132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:39]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt ef menn eru farnir að fallast hér í faðma og umræðan ekki komin lengra.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar fyrr í dag — ég þurfti nú aðeins að rifja upp hvað þetta var sem ég hafði punktað niður hjá mér en ég veit að mér varð dálítið heitt í hamsi — hann hafði uppi ummæli um minn ágæta flokk Framsóknarflokkinn og ég verð að segja að mér þóttu þessi ummæli nokkuð ómakleg. Hann var að fjalla um málefnastarf okkar en hann situr ekki flokksþing okkar og veit ekki hvernig umræðan er í okkar málefnavinnu en ég get upplýst hv. þingmann um að yfirleitt fer á hverju einasta flokksþingi fram mikil umræða um Ríkisútvarpið, og hefur gert. Samþykktir hafa tekið breytingum í gegnum árin og við erum alveg óhrædd við að endurskoða fyrri ákvarðanir okkar ef breytingar verða á umhverfi og aðstæðum. Og þær hafa svo sannarlega orðið.

Mig langaði til að rifja hér upp ályktun okkar, bara til að hv. þingmaður sé með það á hreinu hvernig hún er. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt. Hraða ber endurskoðun laga um Ríkisútvarpið þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verður endurskilgreint og mið tekið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði. Uppbyggingu og rekstri landshlutaútvarps verði haldið áfram og rekstrargrundvöllur tryggður.“

Þetta er sú stefna sem við framsóknarmenn vinnum eftir frá því á flokksþingi í fyrra og tel ég að við séum fullkomlega að fara eftir henni. Ég vil ítreka að á fjölmiðlamarkaði hafa orðið miklar breytingar og mér finnst ekkert að því þó að flokkarnir aðlagist þeim og breyti samþykktum sínum. Þetta var gert í sátt á flokksþingi okkar í fyrra.