132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:44]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek afsökunarbeiðni hv. þingmanns vel til greina.

Framsóknarflokkurinn hefur ekkert breytt um skoðun á því meginatriði að ríkið skuli eiga Ríkisútvarpið og að það skuli áfram vera í þjóðareigu. Það sem hefur breyst hins vegar eru aðstæður á fjölmiðlamarkaði. Nú eru allir flokkar orðnir sammála um að ríkið eigi að eiga og reka Ríkisútvarpið til framtíðar. Það var ekki þannig fyrir nokkrum árum. Framsóknarflokkurinn samþykkti ekki hlutafélagavæðingu fyrr en þessi sátt hafði myndast og þar með eru forsendurnar orðnar allt aðrar en áður. Ég tel að rekstrarformið sé ekki aðalatriðið, heldur er aðalatriðið að það verði tryggt að RÚV verði áfram í eigu þjóðarinnar.

Ég vildi segja hér líka vegna þess að hv. þingmaður vísaði í ræðu sinni til þess að sporin hræði og þess hvernig fór fyrir Símanum, eins og hann talaði um hér í ræðu sinni áðan, að það var alveg ljóst að þegar Síminn var hlutafélagavæddur var ekki tekið fram í þeim lögum að Síminn skyldi ekki verða seldur. Það er hins vegar gert í 1. gr. laga um Ríkisútvarpið og það finnst mér vera mjög veigamikið atriði. Það er ekki rétt að blanda þessum tveimur hlutum saman. Ég veit það t.d. að þegar þessi umræða var á byrjunarstigi á flokksþingi okkar árið 2001 var ályktað um Símann.

Þá var til að mynda sagt, með leyfi forseta, að „ekki komi til sölu Símans fyrr en tryggt hefur verið að þessi markmið nái fram“ — þ.e. markmið um að fjármagni verði varið til að byggja upp dreifikerfi um landið. Og það var nákvæmlega þetta sem við stóðum við þannig að það er ekki rétt að segja gagnvart Framsóknarflokknum í þessu máli að sporin hræði. Við stöndum við okkar orð.