma sem allra víðastan. Það kunni nefnilega að fara svo að málin þróuðust þannig innan Evrópusambandsins og innan Eftirlitsstofnunar EFTA, þar sem er ör þróun í málefnum almannaútvarps og öllum fjölmiðlamálum með nýrri tækni og nýrri hugsun á ýmsum sviðum, að þessar reglur breyttust og yrðu gerðar af hálfu ESA, Evrópusambandsins eða þeirra félaga, kröfur um að ryðja meiru út af þessum liðum en hér eru inni. Þess vegna er gott að hafa svona marga liði og hafa þetta svona víðtækt.

Í fyrra var minnst á það í frumvarpinu, þ.e. var einn liðurinn var þannig að meðal útvarpsrekstrar í almannaþjónustu væri það að sjá um allan annan útvarpsrekstur en þann sem hér væri nefndur eða einhver álíka klásúla. Það er því á ferðinni samningatækni, sagði þessi fulltrúi, að menn setji fram nánast eins og kröfur, sem allra mestar til að mæta hinum tötralegu kröfum andstæðingsins í málinu, sem í þessu tilviki er Evrópusambandið eða ESA. Síðan gætu menn mæst með einhverjum hætti á miðri leið eða dregið víggirðingar sínar til baka með þeim hætti sem þyrfti á hverjum tíma.

Það má minnast á að við fengum, og ég þakka formanni nefndarinnar sérstaklega fyrir það, á okkar fund sérfræðing í Evrópurétti, Árna Pál Árnason. Hann var m.a. spurður um þessar röksemdir eða þessar skýringar úr menntamálaráðuneytinu. Árni Páll Árnason varaði mjög við slíkri stjórnlist. Hann taldi að í samstarfinu við Evrópusambandsríkin og í samstarfinu á Evrópska efnahagssvæðinu væri miklu árangursríkara fyrir einstök ríki, ekki síst smáríki sem stendur utan sjálfs aðalsamstarfsins, að móta sér alvöru stefnu sem stæðist öll rök, væri framsýn, sem menn gætu staðið á og haldið sig við hana gagnvart því sem gerast kynni hjá ESA eða í ESB.

Þetta var gagnvart Evrópusambandinu. Reglurnar um almannaþjónustu skipta ekki bara máli gagnvart Evrópusambandinu. Þær eru auðvitað ekki eitthvert íslenskt sjálfstæðismál heldur spurningin um hvernig við ætlum að láta fjölmiðlavettvanginn þróast á landinu í framtíðinni.

Þar er auðvitað líka einhvers konar leiðsögn um þá dagskrá sem á að koma út úr Ríkisútvarpinu. Hvernig dagskráin er kemur Ríkisútvarpinu mjög við og það kemur líka öðrum stöðvum við. Það kemur líka markaðsstöðvunum við sem hér þrífast og eiga að þrífast, a.m.k. að áliti okkar samfylkingarmanna, við hliðina á almannaútvarpinu Ríkisútvarpinu. Þetta minnast Samtök atvinnulífsins á í umsögn sinni sem þau sendu núna og sendu auðvitað líka umsögnina frá því í fyrra. Þá var það Ari Edwalds framkvæmdastjóri. Mörgum fannst skemmtilegt að Ari Edwalds skrifaði undir umsögnina frá Samtökum atvinnulífsins í vor, í apríl 2005, en hann skrifaði ekki undir umsögn Samtaka atvinnulífsins núna heldur undir umsögn 365 miðla. Það er hins vegar Guðlaugur Stefánsson hagfræðingur sem skrifar undir umsögn Samtaka atvinnulífsins núna. Hann segir þar, auk þess að vísa í fyrri umsögn, með leyfi forseta:

„Mikilvægustu athugasemdirnar í fyrri umsögn SA lutu að því að skilgreining á útvarpsþjónustu í almannaþágu væri allt of víðtæk og óljós. Engin markverð breyting hefur orðið á þessu mikilvæga ákvæði frumvarpsins. SA er ljóst að miðað við fordæmi í EES-rétti hafi íslensk stjórnvöld talsvert svigrúm í þessu efni. Ekki er þó heimilt að víkja frá þeim skilyrðum sem nefnd eru í athugasemdum ESA til íslenskra stjórnvalda. Ólíkt því sem EES-reglur um ríkisaðstoð krefjast og getið er um í athugasemdum ESA er ekki með skýrum hætti mælt fyrir um skyldu RÚV til að veita tiltekna og magngreinda þjónustu í almannaþágu gegn þeim ríkisstyrk sem félaginu er ætlaður, heldur er ákvæðið skrifað nánast eins og heimildarákvæði í kringum alla núverandi starfsemi RÚV. Þegar þannig er búið um hnútana er ákvæðið um fjárhagslegan aðskilnað dauður bókstafur.“

Hér er annars vegar minnst á þá kröfu ESA sem Ríkisútvarpinu hf. er ósköp einfaldlega falið að uppfylla sjálft, að veita tiltekna og magngreinda þjónustu í almannaþágu gegn þeim ríkisstyrk sem félaginu er ætlaður. Hins vegar er ákvæðið borið saman við greinar 1–14 og niðurstaðan sú að skrifað hafi verið algjört heimildarákvæði í kringum þá starfsemi sem nú er hjá Ríkisútvarpinu. Ég held að þetta sé rétt. Ég held eins og Samtök atvinnulífsins að þegar Ríkisútvarpið tiltekur hina magngreindu þjónustu verði það ákvæði í ESA-reglunum lítils virði. Hin magngreinda þjónusta er ósköp einfaldlega nánast öll sú þjónusta sem Ríkisútvarpið veitir og kemur á móti þeim ríkisstyrk sem felst í því sem nú heita afnotagjöld en verður kannski nefskattur ef frumvarpið er samþykkt.

Það er því ákaflega óljóst hvernig á að uppfylla kröfur ESA um þetta. Kröfur ESA eru á hinn bóginn ákaflega eðlilegar og mikilvægar, a.m.k. fyrir okkur sem teljum að ljósvakavettvangurinn eigi að vera í tvennu lagi, þótt skilin séu alltaf óglögg. Annars vegar er almannaþjónusta Ríkisútvarpsins, þjónusta sem er best komin hjá Ríkisútvarpinu og hins vegar sé þjónusta markaðsstöðva á markaðsgrundvelli, sem er ekkert ljótt og bara venjuleg viðskipti við neytendur en gegnir hins vegar ekki sama hlutverki og almannaútvarpið gegnir.

Varðandi almannaútvarp skiptir miklu máli hvernig fjármögnunin er. Þar koma sérstaklega til sögunnar tekjur af auglýsingum og kostun. Hvaða leið sem valin er sem ríkisstuðningur, hvort það er afnotagjaldið eins og nú, sérstakir skattar, nefskatturinn eins og lagt er til í frumvarpinu, fasteignaskattur, hluti tekjuskatts eða hvaða leið sem farin er, rásargjald eða fjárveiting af fjárlögum, sem er svona þriðja höfuðleiðin og kemur vel til greina með langtímasamningum sem ekki er hægt að bylta á milli tímabila, þá skiptir langmestu máli fyrir sjálfstæði og viðgang almannaútvarps og fyrir sjálfstæði og viðgang Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps, að hve miklu leyti því er stefnt á markað auglýsinga og kostunar.

Þegar útvarpi eins og Ríkisútvarpinu er valin leið almannaútvarps, sem við teljum sjálfsagt, og í rauninni sú eina sem stendur til boða — og það virðist líka, að minnsta kosti í orði, vaka fyrir frumvarpsflytjandanum — er eðlilegt að móta þá stefnu að draga úr því hlutfalli tekna sem nú er aflað með auglýsingum og kostun. Það hefur síðustu árin rokkað á milli 25 og 30 og farið upp í 32–33% af tekjum. Þetta hlutfall tekna er of mikið. Fyrir því eru tvenns konar höfuðrök að hlutfall auglýsinga og kostunar sé lægra en það sem hér er um fjallað.

Annars vegar er markaðsstarf af þessu tagi, sala auglýsinga, útvegun kostunar, eðlisólíkt hlutverki almannaútvarps. Það er viðurkennt að sé almannaútvarp háð slíkum tekjum — eins og Ríkisútvarpið hlýtur að teljast vera með frá fjórðungi til þriðjungs heildartekna sinna eftir þessari leið, og þar af leiðandi neytt til samkeppni um þessar tekjur — er hætt við að sú staða komi niður á dagskrárframboði þess þannig að hlutur eiginlegs efnis í almannaútvarpi minnki með grimmari sókn í hátt áhorfshlutfall og í tekjuvænlega markhópa.

Ég minntist áðan á McKinsey-skýrsluna sem BBC lét gera en hana má finna í íslenskri þýðingu sem fylgiskjal við þingsályktunartillögu okkar í fyrra um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp. Þar segir að auglýsingar geti haft mikil áhrif á dagskrárframboð almannaútvarps og á það hvernig það rækir hlutverk sitt. Með leyfi forseta:

„Könnun okkar sýnir að ef mikið þarf að treysta á auglýsingar leiðir það óhjákvæmilega til þess að meira er sóst eftir lýðhylli og minna er af vönduðu efni í dagskránni. Þetta er mjög áberandi á útvarpsmörkuðum þar sem samkeppni um auglýsingar fer vaxandi. Þessi áhrif aukast ef rásin er einnig háð opinberum fjárframlögum sem aukast eða minnka eftir geðþótta stjórnvalda. Þessi sókn eftir lýðhylli á kostnað gæða getur spillt vandaðri dagskrá ríkisútvarps. Rannsókn okkar á tekjum allmargra ríkisútvarpsfyrirtækja sýnir að milli 1993 og 1996“ — ég hygg að skýrslan sé frá 1999 — „minnkuðu auglýsingatekjur sem hlutfall af heildartekjum, en dagskrá útvarpsrása sem höfðu tekjur af auglýsingum var í stórum dráttum óbreytt. Dagskráin miðaðist sem sagt áfram við lýðhylli, en tekjurnar fóru minnkandi. Meginorsök minnkandi tekna virðist vera aukin samkeppni um auglýsingar. Því er það svo að ef auglýsingaháð ríkisútvarp ætlar að auka tekjur sínar verður það að ganga enn lengra í því að breyta dagskrá til að auka lýðhylli. Ríkisútvarp í slíkri stöðu getur fundið sig fjárhagslega knúið til að láta sérstöðu sína lönd og leið ef fjármögnun er ekki breytt í grundvallaratriðum. Og eins og við höfum þegar sýnt fram á skaðar sú þróun allan útvarpsmarkað í viðkomandi landi.“

Þeir nefna t.d., eins og ég sagði áðan, ítölsku stöðina RAI sem fór þessa leið. Henni var stefnt með tekjur á auglýsingamarkað og kostunar- og það sem gerðist þar var að ríkisútvarpið RAI á Ítalíu dró dám af markaðsstöðvunum, það dró úr gæðum þess en þar jókst það efni sem einkum var talið til þess fallið að hægt væri að selja með því auglýsingar.

McKinsey-menn nefna líka aðrar stöðvar þar sem þessu er öfugt farið, stöðvar í Þýskalandi, stöðvar á Norðurlöndum, að ég hygg sænska sjónvarpið sérstaklega, og auðvitað BBC, hina miklu móður ríkisútvarpanna, sem hefur tekist að halda uppi gæðum á sínu svæði, á Bretlandi og reyndar víða um heim, með því að taka forustu á fjölmiðlavettvangnum. Koma öllum til nokkurs þroska, eins og segir í gamalli sögu um landnámsmann sem virtur var öðrum fremur, án þess að vinna á forsendum markaðsstöðvanna sem þeim eru látnar eftir að mestu.

Það er rétt að gera sér grein fyrir í þessu tilviki hvers eðlis auglýsingastarfsemi er. Auglýsingar eru orðin talsverð atvinnugrein á Íslandi og alls staðar í vestrænum löndum og víðast um heiminn. Það eru markaðsdeildir í fyrirtækjum. Það eru auglýsingastofurnar sjálfar. Það eru sjálfstæðir ráðgjafar af ýmsu tagi um marga hluti og svo auðvitað fjölmiðlarnir og aðrar auglýsingaleiðir sem farnar eru — við þurfum ekki annað en að líta á strætisvagnana hér fyrir utan á götunum — og síðan þau fyrirtæki sem annast áhorfskannanir og skoðanakannanir og alls konar félagsfræði og sálfræði sem að þessu kemur. Þótt okkur þyki oft nóg um er þetta eðlilegur partur af markaðsbúskapnum. Skilaboð eru flutt með einhverjum hætti á milli seljandans og neytandans. Við þetta losnum við ekki þó við eigum auðvitað að hafa um þetta ákveðnar reglur þar sem bæði eru virtir þeir sem minna mega sín gagnvart þessum skilaboðum af þessu tagi, t.d. börn, og auðvitað varin venjuleg mannhelgi af ýmsu tagi.

Hver er tilgangur þessarar starfsemi? Hann er sá, við getum sagt það fallega, að tengja saman seljanda og kaupanda. Neytandann við framleiðandann. En markmið þeirra sem á milli standa, þar á meðal forsvarsmanna í fjölmiðlum, er auðvitað að útvega auglýsandanum, vöruseljaranum, markhóp við hæfi. Það er ekkert flóknara en það. Sá sem getur greiðast og best og á sem lægstu verði útvegað tilteknum auglýsanda tengsl við þann markhóp sem hann telur heppilegastan fær þær auglýsingar sem um ræðir eða að minnsta kosti mest af þeim.

Þetta er gömul og ný tekjuleið fyrir fjölmiðla og ekkert að því að finna, eins og hver annar sjálfsagður hlutur. En hættan er auðvitað sú að dagskrá fjölmiðla, og hér er ég sérstaklega að tala um sjónvarps- og útvarpsstöðvar, fari að miðast við að ná í þennan markhóp fyrir auglýsandann í stað þess að þjóna lesendunum, hlustendunum eða áhorfendunum sem slíkum. Þetta er alveg sérstök hætta fyrir almannaútvarp eins og ágætlega er rakið í títtnefndri McKinsey-skýrslu.

Þetta var um hætturnar fyrir almannaútvarpið sjálft af því að búa um of við tekjur af auglýsingum og kostun. Hins vegar er svo það almenn sjónarmið, sem m.a. formaður menntamálanefndar hv. ætti að kannast við, að opinber þátttaka í samkeppni í atvinnulífinu er ekki æskileg. Ég er þeirrar skoðunar og tel enn fremur að ef slík þátttaka er af einhverjum ástæðum talin nauðsynleg eigi að búa svo um hnútana að hún raski sem minnst möguleikum fyrirtækja á markaðnum. Þess vegna er ekki eðlilegt að almannaútvarp á vegum ríkisvaldsins eða með stuðningi þess taki af öllum kröftum þátt í samkeppni markaðsstöðvanna á sviði auglýsinga og kostunar.

Samkvæmt því sem ég lýsti hér að framan eiga stjórnvöld að huga að rekstrargrundvelli annarra fjölmiðla en almannaútvarpsins, auk þess að styrkja það og efla. Það er svo að ein helstu tekjumið sjónvarpsstöðva á markaði eru auglýsingar og kostun. Það er óeðlilegt til frambúðar að almannaútvarpið rói of grimmt á þau mið í samkeppni við hinar stöðvarnar.

Að þessu sögðu vil ég taka fram að engin nauð rekur menn til að hætta auglýsingum eða kostun í Ríkisútvarpinu okkar — þá tala ég um það sem almannaútvarp hreinna en það er nú — hvað þá sígildum tilkynningum t.d. á hljóðvarpsrásunum, enda fellur margt af því auglýsingaefni undir þann dagskrárramma sem almannaútvarpið hlýtur að setja sér. Ýmsar tilkynningar eru þar ágætt dæmi. Dánartilkynningarnar kannski alveg sérstakt dæmi. (JÁ: Besta efnið.) Það er besta efnið, segir hv. þm. Jóhann Ársælsson. Í sjálfu sér lýsir það ágætlega stöðu Ríkisútvarpsins hér á landi að hvergi annars staðar vill fólk deyja en í Ríkisútvarpinu. Ég get ekki ímyndað mér að margir vilji t.d. deyja í FM 95,7. (EMS: Níutíu hvað?) Það er útvarpsstöð hér á landi.

Forseti. Nú svara ég hér hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni sem býr við þá fátækt landsbyggðarmannsins að geta ekki hlustað mjög mikið á þessa stöð frá því hún hefur morgunþátt sinn Zúúber í umsjón fjögurra eða fimm duglegra ungra fjölmiðlavíkinga og þar til dagskrá lýkur á kvöldin með svipuðum hætti.

Ég tel, forseti, að þingmaður hv. þessi og aðrir í hans kjördæmi ættu kannski að fara að temja sér að hlusta á þessa stöð því hún lýsir ákaflega vel andanum í íslenskri æsku og þeirri djörfung og þeim dug sem í þeim býr sem eiga að erfa landið. Vil ég þá einkum benda á þennan morgunþátt Zúúber, með z, sem ég tel að mundi henta hv. þingmanni einkar vel að hlusta á á leið sinni norður og austur í kjördæmi sitt. (Gripið fram í: Er það víst að hann heyri þá stöð?) Ekki er það víst, en forseti, nú svara ég þingmanninum. En nú er hv. þingmaður hér á þinginu áhrifamaður í ýmsum efnum, þar á meðal á sviði fjármála, og gæti sem hægast hjálpað til við að þessi ágæta útvarpsstöð heyrðist víðar um landið en nú er. Það hefur auðvitað ákveðinn menningarlegan tilgang að gera það. Það er ýmislegt efni á þessari útvarpsstöð, m.a. hljóð í fólki við æxlunarstörf sem hafa þótt merkileg fyrirbrigði hér í útvarpsmenningu síðari ára. Mér þykir leitt að hv. þingmaður, sem ég veit að er áhugasamur um æskulýðsmál og ýmis málefni sem til framfara horfa, skuli hafa misst af þessari góðu stöð. (Gripið fram í.) Vissulega, forseti, geri ég ráð fyrir að þetta breytist eftir að þingmaðurinn hefur hlýtt á þennan kafla í ræðu minni.

Það eru auðvitað líka aðrar auglýsingar og meiri, þar sem auglýsendur telja sig eiga erindi við alla þjóðina, sem eðlilegt getur verið að hafa í almannaútvarpi. Hér er um ýmsar leiðir að ræða. Annars vegar er markmiðið ósköp einfaldlega það að lækka hlutfall þessara tekna í það að almannaútvarpið hneigist ekki til að laga dagskrá sína að þörfum auglýsenda fyrir markhópa. Hins vegar það að gjalda keisaranum það sem keisarans er, ekki satt, að leyfa markaðsstöðvunum að sitja að sínum sérstöku tekjuleiðum sem eru fyrst og fremst auglýsingar og kostun, auk auðvitað áskriftargjalds eins og Stöð 2 hefur af sínu áskriftarsjónvarpi. Ég minnist þess reyndar, í þessum orðum töluðum, að Páll Magnússon, núverandi útvarpsstjóri, flutti um það ágætan fyrirlestur fyrir menntamálanefnd í fyrra hvað hann teldi það mikilvægt að sjónvarpsstöð eins og Stöð 2 hefði blöndu af slíkum tekjum, annars vegar áskriftargjald og hins vegar auglýsingar, til að útvarpsstöðin einmitt hneigðist ekki til þess eingöngu að þjóna auglýsendunum í þörf þeirra fyrir markhópa heldur sinnti áhorfendum sínum beinlínis vegna þess að þeir ættu það þá á hættu að tapa þeim annars og tækju þess vegna meira tillit en ella til áhorfendanna í hinu beina sambandi sínu við greiðandi áhorfendur. Þetta er að breyttu breytanda það sem ég á við í ræðu minni um Ríkisútvarpið, að það má ekki verða of háð þessum tekjum.

Leiðir sem við getum nefnt í þessu sambandi eru kunnar að utan. Það er hægt að kveða á um hundraðshluta auglýsinga- og kostunartekna í heildartekjum, 10, 15 eða 20%. Það er hægt að takmarka auglýsingatíma. Gera hverja auglýsingu dýrari. Það er hægt að taka við ákveðnum tegundum auglýsinga. Það mætti breyta skilgreiningu á kostun til að vernda sem best dagskrárlegt sjálfstæði sem er nokkuð óljóst um hvernig háttað er, t.d. á Rás 2 að henni annars ólastaðri og hennar hlutverki.

Í greinargerðinni er byrjað á að fjalla um þessi mál en í rauninni gefist upp á miðri leið, kannski vegna þess að þrekið er ekki fyrir hendi hjá frumvarpsflytjandanum, menntamálaráðherranum, sjálfsagt fyrst og fremst af fjárhagsástæðum vegna þess að auðvitað þyrfti að bæta Ríkisútvarpinu upp þær tekjur sem það tapaði við þetta þó að það gerðist á einhverjum tíma. Það stendur ekki til og það er yfirlýst markmið að auka tekjur Ríkisútvarpsins umfram það sem nú er. Áhyggjur menntamálaráðherra og stjórnarmeirihlutans af fjármálum þess koma raunar best fram í þeim vafa sem enn ríkir um hvort eiginfjárstaða þess verður jákvæð eða neikvæð á fyrsta starfsdegi.

Ég endurtek að lokum þessa kafla um almannaútvarpið, fyrsta af þremur, þann lengsta vissulega sem sérstaklega er fjallað um í nefndarálitinu, forseti kær:

Lagarammi sá sem reynt er að marka starfsemi Ríkisútvarpsins með frumvarpinu er ekki ljós. Alls er óvíst að Ríkisútvarp það sem á að starfa eftir frumvarpinu verði raunverulegt almannaútvarp. Skilgreining frumvarpsins á hlutverki Ríkisútvarpsins og skyldum er óglögg. Í stað þess að móta Ríkisútvarpinu framtíðarstefnu hefur sá kostur verið tekinn að halda að mestu áfram því róli sem fyrirtækið hefur verið á síðan rekstrarumhverfi þess gjörbreyttist við afnám einkaleyfis árið 1985. Ólíklegt er að þessi lagarammi dugi Ríkisútvarpinu til lengdar vegna Evrópusambandsins annar vegar og vegna krafna frá keppinautum innan lands hins vegar sem sætta sig ekki við það að vera í samkeppni við ríkisstyrkta stöð sem beitir sér á markaði. Það er líklegt af þessum ástæðum sérstaklega að lög þau sem úr frumvarpinu kynnu að verða eigi ekki langa ævi óbreytt, að áfram verði ófriður um Ríkisútvarpið og að Ríkisútvarpinu takist ekki, sé ekki gert kleift að sinna sem skyldi hlutverki sínu sem kjölfesta á hinum síbreytilega vettvangi ljósvaka og fjölmiðlunar.

Forseti. Annað meginatriðið í nefndaráliti okkar var að því miður er ekki tryggt með frumvarpinu að losað sé um flokkspólitísk ítök og íhlutun á Ríkisútvarpinu. Almannaútvarp miðast eins og áður segir við dagskrá og við þjónustu við almenning en til að geta skilað því hlutverki sínu verður almannaútvarp að vera sjálfstætt. Það verður að vera óháð stjórnmálahagsmunum og viðskiptahagsmunum. Fyrirkomulag eignarhalds, fjármögnunar og stjórnarhátta, hvað sem menn velja sér í því efni, á að stuðla að þessu fyrst og fremst. Fjöregg almannaútvarps er samband þess við hlustendur sína og áhorfendur, alla þjóðina eða a.m.k. yfirgnæfandi meiri hluta hennar. Fjöregg þess felst í því að landsmenn líti á það sem sitt án nokkurrar óvirðingar gagnvart markaðsstöðvunum, að þeir treysti því til frétta og fræðslu og líti á það sem trúverðugan spegil samfélagsins hvort sem þeim spegli er uppi haldið með innlendu leikefni, heimildarmyndum eða lýðræðisumræðu um helstu samfélagsmál eða með því að bregða upp spéspegli eins og Spaugstofan hefur gert flestum til ánægju og segir kannski með því sannari fréttir en hinar venjulegu fréttastofur, a.m.k. þegar til langs tíma er litið.

Staðreynd er hins vegar að langvarandi flokkspólitísk ítök, einkum Sjálfstæðisflokksins, síðustu áratugi á Ríkisútvarpinu hafa bæði spillt þar starfsanda og dregið úr tiltrú almennings í garð þess sem almannaútvarps. Um sjálfstætt almannaútvarp eru reyndar til enn ein tilmælin frá Evrópuráðinu, tilmæli um sjálfstæði almannaútvarps, tilmæli frá 1996, nr. 10, og þau tilmæli eru prentuð í heild sem fylgiskjal við þingsályktunartillögu okkar frá í fyrra, og segi ég hér með frá ef ég hef ekki sagt það áður. Það er ekki fyrr en fyrir tveimur árum sem þessi viðmiðunarrammi komst til umræðu hér með svolitlum hætti, þó að við séum aðilar að þessum tilmælum Evrópuráðsins á fjölmiðlasviði, með þingsályktunartillögu okkar samfylkingarmanna um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði í fjölmiðlun þar sem vísað var til þessara tilmæla Evrópuráðsins og síðan með skýrslu hinnar frægu fjölmiðlanefndar á vegum ríkisstjórnarinnar sem var grundvöllur, að ósekju raunar, að frumvarpi því sem hér var á sínum tíma þjösnað í gegnum þingið við fræga andstöðu hér í salnum og enn þá meiri mótmæli hér fyrir utan, í samfélaginu. Hluti deilnanna um fjölmiðlafrumvarp forætisráðherra vorið 2004 stóð einmitt um hvernig frumvarpið samrýmdist þeim tilmælum sem þarna er um að ræða.

Í þeirri skilgreiningu almannaútvarps sem ég rakti að framan er lögð þung áhersla á að það sé óháð stjórnmála- og viðskiptahagsmunum. Í gagnrýni á starf og rekstur Ríkisútvarpsins síðustu áratugi leyfi ég mér að segja hefur þessi þáttur einnig verið áberandi, bæði um stjórnmálahagsmuni og viðskiptahagsmuni. Nauðsynin á því að almannaútvarp sé sjálfstætt leiðir beint af hlutverki þess og dagskrárstefnu en tengist eins og áður segir bæði stjórnarháttum þess og fyrirkomulagi fjármögnunar. Þess vegna hefði verið skynsamlegt ef menn hefðu ætlað sér að ná breiðri samstöðu, sem ekki var, að hefja vinnuna á þessum slóðum og bera stjórnarhætti og fjármögnun í útvarpi okkar, Ríkisútvarpinu, sem almannaútvarpi a.m.k. í framtíðinni, saman við þessi tilmæli sem íslensk stjórnvöld hafa samþykkt og skuldbundið sig til að fara eftir, þótt aðildarríkin séu auðvitað ekki skyld að lögum að fara eftir tilmælum Evrópuráðsins. Ekki er hægt að dæma þau til þess í dómstólum, sem hv. formaður menntamálanefndar Sigurður Kári Kristjánsson virðist líta á sem einu raunverulegu ástæðuna til að fara að þeim tilmælum og textum sem maður sjálfur hefur samþykkt.

Ég ætla ekki að þessu sinni, og ég geri ráð fyrir að þingmenn séu ánægðir með það, að fara ítarlega yfir þau tilmæli, það yrði nokkuð löng stund. Má vera að betra tækifæri gefist til þess síðar í umræðunni. En ég minni á að þetta var ein af kröfum okkar í menntamálanefnd, ein af forsendunum fyrir mótmælum okkar við að málið var tekið út úr henni, að við vildum að frumvarpið væri borið saman við þessi tilmæli Evrópuráðsins, þeirra samtaka Evrópuþjóða sem einkum beita sér að mannréttindum og lýðræðisefnum. Því var hafnað á þeim forsendum að þetta væri ekki bindandi.

Ef maður dregur hin þykku tilmæli Evrópuráðsins í þessum efnum frá 1996 saman í eina setningu, ef maður þyrfti að gera það, væri sú setning sennilega svona: „Almannaútvarp, ekki ríkisstjórnarútvarp.“ Eins og ég sagði áður er nokkuð ljóst að núverandi skipan mála á Ríkisútvarpinu stenst ekki tilmæli Evrópuráðsins frá 1996.

Páll Þórhallsson, sem þá var lögfræðingur í fjölmiðladeild eða fjölmiðlaskrifstofu Evrópuráðsins, skrifaði grein um almannaútvarp á Íslandi í Morgunblaðið 2. maí árið 2004. Hún hét: Helgar tilgangurinn meðalið? Greinin fjallaði m.a. um fjölmiðlafrumvarpið sem þá var að gera allt vitlaust á þingi og í samfélaginu. Hann komst þá m.a. að þeirri niðurstöðu að nokkuð skorti á sjálfstæði Ríkisútvarpsins, með leyfi forseta:

„Kemur þar sjálfsagt margt til. Eitt af því er að ríkisstjórnarmeirihluti hverju sinni skipar meiri hluta útvarpsráðs á meðan víðast hvar erlendis … hefur verið fundið fyrirkomulag sem tryggir að slík ráð gæti almannahagsmuna en ekki hagsmuna ríkisstjórnar eða stjórnarflokka. Það þætti t.d. ekki góð latína á Evrópuvettvangi að pólitískt skipað útvarpsráð fjallaði um umsóknir um stöður fréttamanna.“

Það á að vísu hið nýja útvarpsráð ekki að gera, a.m.k. ekki beinlínis, og það erum við öll sammála um sem betur fer. En það er rétt að skoða þetta aftur sem Páll Þórhallsson, þáverandi starfsmaður í fjölmiðladeild Evrópuráðsins, núverandi verkamaður hjá forsætisráðherra, sagði um núverandi skipan Ríkisútvarpsins.

Með leyfi forseta, endurtek ég:

„Eitt af því er“ — þegar Evrópureglur eru bornar saman og reynt að finna hvort sjálfstæði Ríkisútvarpsins sé nægilegt samkvæmt þeim — „að ríkisstjórnarmeirihluti hverju sinni skipar meiri hluta útvarpsráðs á meðan víðast hvar erlendis … hefur verið fundið fyrirkomulag sem tryggir að slík ráð gæti almannahagsmuna en ekki hagsmuna ríkisstjórnar eða stjórnarflokka.“

Athyglisvert er að skoða — og hér ætla ég að bregðast, en aðeins í þessu eina tilviki, því loforði mínu að fara ekki ítarlega yfir einstaka þætti í tilmælunum frá 1996 — núverandi útvarpsráð og stjórnina í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra í ljósi þessara orða úr Evrópuráðstilmælum frá 1996 um stjórn, með leyfi forseta:

Að fulltrúum almannavaldsins ber að fylgjast með en þeim ber að haga — nei, fyrirgefið, þetta er ekki beint úr þessum reglum heldur er meginefni þeirra það að fulltrúum almannavaldsins beri að fylgjast með en beri að haga eftirliti sínu þannig að það hafi ekki áhrif á dagskrá og stjórnmálaleg afskipti af starfseminni í almannaútvarpi umfram almenna stefnumótun og það að skapa starfsramma er bannorð.

Dæmi um þetta er úr skýringum við viðmiðunarreglu sem fjallar um stöðu stjórnar almannaútvarpsstofnunar og hljóðar svo, og ég bið menn að hugsa til útvarpsráðsins okkar núna og til stjórnar eins og hún er sett fram í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra þegar þeir hlusta á þetta, með leyfi forseta:

„Til að tryggja sjálfstæði stjórnar almannaútvarpsstofnana er mikilvægt að stjórnirnar séu ekki háðar neins konar stjórnmálalegum afskiptum eða annars konar afskiptum við starf sitt … Reglur um slíkar stjórnir skal því orða þannig að öll slík afskipti séu útilokuð, hvort sem þau varða skipun stjórnar, starfsemi þeirra, o.s.frv. Sérstaklega skal vanda form á skipun stjórnarmanna þar sem um stjórnarnefnd er að ræða (stjórn, ráð, o.s.frv.). Þótt í slíkum ráðum kunni að vera fulltrúar skipaðir af stjórnvöldum og/eða þingi, mega slíkir fulltrúar ekki vera í aðstöðu til að beita ráðandi áhrifum á stjórnina (í krafti fjölda síns eða tiltekins valds sem þeim er falið). Álíka mikilvægt er að þessir fulltrúar gegni starfi sínu algerlega óháðir pólitísku valdi.“

Sýnist einhverjum, hvað sem líður starfsskilyrðum stjórnarmanna sjálfra í þeirri grein frumvarpsins sem um þau fjalla, að raunverulega standist stjórn Ríkisútvarpsins hf. samkvæmt frumvarpinu þessar kröfur eitthvað betur en útvarpsráðið í ríkisstofnuninni Ríkisútvarpinu? Sýnist mönnum að ríkisstjórnarmeirihlutinn í nýja útvarpsráðinu standist það að stjórnirnar séu ekki háðar neins konar stjórnmálalegum afskiptum eða annars konar afskiptum við starf sitt? Það væri fróðlegt að heyra í formanni menntamálanefndar um þetta efni og heyra hann rökstyðja það hvernig hin nýja stjórn þar sem meiri hlutinn er sjálfkrafa meiri hluti stjórnarflokkanna hér á þinginu, meiri hluti stjórnarinnar er sjálfkrafa ríkisstjórnarmeirihluti nákvæmlega eins og í gamla útvarpsráðinu, hvernig þessi ákvæði um stjórnina standast tilmæli Evrópuráðsins.

Þetta er enn eitt dæmið um það að ekki hefur verið hugað að þessum tilmælum og málið búið til á allt, allt annan hátt en þann að skoða fyrst hvað menn eru að gera og reyna síðan að vera í samræmi við þá þróun sem alls staðar í kringum okkur er talin rétt og við höfum sjálf skuldbundið okkur til með þátttöku okkar í Evrópuráðinu og þátttöku okkar á þessum fundi. Þetta er líka dæmi um það, sem þessi kafli ræðu minnar fjallar nú um, að flokkspólitískum ítökum í Ríkisútvarpinu er ekki eytt með þessu frumvarpi. Þau halda áfram og það má færa rök að því að þau geti með þessu frumvarpi orðið heldur meiri, ef vilji ríkisstjórnar, menntamálaráðherra og stjórnarmeirihluta stendur til, en þau þó eru í núverandi skipan, sem hefur þann kost að mál eru þar a.m.k. uppi á borðinu vegna þess að menn skömmuðust sín ekkert fyrir það í gamla daga að skipa sjö fulltrúa stjórnmálaflokka í útvarpsráð. Það þótti eðlilegt í samfélagi sem hefur breyst síðan sem betur fer.

Almannaútvarp stendur ekki undir nafni nema það sé sjálfstætt, sagði ég. Að setja hreinan ríkisstjórnarmeirihluta í stjórn þess, ríkisstjórnarmeirihluta sem m.a. ræður útvarpsstjóra og rekur án nokkurrar tímabindingar, samræmist ekki sjálfstæði í almannaútvarpi. Ég held að menn hljóti að skilja þetta. Stjórninni er falið að ráða útvarpsstjórann, sem betur fer engan annan, hún á að ráða hann algjörlega sjálf, það eru engar hæfniskröfur um útvarpsstjóra eða nein skilyrði sem honum eru sett. Menn kunna að hafa ýmsar athugasemdir við það en ég ætla ekki að gera neinar athugasemdir við það ákvæði í sjálfu sér nema benda á að það er ekkert sem heftir stjórnina í að ráða hvern sem er sem útvarpsstjóra og hún ræður hann með sínum eigin meiri hluta, þremur af fimm, en svo vill til að það er í langflestum tilvikum sami meiri hlutinn og kosið er eftir á Alþingi. Í þeim tilvikum þar sem svo er ekki væri þá um að ræða ríkisstjórn sem styddist við sterkari meiri hluta en við höfum dæmi um í stjórnmálasögu Íslands og kemur út á eitt.

Það er ekki aðeins það að stjórnin ráði þennan útvarpsstjóra að eigin geðþótta heldur ræður hún hann þannig að hún getur rekið hann daginn eftir eða hvenær sem henni hentar, hvenær sem henni þóknast. Það býður auðvitað til þess að sambandið milli stjórnar og útvarpsstjóra sé af sérstöku tagi, sé þannig að útvarpsstjórinn fari að vilja stjórnarinnar, vegna þess að hann á það á hættu ef hann gerir það ekki að við honum sé stuggað nema hann hafi þá byggt upp einhver sérstök völd önnur eða áhrif sem sporni gegn því.

Auðvitað geta menn komið hér og talað um hrakspár og talað um að maður leggi út á versta veg. Vonandi verður það svo að til þessara starfa veljist menn sem ekki hugsa svona, sem hafa aðrar leikreglur að leiðarljósi þó að þær séu ekki tilteknar í frumvarpinu, að þarna veljist menn sem ekki líta á sig sem fulltrúa pólitískra flokka fyrst og fremst. En það er ekkert í frumvarpinu, það er ekkert í þeirri stjórnskipan sem frumvarpið gerir ráð fyrir sem kemur í veg fyrir að það verði þannig.

Þegar við lítum á sögu Ríkisútvarpsins, öll þau rúmlega 75 ár sem það hefur starfað, sjáum við auðvitað þær hættur sem augljósar eru við stjórnkerfið sem þar er við lýði, þ.e. útvarpsráðsmeirihluta kosinn af þingi og útvarpsstjóra og framkvæmdastjóra skipaða af menntamálaráðherra, og auðvitað er það ekki þannig að þetta hafi allt ævinlega farið á versta veg. Það hefur auðvitað farið mjög mikið eftir þeim sem veljast í þessar stöður. Það hefur farið mikið eftir starfsanda á Ríkisútvarpinu, það hefur farið eftir áhrifavaldi útvarpsstjórans, eftir þeim hugmyndum sem útvarpsráðið, meiri hluti þess og formaður hafa haft um sjálfa sig. Það hafa komið tímabil í sögu Ríkisútvarpsins þar sem stjórnskipanin hefur gengið nokkuð vel en þau tímabil hygg ég að séu fleiri þar sem þessi stjórnskipan hefur gefist illa. Við ættum því að skammast til þess að læra af þessari sögu og búa skipulag Ríkisútvarpsins í framtíðinni þannig út að það komi í veg fyrir eða a.m.k. stuðli gegn því að flokkspólitík og ríkisstjórnarmeirihluti séu þar ráðandi.

Það má svo sérstaklega minnast á að í raun og veru eru tengsl fulltrúanna í nýja útvarpsráðinu sterkari við stjórnmálaflokkana sem tilnefna þá eða kjósa þá hér á þinginu en áður, því að áður var þetta þó þannig að þeir voru kosnir til fjögurra ára eða réttara sagt voru kosnir til hvers ríkisstjórnartímabils um sig, sem sýnir reyndar ágætlega hversu tengt þetta útvarpsráð er og var pólitíkinni á þinginu. Nú á ekki einu sinni að gera þetta heldur á að kjósa fulltrúana til eins árs í senn að því er virðist til að uppfylla hlutafélagalög en þegar maður skoðar þau betur þarf þetta auðvitað ekki að vera þannig. Það væri hægt að kjósa þessa fulltrúa til fleiri ára, til fjögurra ára, fimm ára eða sjö ára ef menn vildu það. Það er fullkomið frelsi til þess gagnvart hlutafélagalögunum að gera það í sérlögum um Ríkisútvarpið. Það væri þó illskárra að gera það þannig. En því bendi ég á þetta að það er svo fráleitt að menn séu að minnka þetta samband sem verða má, menn eru einmitt að auka það öllu heldur.

Minnsta hugsanlega breyting á þessari skipan væri sú að bæta við í ráðið tveimur fulltrúum, fulltrúum starfsmanna, sem gerði það að verkum að meiri hlutinn væri þá ekki nauðsynlega framkallaður á þinginu með ríkisstjórnarmeirihluta heldur skapaðist af aðstæðum. Væntanlega mundi slík ráðstöfun gera það að verkum að ekki væri neinn einn sjálfsagður meiri hluti í ráðinu heldur ynni það saman eins og oft gerist í nefndum og ráðum þar sem flokkspólitík og ríkisstjórnarhagsmunir skipta ekki meginmáli. Það væri minnsta hugsanlega breyting á þessu. Ég get þess hér sérstaklega vegna þess að í 1. umr. um málið kom þessi tillaga fram í máli mínu en ekki var brugðist við henni og hún hefur ekki fengist rædd í nefndinni frekar en aðrar tillögur. Það sýnir ágætlega annars vegar að við höfum verið fús til að reyna að koma til móts við meiri hlutann í þessu efni til að ná einhvers konar bótum á frumvarpinu, og hins vegar að meiri hlutinn hefur ekki verið tilbúinn til þess eins og áður er rakið og ekki einu sinni tilbúinn til þess að nefna rök á bak við þá skipan mála sem hér er lögð til.

Svo verður að segja um hið nýja útvarpsráð að vissulega er það til bóta að það á ekki að fjalla um dagskrá og það á ekki að veita neins konar umsögn um ráðningar nema að því leyti sem varðar ráðningu útvarpsstjórans. Það hefur að vísu dregið mjög úr afskiptum útvarpsráðs af þessu hin síðari ár en reglurnar hafa krafist þess að útvarpsráð gerði þetta og það hefur vissulega gert það í ákveðnum tilvikum, fréttastjóramálið er auðvitað gleggsta dæmið um það. Á hinn bóginn má svo segja um stjórnina að þegar hún lætur af þessum afskiptum sínum og er falið annað hlutverk þá er það heldur ekki bein trygging fyrir því að stjórnin eða meiri hluti hennar hafi ekki slík afskipti vegna þess að þau gætu falist í tengslum hennar, í mjög nánu sambandi hennar við útvarpsstjórann. Þá segi ég aftur: Veldur hver á heldur. En frumvarpið gerir ekki ráð fyrir neinum tryggingum í þessu efni. Það eru engir fyrirvarar eða öryggisventlar í frumvarpinu um það, sem væri þó tiltölulega auðvelt að nefna líka fyrir utan þennan meiri hluta og fælist þá m.a. í því að útvarpsstjórinn væri ráðinn til tiltekins tíma. Hann hefði starfsfrið í t.d. fimm ár, sjö ár, þannig að hann yrði ekki rekinn á þeim tíma nema eitthvað sérstakt kæmi til, útvarpsstjórinn væri þess vegna sjálfstæður á þessum tíma og ekki háður stjórninni, væri ekki að hugsa um það þegar hann tæki ákvarðanir hvað stjórninni fyndist um það, hvort hann væri brottrekstrarhæfur eða hvort hann fengi að starfa áfram.

Það er líka neikvætt við hina endalausu ráðningu útvarpsstjóra eða þá ráðningu sem miðast aðeins við vilja stjórnarinnar að þá er hættara við að menn gleymi því sem er eðlilegt í starfi slíkrar stofnunar, menningarstofnunar af þessu tagi, að staldrað sé við eftir ákveðinn tíma og skoðað hvernig útvarpsstjórinn, hinn valdamikli útvarpsstjóri, hefur staðið sig, hvað hefur gengið fram af stefnu hans, hvernig hann hefur skilað hlutverki sínu, og spurt þeirrar spurningar hvort kominn sé tími til að skoða aðra kosti í þeim efnum án þess beinlínis að reka þann mann sem var og ekki hefur staðið sig þannig að hann verðskuldi það.

Ríkisútvarpið, jafnvel Ríkisútvarpið hlutafélag, er ekki fyrirtæki á samkeppnismarkaði og er ekki ætlað að vera það í þessu frumvarpi, a.m.k. ekki ef það er lesið bókstaflega, og markaðshefðir um þetta, hefðir sem teknar eru beint úr hlutafélögum sem starfa í allt, allt öðru umhverfi, eiga ekki við Ríkisútvarpið nema að mjög litlu leyti. Það má halda því fram að útvarpsstjórinn sem samkvæmt þessu frumvarpi hefur mikil völd, gríðarleg völd — ég geri ráð fyrir að hann reyni sjálfur að hefta eitthvað völd sín með einhvers konar skipulagsskrá, með því að koma upp einhvers konar lýðræði eða a.m.k. ráðum annarra í skipuriti Ríkisútvarpsins — það má halda því fram að með þessu nýja frumvarpi sé hinn valdamikli útvarpsstjóri, sem er beintengdur meiri hluta stjórnarinnar, miklu háðari ríkisstjórnarmeirihlutanum en núverandi útvarpsstjóri þó er gagnvart ríkisstjórnarmeirihlutanum í útvarpsráðinu, vegna þess að útvarpsstjórinn sem nú er, í því vitlausa skipulagi sem ég tel vera á Ríkisútvarpinu núna, er ekki ráðinn af útvarpsráði. Trúnaður hans er ekki gagnvart útvarpsráðinu heldur gagnvart menntamálaráðherra sem réð hann. Hann hefur þess vegna hagað sér, hygg ég, miklu sjálfstæðar gagnvart útvarpsráði en líklegt er að hinn nýi útvarpsstjóri geri gagnvart stjórninni.

Við skulum svo sannarlega vona að þeir útvarpsstjórar sem kynnu að starfa samkvæmt þessu frumvarpi, ef að lögum verður, standi í lappirnar. En hér er viljandi eða óviljandi verið að búa til leið til framhaldsítaka ríkisstjórnarmeirihlutans í gegnum útvarpsstjórann og tengsl hans við stjórnina, bæði gagnvart dagskrá, gagnvart ráðningum og allri innri stefnumótun á Ríkisútvarpinu.

Ég er að fjalla um flokkspólitísk ítök og skipulag á Ríkisútvarpinu en ég ætla næst, forseti, að tala aðeins um þjónustusamning menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins. Þá reka menn upp stór augu því að ekkert er um þennan þjónustusamning í frumvarpi því sem hér er til umræðu. Samt er þessi þjónustusamningur til og það er út af fyrir sig ákaflega sérkennilegt að ekki sé fjallað um svona mikilvægt atriði í sjálfum lagatextanum vegna þess að það er eitt af meginatriðunum í skipulagi Ríkisútvarpsins hlutafélags að stjórn þess eða útvarpsstjóri, það er reyndar óljóst, geri sérstakan þjónustusamning við menntamálaráðherra. Slíkir þjónustusamningar eru reyndar nú við lýði eða voru a.m.k. til skamms tíma og voru nú ekki merkileg plögg í sjálfu sér. Það hefur verið eins konar tíska í menntamálaráðuneytinu og öðrum ráðuneytum að gera slíka samninga og það var ákveðið að gera hann líka við Ríkisútvarpið, það var útvarpsstjóri sem gerði þann samning. Ég man ekki til þess að hann hafi verið merkilegur og kannski verður þessi þjónustusamningur ekki merkilegri en þeir sem þar voru.

Gert er ráð fyrir þjónustusamningi, að vísu ekki í frumvarpinu sjálfu, en þjónustusamningurinn er beinlínis nefndur á nafn í hinu fræga bréfi ESA frá 20. janúar, því sem við fengum að sjá 24. mars. Þar er minnst á þennan samning með ensku heiti, sem ég er því miður búinn að gleyma en get rifjað upp í síðari ræðum ef menn vilja. Fulltrúi menntamálaráðherra sagði á fundi sem um þetta fjallaði m.a. að þessi þjónustusamningur yrði gerður, hann yrði liður í þessu skipulagi og eftirlitsstofnuninni yrði svarað með því að svo væri. En spurning eftirlitsstofnunarinnar var reyndar sú hvort þessi þjónustusamningur yrði opinber eða ekki þannig að umræður um þjónustusamninginn hafa greinilega farið fram áður á milli sendinefndar íslensku ráðuneytanna og ESA á fundum sem haldnir hafa verið, að ég hygg í Strassborg í Frakklandi, um það mál. Það var út af spurningu ESA um það hvort þjónustusamningurinn yrði gerður opinber sem við þingmenn í menntamálanefnd fengum að vita að gera á þennan þjónustusamning.

Ég ætla ekkert að vera með óþarfar grunsemdir um það hvað hér býr á bak við. Mér finnst þessi vinnubrögð út í hött og fyrir neðan allar hellur, að þetta plagg, þessi stofnun í skipulaginu, þjónustusamningurinn, skuli koma upp með þessum hætti einum af tilviljun í bréfi frá Eftirlitsstofnun EFTA en sé ekki í frumvarpinu og sé ekki í þeim munnlegu og skriflegu greinargerðum sem að baki því standa eða fluttar hafa verið eftir að það kom í menntamálanefnd af fulltrúum menntamálaráðherra eða öðrum slíkum.

Ég vil segja það um þjónustusamninginn að það er ekkert óeðlilegt að slíkur samningur sé hafður og sé þá bæði opinber og skilgreindur í reglum og lögum. Það er hins vegar heppilegast að útvarpsstjóri og hans menn ráði dagskránni. Stjórnin — svo maður reyni nú að taka þetta frumvarp og tala um það eins jákvætt og hægt er — eða útvarpsráðið hafi sem minnst áhrif á dagskrána og þá eingöngu frá rekstrarlegu sjónarhorni. Þetta á líka að gilda um menntamálaráðherra. Með því hins vegar að gera ráð fyrir þessum sérstaka þjónustusamningi menntamálaráðherra og Ríkisútvarpsins án aðkomu nokkurs annars er uppi sú hætta að ráðherrann sjálfur taki sér dagskrárvald. Þess vegna er eðlilegt að um hann sé ákvæði í lögum og þess vegna er eðlilegt að það sé einhver annar en útvarpsstjóri eða stjórn sem leggur blessun sína yfir þennan þjónustusamning, lítur eftir því að menntamálaráðherra sé ekki að taka sér vald sem honum ekki ber. (Gripið fram í.)

Í þjónustusamningi af þessu tagi — ég hygg, forseti, að Pétur Blöndal hafi ekki heyrt um þennan þjónustusamning og ég fagna því að hann sé kominn hér í salinn og hvet hann til þess að kynna sér þetta mál eins vel og hann getur. Það má t.d. benda honum á bréfið frá ESA 20. janúar 2006. (Gripið fram í.) Í slíkum þjónustusamningi eru sum ákvæði eðlileg. Þjónustusamningurinn byggist væntanlega á því að menntamálaráðherra heitir að beita sér fyrir ákveðinni fjármögnun til Ríkisútvarpsins fyrir samningstímabilið og Ríkisútvarpið telur þá upp í staðinn það sem það ætlar að gera við þetta fé. Það er t.d. eðlilegt að í slíkum samningi sé fjallað um hluti eins og textun fyrir heyrnarlausa og heyrnarsljóa. Ég minnist þess þegar sagt var frá því að frumvarpið um Ríkisútvarpið hf. væri tilbúið þá var það einmitt í umræðu hér á þinginu um textun í sjónvarpi fyrir heyrnarlausa og heyrnarsljóa, hæstv. ráðherra valdi fyrirspurnarformið til þess að segja þingheimi og þjóð frá þessum fréttum. Ráðherrann sagði þá að þetta væri efni fyrir þjónustusamning sem hann gæti gert við Ríkisútvarpið.

Það er í raun og veru ekkert óeðlilegt að menntamálaráðherra geri slíkan samning, þ.e. ef ekki er um beina lagaskyldu ræða og jafnvel þó að það væri er ekki óeðlilegt að menntamálaráðherra geri sérstakan samning um þetta við einmitt Ríkisútvarpið, almannaútvarpið sem á m.a. að reyna að koma til móts við alla svokallaða minnihlutahópa, sem mér finnst nú kjánalegt orð fyrir þá sem eru aðeins öðruvísi en hinir. Þá mundi menntamálaráðherra væntanlega heita því sérstaklega að útvega fjármagn til þeirrar aukaþjónustu sem Ríkisútvarpið veitti á þessu sviði og það er ósköp eðlilegt að slíkur samningur sé gerður.

Hættan við þjónustusamning sem ekki er skýrður og tilgreindur í lögum og reglum og enginn blessar eða samþykkir nema þeir sem hann gera, þ.e. menntamálaráðherrann sjálfur og svo útvarpsstjórinn sem er ráðinn af ríkisstjórnarmeirihluta í hinu nýja útvarpsráði, er auðvitað sú að í þjónustusamningi sé fjallað með öðrum hætti um dagskrá, að það séu ákvæði um dagskrá sem menntamálaráðherra setur inn í samninginn á forsendum sem eru óljósar, sem byggjast t.d. ekki á almennri stefnumörkun sem þingið hefur tekið þátt í eða samþykkt. Aftur kemur að því að veldur hver á heldur og ég vona að þær áhyggjur mínar sem hér eru nefndar um þjónustusamninginn séu óþarfar. En í frumvarpinu er þessi þjónustusamningur ekki einu sinni nefndur á nafn, hvað þá að um hann sé fjallað með einhverjum þeim hætti í frumvarpinu að hægt sé að taka þátt í umræðu um hann.

Ég vil benda á það í þessu sambandi, af því að ég hef verið að tala um Evrópuráðsreglurnar, að hér er ekki notað það tækifæri sem gefst við svona breytingar til þess að búa til í skipulagi Ríkisútvarpsins svokallað eftirlitsráð eins og það er nefnt í tilmælum Evrópuráðsins eða akademíu eins og hefur stundum verið kallað hér í umræðum um Ríkisútvarpið okkar, þann breiða hóp sem komi til auk stjórnarinnar og sé eins konar fulltrúi notenda, hafi ákveðin áhrif á rekstur og dagskrá útvarpsins umfram áhrif stjórnarinnar sjálfrar eða nýja útvarpsráðsins. Slík akademía — Kvennalistinn tel ég fyrstur flokka hafi verið með hugmyndir um þetta hér á þinginu, Frjálslyndi flokkurinn hefur með frumvarpi, sem Sverrir Hermannsson flutti upphaflega, tekið upp þær tillögur eða endurmótað þær — gæti t.d. komið saman árlega, farið yfir stöðuna hjá Ríkisútvarpinu, veitt ráð, mótað drætti í dagskrá til langs tíma og hún gæti líka tekið afstöðu til þjónustusamningsins við menntamálaráðherra og jafnvel til annarra slíkra hluta og þar með gegnt því hlutverki að tempra vald ráðherra og útvarpsstjóra.

Reynandi væri, ef við værum að þessu í alvöru og ekki bara að taka þátt í þessari afgreiðslu hér í þinginu, þessari sjálfkrafa ríkisstjórnarmeirihlutaafgreiðslu hér í þinginu, að gera tilraun þar sem akademían væri ráðgefandi fyrst í stað nema t.d. um þennan þjónustusamning og auka síðan völd hennar í lögum og reglum ef starfsemin gefst vel. Þessi hugmynd, eins og ég sagði áður, er ekki neitt ný eða óvenjuleg á evrópskan kvarða. Í tilmælum Evrópuráðsins frá 1996 er nefnilega fjallað um stjórnskipan eða yfirstjórn ríkisútvarpsins með tvennum hætti. Þar er annars vegar talað um stjórn og hins vegar um eftirlitsráð. Þegar þetta er borið saman við þau hugtök sem við þekkjum betur í stjórnskipulagi Ríkisútvarpsins má segja að samkvæmt frumvarpinu væri stjórnin þá útvarpsstjórinn og að einhverju leyti hið nýja útvarpsráð samkvæmt frumvarpinu en eftirlitsráðið vantar.

Í tilmælum um eftirlitsráðið frá Evrópuráðinu segir m.a. að reglur um stöðu þessa ráðs skuli orðaðar þannig að ekki sé hætta á stjórnmálalegum afskiptum eða annars konar íhlutun og að fulltrúar, ráðsmenn í þessum eftirlitsráðum séu skipaðir á opinn og fjölræðislegan hátt. Þeir gæti almennra hagsmuna samfélagsins, þeir megi ekki taka við umboði eða fyrirmælum frá öðrum en þeim sem skipaði þá með fyrirvara um önnur ákvæði laga í sérstökum tilvikum, þá megi ekki reka eða segja upp af neinum öðrum en þeim sem skipaði þá og þeir megi ekki hafa hagsmuna að gæta í fyrirtækjum eða öðrum stofnunum í fjölmiðlun, taka við þóknun í þeim eða álíka sem gæti leitt til hagsmunaárekstra í störfum þeirra fyrir eftirlitsráðið.

Það er ekki gert ráð fyrir neinu slíku ráði í þessu frumvarpi enda virðast tilmæli Evrópuráðsins ekki hafa verið könnuð eða lesin, a.m.k. ekki tekið mark á þeim, og stjórnin í frumvarpinu, eins og ég segi, tekur til ákveðinna starfshátta eftirlitsráðsins en meginatriði þess eru alveg skilin eftir. Það er engin sú trygging neytenda og starfsmanna og valdtemprun í skipulagi Ríkisútvarpsins í frumvarpinu sem hér liggur fyrir sem gert er ráð fyrir í tilmælum Evrópuráðsins.

Skipulag Ríkisútvarpsins hf. er auðvitað bastarður. Ytra formið er fengið að láni úr hlutafélagalögunum en hin flokkspólitísku ítök geta haldið áfram í gegnum þetta skipulag. Ef menntamálaráðherra og ríkisstjórnarmeirihluti á Alþingi hverju sinni kýs, hafa þeir aðilar meiri möguleika en áður á að beita áhrifum sínum hvað varðar starfsemi og rekstur Ríkisútvarpsins. En það mundi væntanlega gerast í leyndum milli meiri hluta stjórnar og útvarpsstjóra í staðinn fyrir þó það að ýmsar stjórnarathafnir í núverandi skipulagi neyðast til þess að vera uppi á borðinu.

Ég lýk þessum kafla, forseti, öðrum kafla af þremur — og sá þriðji verður nú stystur — af minni ræðu með tilvitnun í þingsályktunartillögu okkar samfylkingarmanna frá því í fyrra til sýnis um það sem við teljum vera leiðina um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og skipulag þess, með leyfi forseta:

„Samfylkingin telur að hlutverk Ríkisútvarpsins sem almannaútvarps sé best tryggt með því að það sé sjálfstætt, hafið yfir flokkadrætti og óháð pólitískum stjórnvöldum hverju sinni en geri langtímasamninga við ríkisstjórn og Alþingi um rekstrarfé og veitta þjónustu. Ríkisútvarpið þarf að losa úr viðjum ríkisstofnunarfyrirkomulagsins þannig að það hafi meira svigrúm í kjarasamningum og ráðningarkjörum, til samninga við fyrirtæki á markaði, til þátttöku í hlutafélögum innan tiltekinna marka o.s.frv. Mikilvægt er að koma stjórnskipan þess þannig fyrir að yfirmenn Ríkisútvarpsins eigi ekki starf sitt undir handhafa framkvæmdarvaldsins eða meiri hlutans á Alþingi, og tryggja þarf að fagleg sjónarmið ríki ein saman við ákvarðanir um dagskrá, mannaráðningar og efniskaup innan ramma þeirrar dagskrárstefnu sem mótuð hefur verið. Skipulag á Ríkisútvarpinu verður að vera með þeim hætti að skýr verkaskipting sé milli stjórnenda annars vegar og hins vegar þeirra sem móta stefnu til framtíðar og hafa eftirlit með starfseminni. Dagskrá þarf á hverjum tíma að ráðast af ákveðinni heildarstefnu og innan Ríkisútvarpsins þarf að fara fram skipulegt mat á því hvernig einstakir dagskrárliðir og framboð dagskrárdeilda í heild samsvara slíkri stefnu. Starfsmenn eiga að hafa veruleg ítök við stjórnun Ríkisútvarpsins en að henni verða einnig að koma fulltrúar eigendanna — almennings. Útvarpsráð þarf að leggja niður í núverandi mynd eða breyta í grundvallaratriðum starfsháttum þess og mönnun. Þegar ráðið verður lagt niður eða breytt verulega þarf jafnframt að tryggja að flokkspólitískar forsendur ráði ekki skipan útvarpsstjóra og annarra yfirmanna.“

Þetta sögðum við flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu úr Samfylkingunni í greinargerð með henni í fyrra og getum verið ánægð með það því að þessi texti er nánast eins og dómur um það frumvarp sem hér er til umræðu.

Þriðja meginatriðið í nefndaráliti okkar minni hluta menntamálanefndar snýst um rekstrarformið sem Ríkisútvarpinu er valið í frumvarpinu. Ég hef áður í því sambandi rifjað upp ummæli hv. þm. Péturs Blöndals um þetta frumvarp, ég sakna hans úr salnum. (Gripið fram í.) Þau voru þannig að þetta frumvarp sé að vísu ekki nógu gott og miklu verra en frumvarp Péturs og félaga — sem mönnum til upprifjunar voru þeir hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er formaður menntamálanefndar en Birgir Ármannsson varð hins vegar þess heiðurs aðnjótandi að vera kallaður til í forföllum eins af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni.

En sú skemmtilega tilviljun varð til þess að 40% af meiri hluta menntamálanefndar sem mælir með frumvarpi því sem hér er til umræðu er myndaður af þingmönnum sem hafa þá skoðun að selja beri Ríkisútvarpið, leggja það niður og selja það, (Gripið fram í.) en í hinum 60 prósentunum höfum við að vísu ekki heyrt. Það er Sigurrós Þorgrímsdóttir, sem ekki hefur tjáð sig um þetta efni, ég vona að hún geri það hér síðar í umræðunni, Dagný Jónsdóttir, sem ég man ekki eftir að hafi tjáð sig um það efni sérstaklega en gerir það á eftir, (Gripið fram í: Hún gerir það á eftir, hún er á mælendaskrá.) hún er á mælendaskrá, og Ísólfur Gylfi Pálmason, hv. þingmenn allir saman, og ég bíð í ofvæni eftir því að vita hvað Ísólfur Gylfi Pálmason hefur til þessara mála að leggja, hv. þingmaður, vegna þess að þar fer maður sem veit viti sínu og hefur mikla reynslu af viðskiptum og stjórnun.

Pétur sagði hins vegar um frumvarpið, þó að það væri ekki eins gott og hans eigið, að það hefði þó þann kost, með leyfi forseta:

„… að bjóða upp á leið til að hægt sé að selja það eftir einhvern tíma.“ Þarf að segja mikið meira um rekstrarformið í hinu nýja Ríkisútvarpi?

Já, kannski nokkur orð vegna þess að eftir allt saman er ekki allur sá þingmeirihluti sem beðið er eftir að samþykki þetta frumvarp á sömu skoðun og Pétur Blöndal og töluverður hluti þessa þingmeirihluta er heldur ekki eins hreinskilinn og hv. þm. Pétur Blöndal er og hafi heiður fyrir fyrr og síðar.

Það er t.d. að hlutafélagsformið var kynnt í sumar og haust sem sérstök krafa frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Ráðherrann gaf það í skyn eftir að þeirri frétt hafði verið lekið í fjölmiðla að þessi ESA-skjöl væru til og umræða hafin um málin milli ESA og ráðuneytanna tveggja eftir að frumvarpið hafði verið lagt á hilluna hér í þinglok í fyrra, og bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn tóku undir það að hér væri á ferðinni krafa frá ESA sem Íslendingar hlytu að sætta sig við og þess vegna mundi stjórnarmeirihlutinn breyta frumvarpi sínu. Ég man sérstaklega eftir frásögnum framsóknarmanna af þessu vegna þess að þeir tóku þessu náttúrlega fegins hendi. Hér var komin afsökun fyrir því að gefast upp fyrir sjálfstæðismönnum í þessari deilu um rekstrarformið og fela þá uppgjöf fyrir kjósendum og almenningi sem fólst í stefnubreytingu Framsóknarflokksins.

Menn þekkja þessa sögu. Við í stjórnarandstöðunni fengum þessa ESA-pappíra að lokum að löngum tíma liðnum með harðfylgi og í raun og veru með hótunum um að sækja þá eftir upplýsingalögum ef þeir yrðu ekki afhentir og ef við mættum ekki gera þá opinbera. Þar kom auðvitað í ljós þetta: ESA segir ekkert um rekstrarform, það hefur engar sérstakar ábendingar um rekstrarformið. Það segir hins vegar og sagði um fyrra frumvarpið um sameignarfélag að það stæðist ekki vegna þeirrar almennu kröfu að ábyrgðin eigi að vera takmörkuð á útvarpsstöð með ríkisstuðningi af þessu tagi. Þess vegna stæðist sameignarfélagið ekki og hið núverandi fyrirkomulag stæðist ekki heldur, það yrði að fara aðrar leiðir með takmarkaðri ábyrgð. Nú má reyndar finna að því að ESA sé, eins og stundum er sagt og áður hefur verið sagt í þessari ræðu, hugsanlega kaþólskara en páfinn því að til eru almannaútvörp í Evrópu sem eru ríkisstofnanir og ekki allfjarri Íslandi. En látum vera, þetta var skoðun ESA og það var ljóst að önnur rekstrarform eru til sem uppfylla þetta skilyrði, bæði hlutafélagsformið vissulega en líka rekstrarform sjálfseignarstofnunarinnar. Hér voru því kostir fyrir hendi fyrir stjórnarflokkana, a.m.k. þessir tveir sem voru í samræmi við athugasemdir ESA.

Sjálfseignarstofnunin er reyndar gömul stefna Framsóknarflokksins sem Framsóknarflokkurinn breytti ekki fyrr en á síðasta flokksþingi sínu og þess má geta að við höfum líka haft þá stefnu að ríkisstjórnin sé sjálfseignarstofnun. Það form hentar ágætlega fyrirtæki í almannaþjónustu. Lögin um sjálfseignarstofnanir, sem mætti vissulega bæta og skýra, eru sveigjanleg, þau eru meira að segja svo sveigjanleg að þau leyfa sjálfseignarstofnunum að reka hlutafélag. Rekstur hlutafélags innan sjálfseignarstofnunarformsins er leyfilegur og getur hentað. Ég þekki það ágætlega af því að ég vann einu sinni hjá fyrirtæki sem var sjálfseignarstofnun, þ.e. Máli og menningu, en það fyrirtæki hafði mikinn atvinnurekstur og því var þannig breytt að sjálfseignarstofnunin stofnaði hlutafélag til þess að nýta sér það form en hélt áfram starfsemi sinni í grunninn sem sjálfseignarstofnun. Þetta gekk alveg ágætlega og kannski betur en það sem við tók, án þess að ég ætli að fara nánar út í þá sögu með fullri virðingu fyrir því fyrirtæki sem varð arftaki Máls og menningar.

Það er auðvitað mikill kostur fyrir Ríkisútvarpið og önnur slík almannafélög að sjálfseignarfélagið er ekki til sölu, það er beinlínis ekki til sölu vegna þess að það á sig sjálft. Að því leyti er það allt öðruvísi en hlutafélag vegna þess að hlutafélög eru í eðli sínu til sölu, til þess eru hlutirnir að menn skiptist á þeim ef verka vill. Hlutafélögin eru auðvitað form fyrir fyrirtæki sem fyrst og fremst eru í rekstri með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Skyldur hlutafélagsins eru við hluthafana fyrst og fremst, síður við haghafana, sem við hv. þm. Pétur Blöndal nefnum svo, og ekki við samfélagið þó að gott hlutafélag og gott fyrirtæki eigi að gæta að öllu þessu. Hlutafélag er smíðað þannig að það geti verið snart í snúningum að sjálfsögðu. Þar er ekki gætt neins lýðræðis við sjálfan reksturinn eða starfsemina (Gripið fram í.) enda eru málin bara gerð upp einu sinni á ári við hluthafana á aðalfundi eða hluthafafundunum.

Forseti. Nú ætlar hv. þm. Pétur Blöndal öðru sinni að ginna mig til langrar ræðu sem hann þó hefur viðurkennt að hann geti ekki hlustað á vegna þess að athyglisþol hans er ekki meira en 15 mínútur í senn (Gripið fram í.) og nú vill hann að ég flytji ræðu um sparisjóðina fyrir sig. En ég tel að það samræmist ekki þeirri umræðu sem við höfum hér stofnað til og fjallar um Ríkisútvarpið hlutafélag og biðst undan því, forseti, að þurfa að svara hv. þm. Pétri Blöndal um sparisjóðina þó að sú umræða gæti út af fyrir sig verið mjög fróðleg.

Allt er þetta ágætlega skilgreint í hlutafélögunum. Fundir þeirra og réttur hluthafa er vel skilgreindur á aðalfundum og hluthafafundum og það eru merkilegir fundir í hlutafélögum. Það er hins vegar eins og hver önnur eftiröpun að hafa hlutafélög þar sem aðalfundurinn fer í raun og veru bara þannig fram að einn hluthafi hlustar á embættismenn sína og kýs þá síðan aftur. Það er auðvitað ekki meiningin með hlutafélagsforminu að málin gangi þannig. Þetta form er meira og minna í misræmi við starfsemi eins og þá almannaþjónustu sem Ríkisútvarpinu er ætlað að veita og þar fer sjálfseignarstofnunarformið einfaldlega miklu betur.

Þá er auðvitað það að segja að sporin ósköp einfaldlega hræða þegar lagt er til að Ríkisútvarpið verði að hlutafélagi samanber tilvitnuð orð hv. þm. Péturs Blöndals og þá sögu sem við höfum fyrir framan okkur um hlutafélagsvæðingu ríkisstofnana undanfarin ár. Það er aðeins ein ríkisstofnun sem breytt hefur verið í hlutafélag, þ.e. af þeim sem var breytt fyrir nokkru síðan, sem ekki hefur verið einkavædd og það mun vera Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Öll önnur hlutafélög sem stofnuð hafa verið úr ríkisstofnunum hafa síðan endað með því að vera til sölu. Og hið sérstaka dæmi er auðvitað vegferð Landssímans þar sem menn voru blekktir með því í upphafi að hér væri einmitt aðeins um betra rekstrarform að ræða og stæði alls ekki til að selja þetta en síðan var ákveðið að sjálfsögðu að gera það og stóð alveg örugglega alltaf til. Þar með er ég ekki að lýsa yfir skoðun á því máli, ég tel eðlilegt eins og ég hef sagt áður að atvinnurekstur sem hentar samkeppni á markaði sé á markaði og ekki í höndum hins opinbera.

Ferilinn þekkjum við ágætlega, hlutafélögin eru undanfari einkavæðingar. Meðan hennar er beðið hefur ríkishlutafélagið verið ráðherrafyrirtæki, stjórnin skipuð pólitískum trúnaðarmönnum og þannig á það líka að vera hér þó að ekki sé um ráðherraskipun að ræða heldur kosningu á þingi. Fyrirtækið hefur lotið beint eða óbeint vilja og geðþótta forustumanna ríkisstjórnarinnar án afskipta eða eftirlits Alþingis eða a.m.k. í algjöru lágmarki. Það hefur líka einkennt þessi hlutafélög að aðgangur almennings að upplýsingum um fyrirtækið í fjölmiðlum eða t.d. í gegnum fyrirspurnir fulltrúa sinna á Alþingi er miklu verri en gagnvart ríkisstofnunum og oft miklu síðri en við á um venjuleg fyrirtæki á markaði sem hafa þó upplýsingaskyldu gagnvart hluthöfum sínum og gagnvart Kauphöllinni þegar þau eru skráð og verða að gefa út sérstakar tilkynningar um viðburði í viðskiptum og starfsemi til þessara aðila. Það þurfa þessi ríkishlutafélög sem hingað til hafa verið stofnuð ekki að gera.

Um gagnsæi í starfsemi fjölmiðla eru tilmæli frá Evrópuráðinu og menn þekkja líka þingsályktunartillögu Bryndísar Hlöðversdóttur og okkar samfylkingarmanna um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði þar sem vel er farið í gegnum þá hluti. Það er í raun og veru furðulegt, rakalaust og dæmalaust að ekki skuli við þessar breytingar eiga að hafa gagnsæi að leiðarljósi við rekstur þessa nýja hlutafélags, að upplýsingarnar skuli ekki vera aðgengilegar öllum þeim sem málið kemur við heldur er þvert á móti hætt við að breytingin leiði til leyndar og pukurs samkvæmt þeim hugsunarhætti sem því miður einkennir ríkisstofnanir öðrum fremur og er hugsunarháttur kansellísins, að það sem ekki er skylt að gefa upp skal ekki gefið upp. Það er ekki hlustað á tillögur okkar um upplýsingalög sem gildi um RÚV, sem er einföld tillaga tæknilega og auðskiljanleg öllum sem skilja vilja og þar að auki eru í upplýsingalögunum sérstakar undantekningar vegna viðskiptahagsmuna sem vernda þarf eða félagið telur sig þurfa að halda leyndum alltaf eða tímabundið, það eru sérstök ákvæði sem undantaka það, 3. töluliður 6. gr.

Hvers vegna getum við ekki fengið þessi upplýsingalög? Svör hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, formanns menntamálanefndar, á síðasta fundi nefndarinnar voru þau að það standi ekki til að hafa upplýsingalögin og fleiri röksemdir, ef röksemd skyldi kalla þessa, voru ekki nefndar nema sú sem þá var fram tekin nú áðan í andsvörum að frumvarp viðskiptaráðherra um opinber hlutafélög kæmi hér í staðinn fyrir þörfina sem við teldum vera á upplýsingalögum. Ég hef áður talað um það frumvarp hér í andsvörum. Í raun og veru er það hryggilegt að þetta frumvarp skuli hafa orðið eins og það varð vegna þess að það var einmitt komið hér með það á sama tíma í þingið og þetta frumvarp hér og það átti þegar fyrst var um það rætt að vera sérstök viðbót við Ríkisútvarpið hf. Það mátti búast við þegar þær fréttir bárust að með því væri þá fullnægt þörfinni á upplýsingum, þörfinni á gagnsæi. En í rauninni eru efnisatriðin í frumvarpi viðskiptaráðherra um opinber hlutafélög sem eru núna að fara í gegnum þá nefnd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal stjórnar, óbreytt, án nokkurra áhrif af frumvarpi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um opinber hlutafélög sem þar liggur líka fyrir. Niðurstaða þess er í stuttu máli sú, að fjölmiðlar geta sent ljósmyndara á aðalfund. Meiri eru upplýsingarnar ekki og meira er gagnsæið í raun og veru ekki.

Forseti. Það er komið að lokum þessa kafla í ræðu minni og þar með ræðunnar allrar. Ég skil eftir ýmsa mikilvæga þætti fyrir þá sem hér koma á eftir úr minni hlutanum og auðvitað alla þingmenn. Þar á meðal eru álitamál og gallar hvað varðar réttindi starfsmanna og ekki síður álitamál um fjármögnun með nefskatti sem er mjög umdeild. Ég hygg, og við í minni hlutanum, að slíkt verði ekki til að auka samstöðu um Ríkisútvarpið í framtíðinni. Ég treysti því að geta farið yfir aðra hluti sjálfur á eftir, m.a. um réttindamál sem varða efni sem Ríkisútvarpið geymir í söfnum sínum og ráðstöfun þeirra safna. En vekja verður athygli á því varðandi þetta efni, gamalt dagskrárefni, kvikmyndir og þess háttar sem Ríkisútvarpið annaðhvort varðveitir eða hefur gert samninga um, að það koma fleiri að því en Ríkisútvarpið sjálft. Það er í raun sameign margra rétthafa. Það er ekkert gefið að þeir rétthafar sætti sig við að það efni sem samið var um við Ríkisútvarpið og framleitt þar, í Ríkisútvarpinu eins og það er nú, flytjist áfram til hlutafélags sem menn vita ekki hvert ætlar sér og hvað gerir við það efni sem þarna er um að ræða.

Ég hefði líka viljað tala heldur meira um eiginfjárstöðuna, um upphæð hlutafjárins, sem hér er hin hlægilega upphæð 5 milljónir, og um skuld Ríkisútvarpsins við ríkið vegna Sinfóníunnar og jafnframt um eignir sem Ríkisútvarpið telur sig eiga en eru í notkun hjá Sinfóníunni. Síðast var það upplýst, eða að minnsta kosti var því haldið fram af fulltrúa fjárlagaskrifstofu menntamálaráðuneytisins, að ríkissjóður ætti í raun þessa eign. Þar er því uppi deila þriggja aðila um eignarhald og yfirráð á verðmætum hlutum, fyrst og fremst hinni frægu gömlu fiðlu sem Guðný Guðmundsdóttir leikur á, annar af tveimur konsertmeisturum Sinfóníunnar, við fögnuð og aðdáun þeirra sem á hlýða.

Ég hefði líka viljað ræða m.a. um virðisaukaskattsmálin sem hv. formaður menntamálanefndar minntist reyndar sérstaklega á í andsvari hygg ég eða framsöguræðu sinni. En þar er um það vandamál að ræða, sem hann gerði lítið úr en ég tel vera þess virði að spekúlera betur í, að til að vera á virðisaukaskattskrá þarf innskattur til fyrirtækisins að jafnaði vera meiri en útskattur þess. Það er talinn hagur að vera á þessari virðisaukaskattskrá fyrir Ríkisútvarpið og að ég hygg einnig fyrir viðskiptamenn þess.

En þessu fylgir sá meinbugur að sjálf forsendan til að vera á virðisaukaskattskránni, þ.e. að fá meiri innskatt en útskatt, býr til sérstakan hvata í starfsemi þessa hlutafélags okkar eða reyndar sjálfseignarstofnunar, hvort sem væri, sem varðar ekkert hlutverk þess hvorki sem almannaútvarps né í samkeppnisrekstri. Til að uppfylla þetta skilyrði er æskilegt að Ríkisútvarpið afli meiri auglýsinga, flytji meira af auglýsingum sem bera með sér innskattinn en kaupi minna af efni að utan þar sem útskatturinn kæmi til álita. Þannig kostar þörf Ríkisútvarpsins til að komast á virðisaukaskattskrána ákveðin óeðlileg sjónarmið í rekstri Ríkisútvarpsins. Þetta hefðum við þurft að ræða betur.

Fulltrúi fjármálaráðherra neitaði því staðfastlega að hægt væri að setja sérstakt ákvæði inn í lögin um Ríkisútvarpið á sama hátt og formaður menntamálanefndar taldi gjörsamlega óeðlilegt að nokkur sérstök ákvæði væru í þessum lögum, eða eins og formaðurinn sagði, að hlutafélagið ætti að vera — ég finn ekki tilvitnunina — rétt eins og önnur hlutafélög. Þar er einmitt kominn sá maður sem í fyrra var á frumvarpi um að selja Ríkisútvarpið. Hann telur greinilega að ekki sé um að ræða neina þá sérstöðu sem þetta hlutafélag eigi að hafa fram yfir önnur hlutafélög.

Ég hefði líka viljað ræða ýmis álitamál um fjárhagslegan aðskilnað en ætla að stilla mig um það að mestu. Ég vil aðeins kannski af skömmum mínum spyrja hv. formann menntamálanefndar um hvers vegna 14. töluliður er fluttur í heilu lagi inn í þá grein sem fjallar um aðra starfsemi vegna þess 14. töluliður hefst þannig í frumvarpinu eins og það er núna, að Ríkisútvarpinu hf. sé heimilt að sjá til þess að frumflutt dagskrárefni félagsins verði varðveitt til frambúðar.

Ég sé ekki að þessi heimild falli undir aðra starfsemi heldur hljóti allir sanngjarnir menn, þar á meðal bírókratar Eftirlitsstofnunar EFTA, að sjá að varðveisla til frambúðar af þessu tagi hljóti að vera eðlilegur partur af þjónustu útvarpsins í almannaþágu sem tekin er fram í 3. gr. Ég veit vel að útlán, sala og dreifing dagskrárefnis gegn gjaldi fellur undir aðra starfsemi að áliti Eftirlitsstofnunar EFTA en ég held að hér sé fingurbrjótur eða hortittur sem ég beini til formanns menntamálanefndar að laga.

Þannig er að samkvæmt útvarpslögum hafa allar útvarpsstöðvar skyldu til varðveislu um ákveðinn tíma. Sú varðveisla er reyndar til þess að útvarpsréttarnefnd geti skoðað það efni sem flutt er og lagt á það mat sitt. En það eru líka lög um skylduskil til safna þar sem kveðið er á um að útsenda dagskrá Ríkisútvarpsins skuli afhenda í einu eintaki í safnið og aðrar íslenskar stöðvar eiga líka að gera það. Því er beinlínis kveðið á um það í öðrum lögum að það beri að varðveita efni. Ég held, án þess ég þori að standa á því fastar en fótunum, að þetta ákvæði 10. gr. í lögum nr. 20/2002, um skyldur til safna, hafi gagnvart Ríkisútvarpinu verið framkvæmt þannig að Ríkisútvarpið hafi varðveitt sjálft dagskrá sína. Unað hafi verið við það þó það sé ekki nákvæmlega í samræmi við texta 10. gr. En það auðvitað kann að verða öðruvísi núna þegar fyrirtækið er orðið að hlutafélagi.

Ég ætla að lokum að ítreka þá þrjá þætti sem nefndarálit okkar í minni hluta menntamálanefndar snýst um og ég hef rakið í miklu lengra máli en ég bjóst við vegna þess að efnið er yfirgripsmikið og erfitt að koma því fyrir í afar stuttu máli jafnvel þó ég tali ekki um nema þessa þrjá þætti og láti aðra um að fjalla um mikilvæg mál sem hér hafa orðið útundan. Þessir þættir varða hvort Ríkisútvarpið á að vera almannaútvarp í framtíðinni eða í markaðsstöðu eða blanda af þessu hvoru tveggja. Samkvæmt frumvarpinu er þetta áfram í sama farinu og síðustu 20 ár.

Annar þátturinn varðar það hvort við ætlum að hætta að hafa flokkspólitísk ítök í Ríkisútvarpinu. Eða hvort við ætlum að samþykkja þetta frumvarp sem er þannig að það er ekkert í því sem kemur í veg fyrir framhald flokkspólitískra ítaka og jafnvel líkur til að þau geti orðið skæðari og harðskeyttari en er jafnvel nú.

Í þriðja lagi er það hlutafélagsformið sem ekki hentar RÚV. Það sem virðist eiga að gerast með það er að þar komi saman hið versta úr báðum heimum. Að fyrirtæki með ríkisstuðningi keppir sem hlutafélag á markaði en leynd hvíli yfir starfsemi sem að minnsta kosti að meginhluta er sögð felast í almannaþjónustu.

Ég ætla að ljúka kafla mínum um rekstrarformið og þar með þessari framsöguræðu fyrir nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar með orðréttri tilvitnun í leiðara Fréttablaðsins frá 31. mars 2006. Ég er að vísu ekki sammála öllu sem þar stendur, en þarna er komist vel að orði um markaðsstarfsemi hins væntanlega hlutafélags. Ég held að ritstjórnargrein Fréttablaðsins þennan dag hljóti að vekja sérstaka athygli stjórnarliða, einkum sjálfstæðismanna, vegna þess að það er fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem heldur um pennann, Þorsteinn Pálsson. Maður sem reyndar gegnir enn mikilvægum trúnaðarstörfum á vegum þess flokks. Leiðarinn heitir Rauðkuhugmyndafræði og fjallar um Ríkisútvarpið hf. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það er merkilegur veruleiki að í byrjun 21. aldar er allgóð samstaða frá vinstri til hægri í stjórnmálum um að starfrækja ríkisútvarp. Nánast ágreiningslaust hefur verið að kosta reksturinn með skattpeningum. Jafnframt hafa flestir talið óhjákvæmilegt að leyfa Ríkisútvarpinu þar að auki að afla tekna á samkeppnismarkaði auglýsinga.

Auglýsingatekjurnar hafa þó einna helst verið ágreiningsefni varðandi opinberan útvarpsrekstur. Þó að sú skipan gangi á svig við almennar samkeppnisleikreglur verða keppinautarnir á markaðnum að sætta sig við að annar kostur er ekki í stöðunni. Að baki þessum rekstri og markmiðum hans liggja menningarleg og tilfinningaleg sjónarmið sem rétt er að virða.

Skipulag Ríkisútvarpsins hefur lengi verið úr takt við tímann og staðið því fyrir þrifum. Ríkisstjórnin hefur kosið að gera breytingar þar á með því að koma þessari menningarstofnun í hlutafélagarekstur. Að baki því framtaki er örugglega frómur hugur. En hugmyndafræðin er nokkuð öfugsnúin.

Hlutafélög eru gott rekstrarform. Það hentar líka fyrirtækjum í ríkiseigu sem nota ekki skattpeninga í rekstur. Þannig var skynsamlegt að breyta Símanum í hlutafélag á sínum tíma. Það fyrirtæki greiddi arð í ríkissjóð. Öðru máli gegnir um stofnanir sem alfarið eða að uppistöðu til eru reknar fyrir skattpeninga. Eðli máls samkvæmt gilda aðrar leikreglur um meðferð skattpeninga borgaranna en sjálfsaflafé.

Um rekstur stofnana ríkisins gilda almennar reglur að því er varðar launaákvarðanir, réttindi og skyldur starfsmanna og almenna stjórnsýsluhætti, þar með talið upplýsingaskyldu. Þetta regluverk gildir ekki vegna þess að það sé vilji löggjafans að opinber fyrirtæki og stofnanir séu svifasein og þyngri í vöfum en hlutafélög. Ástæða þessara almennu reglna er sú að þær eru eina leiðin til þess að tryggja gegnsæi og jafnræði og koma í veg fyrir misnotkun skattpeninga.

Nú ætlar ríkisstjórnin að víkja til hliðar öllum almennum reglum sem gilda um meðferð skattpeninga að því er varðar rekstur Ríkisútvarpsins. Þar á meðferð skattpeninga að lúta reglum einkaeignarréttarins án þess að skilyrði hans um sjálfsaflafé sé fyrir hendi. Auka má skilvirkni hvarvetna í ríkiskerfinu með því að afnema þessar reglur að fullu og öllu. Eru menn reiðubúnir að taka afleiðingunum af því? Svarið er nei. Hvaða önnur sjónarmið geta gilt um meðferð skattpeninga í stærstu menningarstofnun ríkisins?

Rökin fyrir því að reka Ríkisútvarp með skattpeningum jafnframt þátttöku á samkeppnismarkaði auglýsinganna, hanga vissulega á hálmstrái eða í mesta lagi á rótarhvönn.“ — Segir Þorsteinn Pálsson og vitnar hér í Fóstbræðrasögu. — „Þau fela í sér svo verulegt frávik frá almennum leikreglum. Ríkisstjórnin er að kippa þessu haldi í burtu. Hún hefur vitaskuld þingmeirihluta til þess að koma málinu fram. En hætt er við að hún setji með því móti í uppnám framtíðarsátt um ríkisrekið útvarp. Það eru einfaldlega of mikil menningarverðmæti í húfi til að sú áhætta sé réttlætanleg.

Ríkisrekstur á samkeppnismarkaði þar sem gengið er á svig við allar grundvallarreglur um meðferð skattpeninga virðist vera í meiri skyldleika við ríkisrekstur Rauðkutímans á kreppuárunum en nútímann. Þetta gengur þvert á allt annað sem ríkisstjórnin hefur gert,“ — segir Þorsteinn Pálsson sjálfstæðismaður — „hvort heldur litið er til stjórnsýslunnar eða samkeppnismarkaðarins, og er því ekki með góðu móti skiljanlegt.“

Tilvitnun lýkur og þar með ræðu minni, forseti góður.