132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Nú er komið til 2. umr. frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Eins og kom fram í máli hv. síðasta ræðumanns er ég með á nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar sem hv. þm. Mörður Árnason gerði ákaflega góða grein fyrir. Ég treysti því að hv. þingmenn hér í sal séu búnir að kynna sér nefndarálitið vel og hafi hlustað með athygli á ræðu hv. þingmanns. Ég tel að nefndarálitið geri afar góða grein fyrir því á hvern hátt okkar sjónarmið hafa mótast við þá umfjöllun um málið sem átt hefur sér stað í nefndinni undanfarnar vikur.

Ég vil staðfesta það hér í upphafi ræðu minnar að málið var tekið úr nefnd þrátt fyrir mótmæli okkar í minni hlutanum, hv. þingmanna Samfylkingarinnar og þeirrar sem hér stendur. Okkur þótti málið vanbúið til að fara í frekari umfjöllun hér í þinginu og teljum upp í nefndarálitinu, í nokkuð mörgum stafliðum, ástæður þess að við mótmæltum því að málið yrði tekið út. Niðurstaða okkar er sú að réttast sé að vísa málinu frá og því til staðfestingar er hér í lok nefndarálitsins tillaga að rökstuddri dagskrá þess efnis.

Það er enginn efi í mínum huga, frú forseti, að offors það sem ríkir hjá ríkisstjórninni um að hlutafélagavæða hér hverja ríkisstofnunina á fætur annarri tengist þeirri lífssýn sjálfstæðismanna, sem ég vil eiginlega kalla áráttu, að draga úr umsvifum í ríkisrekstri. Hvernig reyna hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins helst að ýta því þannig úr vör að tryggt verði að dregið verði úr umsvifum í ríkisrekstri? Til að byrja með eru ríkisstofnanirnar hlutafélagavæddar með það að markmiði á endanum að selja þær. Þetta er auðvitað grátbroslegt í ljósi þess að á sama tíma og sjálfstæðismenn telja að þeir séu að draga úr opinberum umsvifum og fjáraustri í ríkisreksturinn er fjáraustur í ráðuneytin að aukast. Útgjöld úr okkar sameiginlegu sjóðum, útgjöld úr ríkissjóði sem tengjast stofnunum sem ráðherrarnir sjálfir stýra, aukast hröðum skrefum ár frá ári. Á sama tíma búa stofnanir hins opinbera, stofnanir þjóðarinnar, við fjárskort og spennitreyju og aðhaldskröfu, hagræðingarkröfu, sem gerir þeim nánast ókleift að sinna sínu lögbundna hlutverki.

Ein þeirra stofnana sem svo háttar um er Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið hefur ekki verið svo árum skiptir fært um að standa undir lögbundnu hlutverki sínu vegna fjárskorts vegna þess að ríkisstjórnin, sem hefur allt of lengi setið að völdum og ráðið lögum og lofum í fjársýslu ríkisins, hefur synjað vel rökstuddum beiðnum þessarar stofnunar um hækkun á afnotagjöldum. Nú er svo komið að stofnunin er orðin svo illa sett fjárhagslega að henni er nauðugur einn kostur, að kalla yfir sig þessa breytingu frekar en óbreytt ástand. Þetta er mín skýring á því að starfsfólk hefur jafnvel verið, margir hverjir sem við höfum heyrt um á þessum síðustu vikum sem umræðan hefur staðið, með þá upphrópun á vörunum að allar breytingar séu betri en óbreytt ástand.

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál, frú forseti, þegar Páll Magnússon útvarpsstjóri, sem kallaður var fyrir menntamálanefnd þann 27. febrúar síðastliðinn, fullyrðir kinnroðalaust og án þess að draga yfir það fjöður, og er þá fyrst og fremst að tala um fjármálin, að ef ekkert annað verði gert en að þessi breyting fari í gegn — þ.e. að þetta frumvarp fari í gegn, hlutafélagið verði búið til — verði þetta hlutafélag keyrt beina leið til fógeta í gjaldþrotaskipti. Þetta er yfirlýsing nýráðins útvarpsstjóra eftir að hann hefur farið í gegnum sín plögg og stofnunarinnar og kynnt sér málið í hörgul, sem staðfestir það fyrir okkur hér að þessu frumvarpi er ekki ætlað að gera neitt annað en að auðvelda og liðka fyrir sölu þessarar ríkisstofnunar, þessa væntanlega hlutafélags, áður en langur tími er liðinn.

Þau sjónarmið sjálfstæðismanna komu fram í umræðunni hér áðan, þegar hv. þm. Pétur Blöndal brosti í kampinn og játaði að það væri hans vilji að sem fyrst yrði hægt að selja Ríkisútvarpið hf., enda ætti ríkið ekkert að vera að vasast í einhverjum fjölmiðlarekstri. En þetta eru sjónarmið sjálfstæðismanna og þau hafa verið kunn afar lengi eins og dæmin sanna varðandi yfirlýsingar og ályktanir sem hafa verið gerðar á flokksþingum þess ágæta flokks. Má þar líka vekja sérstaka athygli á yfirlýsingum Sambands ungra sjálfstæðismanna og Heimdalls sem hafa verið nokkuð samhljóða í gegnum tíðina. Það er vilji þeirra sem starfa innan Sjálfstæðisflokksins og fylgja Sjálfstæðisflokknum að málum að Ríkisútvarpið verði selt. Það skref, sem hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, stígur nú, er fyrsta skrefið í þá átt.

Jafnvel þó að framsóknarmenn ylji sér um hjartarætur með því að klifa á setningunni sem er hér í 1. gr. frumvarpsins, þ.e. að sala félagsins að hluta eða sameining þess við önnur félög eða slit þess séu óheimil vita menn sem er — sjálfstæðismenn gera sér betur en margir aðrir grein fyrir því — að þessari grein er hægt að breyta með einföldum meiri hluta hér á Alþingi. Þeir eiga eftir að bíða þess, sjálfstæðismennirnir, að komast í þá aðstöðu að fá þessari grein breytt. Þeir ætla sér eflaust einhvern tíma til þess en sjónarmiðið er eitt og hið sama og það hefur ævinlega verið, þ.e. að losa þessa stofnun úr ríkiseigu og koma henni í eigu einkaaðila á markaði.

Mér finnst þetta afar dapurleg staðreynd, frú forseti, afar dapurleg, enda stendur Ríkisútvarpið hjarta mínu afar nærri. Þar starfaði ég um árabil og þá stofnun þekki ég afskaplega vel af eigin raun, yst sem innst. Eftir að hafa gegnt þar störfum dagskrárgerðarmanns veit ég nokkuð vel hvernig hlutirnir gerast þar innan borðs. Ég vil gjarnan nota tækifærið hér og lýsa því yfir að starfsfólk Ríkisútvarpsins hefur ótrúlegt langlundargeð. Þau eru ófá árin sem starfsfólkið hefur bitið í skjaldarrendur og ákveðið að þreyja þorrann og góuna þrátt fyrir erfiðar aðstæður innan stofnunarinnar, sem oftar en ekki eru erfiðar vegna stefnu stjórnvalda, t.d. vegna flokkspólitískrar íhlutunar stjórnvalda í starfsemi stofnunarinnar og mannaráðningar. Það starfsfólk sem hefur haldið úti þessari merku stofnun öll þessi ár á þakkir skildar fyrir það langlundargeð sem það hefur sýnt.

Frú forseti. Nú er kannski komið að því að þolinmæði þess fólks sem hefur haldið uppi merkjum stofnunarinnar, og skapað henni það traust sem ríkt hefur meðal þjóðarinnar á Ríkisútvarpinu, er þrotið og langlundargeðið þorrið. Því það gerðist í dag á fjölmennum starfsmannafundi í stofnuninni að starfsfólkið samþykkti ályktun um Ríkisútvarpið hf. Ég vil fá hér í inngangi ræðu minnar að lesa þá ályktun. Með leyfi forseta, hljóðar hún svo:

„Starfsmenn Ríkisútvarpsins óska eftir skýrari upplýsingum frá stjórnvöldum um hvernig fyrirtæki stjórnvöld vilji búa til á grunni hins gamla Ríkisútvarps. Bent hefur verið á opin ákvæði í frumvarpinu og mismunandi áherslur ríkisstjórnarflokkanna í málefnum stofnunarinnar til margra ára sem nú virðast hafa endað í óútfylltri ávísun til framtíðar. Við teljum okkur vera í vinnu hjá þjóðinni og landsmenn eigi rétt á að vita hvert stefni með fjölmiðilinn þeirra. Starfsmenn gera alvarlegar athugasemdir við að ekki liggi enn fyrir hve miklu fjármagni nýja félagið á að ráða yfir í upphafi. Starfsmenn furða sig líka á því að ekki virðist hafa verið tekið nokkurt tillit til umsagna sem bárust menntamálanefnd Alþingis. Spyrja má um tilganginn með að setja fólk í vinnu við slíka álitsgjöf. Loks lýsa starfsmenn vanþóknun á því ef áunnin réttindi starfsmanna verða skert. Svo virðist sem sum þeirra verði numin úr gildi bótalaust. Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa um árabil þolað láglaunastefnu og talið að réttindin sem væru eign starfsmanna mundu að einhverju leyti vega upp á móti lágu laununum. Starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa sýnt mikla þolinmæði á löngu og leiðinlegu breytingaskeiði stofnunarinnar.

Það hefur verið von þeirra að betri tímar gætu runnið upp að því loknu. Eitt það versta sem fyrir gæti komið er að óvissuskeiðið haldi áfram næstu árin af því að ný lög hafa ekki verið nógu vel úr garði gerð. Starfsmenn skora á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem duga.“

Frú forseti. Ég hef þá lokið við að lesa ályktun þá sem samþykkt var á starfsmannafundi Ríkisútvarpsins í dag. Hún segir auðvitað miklu meira en mörg orð. Hún segir meira um raunverulegt ástand en ræða hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar sem fylgdi úr hlaði nefndaráliti meiri hlutans fyrir örfáum klukkutímum þar sem hann lét í veðri vaka að allar þessar breytingar væru gerðar með það í huga að Ríkisútvarpið verði áfram sterk stofnun sem eigi að vinna í almannaþágu og vera í eigu þjóðarinnar. En hvað segir starfsfólkið? Starfsfólkið telur sig hafa verið í vinnu hjá þjóðinni og telur að landsmenn eigi rétt á því að fá að vita hvert stefnir með fjölmiðla þeirra. Ræða hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar varpaði ekki ljósi á þá þætti sem starfsmenn Ríkisútvarpsins segja að séu í myrkrinu. Hún gerir það ekki að verkum að óvissu þeirra um stofnunina verði eytt. Hún sýnir okkur óyggjandi að frumvarpið sem hér er gert ráð fyrir að samþykkja verður aldrei að lögum sem duga. Þessi lög duga ekki. Ríkisútvarpið hf. kemur ekki til með að duga þjóðinni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum sett okkur upp á móti því að Ríkisútvarpið sé hlutafélagavætt á sömu forsendum og við höfum sett okkur upp á móti því að aðrar ríkisstofnanir sem sinna almannaþjónustuhlutverki séu hlutafélagavæddar. Okkar sýn á Ríkisútvarpið er sú að það þurfi fyrst og fremst á því að halda að stjórnvöld sýni velvilja sinn í verki með því að greiða úr fjárhagserfiðleikum stofnunarinnar, sem hefur áþreifanlega skort vilja til allt of lengi. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lýst meginsjónarmiðum okkar í þessum efnum á þeim nótum sem kemur fram í frumvarpi okkar um Ríkisútvarp sem lagt hefur verið fram á undanförnum tveimur þingum, þ.e. 131. þingi og svo því sem nú starfar. Við gerum ráð fyrir að í því frumvarpi séu gerðar grundvallarbreytingar á stjórnsýslu stofnunarinnar, tengslum hennar við Alþingi og framkvæmdarvaldið. Í því frumvarpi gerum við líka ákveðnar tillögur um afnotagjöldin, sem gert er ráð fyrir að verði breytt í nefskatt í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra.

Nú er það svo að andstaða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við hlutafélagavæðinguna lýtur fyrst og fremst að þeirri staðreynd að hlutafélagaformið hentar fyrst og fremst fyrirtækjum sem gert er að sýna arðsemi. Sem slíkt er það ágætt form og hefur auðvitað sannað ágæti sitt á hinum almenna markaði þar sem eðlilegt er að gera arðsemiskröfu til fyrirtækja. Hins vegar lýtur almannaþjónusta slíkum reglum að arðsemiskrafa til slíks fyrirtækis er beinlínis út í hött. Hér rekst hvað á annars horn þegar ríkisvaldið gengur fram fyrir skjöldu og vill hlutafélagavæða, ekki bara Ríkisútvarpið heldur Rafmagnsveitur ríkisins, allar matvælarannsóknastofur ríkisins og áfram mætti telja í þessari bylgju sem nú ríður yfir. Nú síðast heyrðum við hugmyndir um að ríkisstjórnin hyggist leita leiða til að hlutafélagavæða Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, hvað sem býr að baki því. Ekki er enn komið fram frumvarp um það held ég.

Hér erum við að tala um ríkisútvarp sem á að lúta allt öðrum lögmálum en fyrirtæki á markaði sem gerð er til arðsemiskrafa. Við erum að tala um einhverja merkustu menningarstofnun í eigu þjóðarinnar. Af því tilefni langar mig til að segja örlitla sögu sem rifjaðist upp fyrir mér í morgun meðan ég gerði mér í hugarlund upp á hverju ég ætti að brydda í ræðu minni. Þegar ég fór að hugsa um Ríkisútvarpið, einhverja merkustu menningarstofnun sem þjóðin á sameiginlega, þá rifjaðist upp fyrir mér saga sem Jón Múli Árnason heitinn sagði mér þegar ég var ung kona að hefja störf í Ríkisútvarpinu. Ég held að með sögunni hafi hann viljað segja mér af hverju Ríkisútvarpið nýtur virðingar og trausts hjá þjóðinni.

Sagan er þannig að Jón Múli var á sínum tíma, þegar hann var ungur maður, sendur til BBC í starfskynningu, til breska ríkisútvarpsins. Hann hafði beðið eftir því í ofvæni að fá að sjá þegar kvöldfréttir BBC yrðu lesnar. Það var stór stund, sagði hann, þegar hann var leiddur inn í sal sem sýndi gegnum gler inn í þularstofu til þulanna sem voru að lesa kvöldfréttir í breska ríkisútvarpinu, í hljóðvarpinu — ég tek það fram að þetta var lestur á fréttum í hljóðvarpinu, ekki í sjónvarpi. Fyrir innan glerið sátu tveir fréttaþulir, karl og kona. Þau voru bæði uppáklædd. Karlinn í svörtum jakkafötum og með þverslaufu í hvítri skyrtu og konan í huggulegri dragt, með hálsfesti, eyrnalokka og vel til höfð. Jón Múli sagði að hann hefði fyrst rekið í rogastans og ekki skilið af hverju fólkið væri svona fínt og uppábúið. Hann velti því fyrir sér hvort hann ætti að þora að spyrja og hann áræddi að gera það. Hann spurði fylgdarmenn sína, sem voru að sýna honum breska ríkisútvarpið, hverju þetta sætti, að fréttaþulirnir væru svona uppábúnir. Jú, var svarið, það að þau skuli hafa sig til áður en þau lesa fréttirnar gerir það að verkum að þau hafa aðra afstöðu til þess sem þau eru að gera, þau sýna meiri virðingu því verkefni sem þeim hefur verið falið. Þau finna að það er sérstakt og það er þess virði að búa sig upp á áður en þau fara og gegna því hlutverki sem þau gegna.

Þessi saga bjó ævinlega með Jóni Múla. Hún hefur búið með mér æ síðan hann sagði mér hana. Ég hugsa oft um þessa sögu þegar ég dáist að starfsfólki Ríkisútvarpsins, ekki síst á fréttastofu Ríkisútvarpsins hljóðvarps, sem mér hefur fundist nánast fram á þennan dag hafa getað varðveitt þennan anda, þennan blæ og þá virðingu sem gerir þjóðinni ljóst að starfsfólkið áttar sig á því hvert hlutverk þess er, að það er í vinnu hjá þjóðinni við að upplýsa þjóðina eða sinna lýðræðislegu hlutverki stofnunarinnar, sem þjóðin á heimtingu á að sé sinnt af alúð, natni og með virðingu.

Um er að ræða eina af merkustu menningarstofnunum þjóðarinnar, sem hefur sinnt lýðræðislegu hlutverki í gegnum árin. Á áttunda áratug hefur Ríkisútvarpið starfað og borið uppi stóran hluta af menningu okkar, menningu sem er sérstök, kannski fyrir það að á bak við hana stendur smáþjóð, lítil þjóð sem nú um þessar mundir er einungis 300 þúsund manns. En á árdögum, sokkabandsárum, Ríkisútvarpsins vorum við enn þá færri.

Ég tel ástæðu til þess, frú forseti, að staldra aðeins lengur við þessar hugrenningar um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins, sem ég tel að verði ógnað ef fram heldur sem horfir. Ef ríkisstjórninni tekst að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið tel ég að menningarlegu hlutverki Ríkisútvarpsins verði ógnað, menningarlegu hlutverki sem það hefur ekki fengið nægilega fjármuni til að sinna sem skyldi hingað til. Þá á ég auðvitað fyrst og fremst við hin seinni ár. Það hefur farið hríðversnandi á hvern hátt þessi stofnun hefur verið sett í fjárhagskreppu. Ég tel, eins og ég sagði í upphafi, að það hafi verið ásetningur þessarar ríkisstjórnar að svelta stofnunina til að auðvelda þær breytingar sem mælt hefur verið fyrir að ýta þessari stofnun út í.

Í apríl árið 2002, 14. apríl, hélt Bandalag íslenskra listamanna málþing um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins í þjóðmenningarhúsi. Það málþing er mér afar minnisstætt. Þar voru flutt fín erindi og m.a. kom forseti breska Blaðamannasambandsins þar fram og flutti erindi um þýðingu þjóðarútvarps í almenningseign og mikilvægi þess í nútímasamfélagi. Svo voru listamenn með framsögu, listamenn eins og Steinunn Sigurðardóttir, Hörður Áskelsson, Þorvaldur Þorsteinsson og Friðrik Þór Friðriksson. Þá fóru fram mjög öflugar pallborðsumræður um málið. Ég hef ekki undir höndum ályktun þessa málþings en mig minnir að þar hafi verið samþykkt ályktun. Þó er ég ekki alveg með það á hreinu. En ég hef undir höndum bækling sem var dreift á þessu málþingi, sem lýsir hugrenningum listamanna, reyndar ýmissa annarra velunnara Ríkisútvarpsins en fyrst og fremst listamanna, í garð Ríkisútvarpsins. Þessum bæklingi er fylgt úr hlaði með orðum fyrrverandi forseta Bandalags íslenskra listamanna, Tinnu Gunnlaugsdóttur, sem segir í aðfaraorðum sínum, með leyfi forseta:

„Með málþingi og menningarhlutverki Ríkisútvarpsins vill stjórn Bandalags íslenskra listamanna stuðla að opinni umræðu um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins í íslensku samfélagi. Skortur á menningarlegri stefnumörkun og skýrri sýn á skyldu stofnunarinnar við menningarlífið í landinu sem og almenning er vandamál sem krefst úrlausnar. Rekstrarhalli hefur með vaxandi þunga sett mark sitt á starfsemi Ríkisútvarpsins með tilheyrandi aðhalds- og sparnaðaraðgerðum, sem gæti þó allt eins heitið aðför að innlendri menningarframleiðslu þar sem það er einmitt þar sem sparnaðurinn kemur harðast niður. Þessi öfugþróun er stórhættuleg menningarlífi og sjálfsvitund þjóðarinnar í öllu tilliti.

Á tímum alþjóðavæðingar er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að þeir sem fara með forræði menningarmála og opinbert fjármagn viðurkenni mikilvægi þess að styrkja innviði menningarlífs. Ríkisútvarpið – sjónvarp er öflugasti menningarmiðill landsins og gegnir því lykilhlutverki á þessu sviði. Það er von og vilji okkar að dagurinn í dag marki upphaf öflugrar sóknar er margir hafa lagt lóð sitt á vogarskálarnar til að svo megi verða.“

Svo mælti Tinna Gunnlaugsdóttir, þáverandi forseti Bandalags íslenskra listamanna, og voru þetta aðfaraorð hennar í bæklingi sem gefinn var út í tilefni málþings sem BÍL hélt, sem kom upp í hugann þegar ég var að undirbúa ræðu mína og las yfir ágætt nefndarálit okkar í minni hluta menntamálanefndar, sem gerir fjárhagsvandræði og fjárhagslega stöðu Ríkisútvarpsins að umtalsefni ásamt fleiri punktum.

Mig langar til að grípa niður í þennan bækling þar sem spyrtir eru saman þessir tveir þættir, þ.e. menningarlegt hlutverk stofnunarinnar og fjármálin. Ég vil spyrja hv. stjórnarliða á hinu háa Alþingi hvort þeir sjái fyrir sér að fjárhagsstaða þessa nýja Ríkisútvarps hf. verði á einhvern hátt önnur heldur en fjárhagsstaðan sem Ríkisútvarpið hefur þurft að eiga við undanfarin ár. Það er ekkert í ummælum hæstv. menntamálaráðherra eða í þessu frumvarpi, í greinargerð þess eða í nokkru því sem hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa sagt um þetta mál, sem gefur okkur von um að fjárhagsstaða Ríkisútvarpsins muni batna eða breytast á einhvern hátt við þetta nýja frumvarp. Þess vegna er eðlilegt að listamenn og þeir sem starfa að menningu og treysta á Ríkisútvarpið sem menningarstofnun hafi beyg í brjósti vegna þessara breytinga.

Í aðalfundarályktun Bandalags íslenskra listamanna frá því í nóvember árið 2001 segir, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna skorar á menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og ríkisvaldið allt að tryggja Ríkisútvarpinu fjármagn og sjálfstæði til að sinna menningarhlutverki sínu í íslensku samfélagi. Um þýðingu öflugs ljósvakamiðils í almenningseign fyrir menningarlíf þjóðar verður ekki deilt svo fremi sem hann veiti landsmönnum aðgang að marktækum spegli á sinni eigin tilveru og samtíð og færir þeim heim í stofu vandaða dagskrárgerð þar sem fjölbreytt íslensk listsköpun er í fyrirrúmi.“

Þetta var bón listamanna frá 2001. Sú bón hljómar enn frá listamönnum því þeir bera eins og ég sagði ótta í brjósti gagnvart þeim breytingum sem hér eru að fara í hönd. Ekki er bara það að háeffunin verði þess valdandi að upplýsingalög komi ekki til með að gilda um Ríkisútvarpið hf. og þar með er aðgangur fólks að stjórnsýslu stofnunarinnar takmarkaður heldur er alveg ljóst að fjárhagsleg spennitreyja hefur ekki verið endurhönnuð. Hún er enn til staðar, verður til staðar og ekki er neinn vilji að því er virðist hjá þeim er véla með fjármagn og fjármuni að þar verði einhver breyting á.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að þessi hlutafélagavæðing lokar þetta félag ekki einungis frá upplýsingalögum heldur lokar hún það líka frá stjórnsýslulögum, frá lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og lögunum um umboðsmann Alþingis. Ég hef ekki enn heyrt rök stjórnarliða í þessum sal fyrir því að það sé allt í lagi að hlutirnir séu hafðir með þessum hætti. Enn þá hafa engir svör komið við þeim spurningum sem við í minni hlutanum í menntamálanefnd höfum lagt fram til stjórnarliða og stjórnarmeirihlutans í þessum efnum. Menn þegja þunnu hljóði og svo virðist vera að fara eigi út í þessar breytingar nánast án rökstuðnings og án þess að gera nokkra grein fyrir því af hverju stjórnarliðar og ríkisstjórnarmeirihlutinn telur svona nauðsynlegt að loka jafnmerka stofnun, sem hefur jafnmikilvægu hlutverki að gegna, af frá þessum lögum.

Nú skulum við aðeins skoða hvað það er sem gerir það að verkum að upplýsingalög þurfa að gilda og eiga að gilda um opinbera starfsemi. Í morgun vorum við í allsherjarnefnd að fjalla um þau áform ríkisstjórnarinnar að breyta þremur opinberum rannsóknastofum sem sinna opinberu eftirliti og rannsóknum á matvælum í hlutafélög. Ljóst er að með því að loka rannsóknir af því tagi frá upplýsingalögum skapast ákveðin hætta vegna þess að þjóðinni stafar hætta af því að upp geta komið sýkingar í matvælum sem ekki verði hægt að rannsaka fyrir opnum tjöldum og birtar allar rannsóknarniðurstöður. Það skiptir verulegu máli fyrir heilsufar og hag þjóðarinnar að allar upplýsingar sem varða matvælaeftirlit, bráðaeftirlit og öryggisþjónustu séu uppi á borðinu. Það er kannski ekki erfitt fyrir fólk að átta sig á því og skilja það.

En þá spyr maður: Hvers vegna er svo mikilvægt að upplýsingalög gildi um ríkisútvarp? Jú, það er mikilvægt vegna þess að Ríkisútvarpið, sem er og á að vera útvarp í almannaþágu, á að sinna lýðræðislegu hlutverki. Það á að sjá til þess að lýðræðisleg umræða fari fram í samfélaginu og þar eigi öll sjónarmið heima og allar skoðanir eigi að fá notið sín, t.d. og ekki síst pólitískar skoðanir. Ef einhverjar ávirðingar verða, segjum á ríkjandi stjórnvöld, að þau beiti áhrifum sínum inni í stofnuninni, þá á að vera hægt á grundvelli upplýsingalaga að leita þar niðurstöðu, leita þar upplýsinga. Segjum að ráðning starfsmanna, yfirmanna á stofnuninni, hafi gefið tilefni til að hlutirnir væru rannsakaðir, ekki hafi allt verið með felldu við ráðningu eða einhverja slíka stjórnsýslu, þá eiga upplýsingalög að tryggja að almenningur hafi aðgang og geti skyggnst á bak við tjöldin og fundið það út á hvern hátt stjórnvöld hafi verið að sinna hlutverki sínu eða jafnvel að misbeita hlutverki sínu og misnota vald sitt ef uppi eru einhvers konar ávirðingar um slíkt. Ég tel það vera mikilvægt að upplýsingalög gildi um stofnun sem hefur lýðræðislegu hlutverki að gegna í samfélagi okkar í dag þar sem skiptir verulegu máli að ekki sé beitt valdi við umfjöllun um, segjum pólitískt mál, dægurmál, fréttamál eða hvaða mál svo sem eru önnur. Ég tel því að lífsnauðsynlegt sé fyrir okkur að upplýsingalög heyri til þessari stofnun en á sama hátt finnst mér það allt í lagi og af hinu góða að úti á akrinum starfi aðrir fjölmiðlar sem ekki er svo háttað um, að þar starfi fjölmiðlar sem hafi möguleika á að vera með minni eða umfangsminni skyldur, enda allt aðrir hagsmunir í húfi og önnur sjónarmið sem ríkja hjá einkareknum fjölmiðlum en hinum opinberu. Mér finnst það vera til eftirbreytni fyrir okkur að skoða hvernig þær hafa farið að, systurstofnanir Ríkisútvarpsins í Skandinavíu. Noregur hefur oft verið nefndur í þessu sambandi þar sem ríkisútvarpinu hefur nýverið verið breytt í hlutafélag, en þar gilda upplýsingalög. Rökstuðningur norsku ráðherranna fyrir því er með þeim hætti að það væri holl lesning fyrir ríkisstjórnina og ráðherrana á Íslandi að kynna sér sjónarmið starfsbræðra þeirra í Skandinavíu, t.d. í Noregi.

Hvað með opinbera starfsmenn? Þeir hafa samkvæmt lögum ákveðnum skyldum að gegna, hafa vissulega ákveðin réttindi, sem svo sem deilt er um á hinum almenna vinnumarkaði hvort séu of mikil eða of eitthvað, þetta fólk hefur líka skyldum að gegna. Í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru taldar upp í einum sex, sjö greinum allar þær skyldur sem á opinberum starfsmönnum hvíla. Það eru sannarlega skyldur sem skiljanlegt er að þurfi að hvíla á fólki sem annast opinbera stjórnsýslu, sem annast opinber störf, störf í þágu þjóðar, störf í þágu almannaheilla. Þær skyldur eru vel rökstuddar, bæði í lagatextanum og einnig lögskýringargögnum eins og greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum á sínum tíma og ég sé ekki annað en þar sé verið að gera grein fyrir því á hvern hátt opinberir starfsmenn bera annars konar skyldur en starfsmenn sem starfa hjá fyrirtækjum á einkamarkaði.

Allar þessar skyldur koma til með að falla niður eða verða ekki lengur virkar hjá því starfsfólki sem kemur til með að starfa hjá Ríkisútvarpinu hf. Þar með missa þeir starfsmenn sem fram til dagsins í dag hafa verið sér mjög meðvitaðir um þessar skyldur ákveðin tengsl við umbjóðendur sína, þ.e. þjóðina, almenning í landinu. Skyldurnar markast auðvitað allar af því að verið sé að sinna hlutverki sem er til heilla fyrir almenning. Ljóst er að staða starfsmanna verður mjög mikið breytt með þessu nýja frumvarpi.

Við í menntamálanefnd höfum fengið umsagnir sem skýra á mjög greinargóðan hátt sjónarmið stéttarfélaganna eins og BHM og BSRB hvaða áhyggjur þessara stéttarfélaga eru, þegar skoðuð eru réttindi og skyldur starfsmannanna og þær breytingar sem fyrirsjáanlegar verða í þeim efnum við þessa breytingu.

Í athugasemdum sem gerðar eru í umsögn BSRB og BHM til menntamálanefndar er sagt frá því á hvern hátt þessi stéttarfélög gagnrýna aðferðina sem beitt er gagnvart starfsmönnum þegar stofnunum ríkisins er breytt í hlutafélög og þar eru menn að tala almennt. Þetta er ekki fyrsta atlagan sem núverandi ríkisstjórn gerir að ríkisstofnun í hlutafélagavæðingu sinni og segja má að í öllum tilfellum og það er ljóst að í öllum tilfellum þegar ríkisstofnun hefur verið breytt í hlutafélag hafa starfsmenn borið þar skarðan hlut frá borði. Réttindi hafa verið tekin af starfsmönnum. Þetta á við um háeffun Pósts og síma og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, sölu ríkisbankanna og fleiri annarra fyrirtækja og ríkisstofnana sem hafa verið háeffuð. Þetta er staðfest og frá þessu er sagt í mjög yfirgripsmikilli og ítarlegri umsögn BHM og BSRB.

Þau gera einmitt að umtalsefni þau lög sem ég vitnaði til áðan, lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, og segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Það er auðvitað óþolandi að það sé gert aftur og aftur, við þessi skilyrði“ — þ.e. þegar ríkisstofnunum er breytt í hlutafélög — „að setja sérstök lög sem taka almennu lögin um ríkisstarfsmenn úr sambandi þegar á þau reynir. Ef það er mat þingmanna að réttindi ríkisstarfsmanna séu þannig að þeim þurfi að breyta á auðvitað að gera það með því að breyta almennu lögunum þannig að þessi „ómögulega“ staða komi ekki upp aftur og aftur. Þá þurfa ríkisstarfsmenn heldur ekki að vera með væntingar um starfsöryggi sem ekki stenst þegar á reynir. Óréttlætið birtist líka í því að þetta gerist oft en ekki alltaf. Svo virðist vera að þegar breytingarnar snerta litlar stofnanir með fáa starfsmenn þá séu almennu lögin látin gilda en þegar sambærilegar breytingar ná til stærri stofnana eru almennu lögin tekin úr sambandi. Þetta er afleit lagaframkvæmd sem ber merki um hentistefnu og óhreinskilni.“

Þetta segir í umsögn BSRB og BHM. Hentistefna og óhreinskilni eru hugtök sem eiga afskaplega vel við um framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum, framgöngu þeirra menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hafa alið þessa ósk í brjósti og hafa nú loksins fengið Framsóknarflokkinn með á hrossið og ríður nú Framsóknarflokkurinn fyrir framan Sjálfstæðisflokkinn í þessum málum og hefur verið útskýrt af hv. varaformanni menntamálanefndar hvernig Framsóknarflokkurinn hefur breytt afstöðu sinni í þessum málum. Ég segi, það er mjög miður að Framsóknarflokkurinn skuli ekki enn þá líta á það sem hlutverk sitt að sinna eftirlitshlutverki og gæta að réttindum starfsfólks hins opinbera, starfsmanna ríkisins sem hafa þessi orð sem ég rétt áðan las um þá gjörninga sem hér eru á ferðinni.

Það er ekki bara í þessu máli um Ríkisútvarpið hf. Það eru sambærilegar umsagnir á borðum þingmanna vegna háeffunarinnar á Rarik, vegna háeffunarinnar á Matvælarannsóknum hf. og háeffunar þeirra stofnana sem þegar hafa farið í gegnum Alþingi. Það sem hefur gerst á Alþingi þegar þessar umsagnir eru til umfjöllunar og þegar þingmenn lesa þær umsagnir er að stjórnarliðar daufheyrast. Það er eins og það hlaupi einhverjir aðskotahlutir í eyrun á stjórnarþingmönnunum og þeir heyra ekki og sjá ekki þær umkvartanir sem eru þó bornar fram með mjög veigamiklum rökum.

BSRB og BHM spyrja í umsögn sinni hver tilgangurinn sé með því að stofna hlutafélagið um Ríkisútvarpið. Þau spyrja hvort það sé beinlínis gert til að breyta réttarstöðu starfsmanna Ríkisútvarpsins. Þau spyrja hvort það sé beinlínis gert til að Ríkisútvarpið hf. þurfi ekki að fylgja þeim lágmarkskröfum gagnvart starfsmönnum sínum sem eru gerðar til opinberra stofnana innan stjórnsýslunnar. Það er eðlilegt að spurt sé og eðlilegt að þjóðin fái að vita á hvern hátt stjórnarliðar, hv. þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sjá fyrir sér allar þessar breytingar sem eru núna yfirvofandi og hvernig ætlast þessir stjórnmálaflokkar síðan til að fá áfram einhver atkvæði frá kjósendum þegar búið er að höggva svo í skörð þeirra starfsmanna sem hafa verið að sinna lagalegu hlutverki fyrir þjóðina í þeim opinberu stofnunum sem hafa starfað í samfélagi okkar eftir lögum.

BRSB og BHM hafa bent á að það jaðri við að þetta háeffunaræði ríkisstjórnarinnar jafnist á við kennitöluskipti í atvinnurekstri þar sem vinnuveitendur eru að reyna að komast hjá því að standa við samninga við starfsmenn sína. Ég verð að segja að þetta eru afar alvarleg orð, þetta eru þung orð sem látin eru falla í garð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi en þessir hv. þingmenn hafa sannarlega unnið sér inn fyrir þessum orðum, fyrir þessum hugrenningum starfsmannafélaga ríkisins.

Svo er það náttúrlega staðfest í umsögn BSRB og BHM að arðsemissjónarmið eru höfð að leiðarljósi í hlutafélögum en markmiðið með rekstri Ríkisútvarpsins hefur aldrei snúist um arðsemissjónarmið, það hefur fyrst og fremst verið að veita þjónustu, sinna menningarskyldum og öryggishlutverki en ekki að skapa eigendum sínum arð.

Þegar við reyndum að ræða þessi mál í menntamálanefnd, sem gafst eiginlega enginn tími til því, eins og kom fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar, gaf hv. formaður nefndarinnar ekki mikinn tíma til þess að ræða við stjórnarandstöðuþingmenn um málið og það var enginn vilji hjá stjórnarliðum að kanna neina möguleika á einhverjum snertiflötum. Gengið var út frá því sem vísu að ekki yrði um neina sátt að ræða varðandi þetta mál og stjórnarliðar höfðu engan áhuga á að verða fyrir áhrifum frá sjónarmiðum eða skoðunum minni hlutans í nefndinni. Það var því lítið rætt.

Þó minnist ég þess að við reyndum að ræða almannaþjónustuhlutverkið. Við reyndum að fá það upp á yfirborðið á hvern hátt stjórnarliðar sæju hina nýju stofnun höndla þetta almannaþjónustuhlutverk. Ég spurði höfunda frumvarpsins hvernig þeir sæju fyrir sér þessa nýju stofnun. Mér varð það á orði að mér þætti þetta frumvarp frekar dauflegt og uppfullt af lagahugtökum og það bæri þess merki að það hefði verið samið af lögfræðingum en ekki neinum andans jöfrum, ég man nú ekki hvort ég orðaði það þannig en mig minnir að höfundar frumvarpsins hafi ekki verið ánægðir með einkunnina sem ég gaf frumvarpinu. En ég bað þá að lýsa því fyrir okkur á hvern hátt þeir sæju þessa stofnun fyrir sér þegar hún væri tekin til starfa, hvort þeir fyndu eitthvert lífrænt samband við það sem þeir sæju fyrir sér.

Það voru þeir Sigurbjörn Magnússon og Jón Sveinsson sem sömdu frumvarpið, eflaust góðir og gegnir lögmenn en kannski ekki að sama skapi neinar jöfrar í samningu texta, það er ekkert gullaldarmál á þessu frumvarpi. Ég er að grauta hér í punktunum mínum, frú forseti, og sé að ég hef skrifað niður spurningu til þessara höfunda frumvarpsins um að mig fýsi að vita eitthvað um tengsl þessa þurra lagatexta við hina lífrænu eða dýnamísku stofnun, Ríkisútvarpið. Ég spurði þá hvort þeir sæju fyrir sér, vegna 4. gr. fyrst og fremst, að Ríkisútvarpið hætti að reka þann hluta sem kannski má segja að sé í samkeppnisrekstri, þá er ég að tala um t.d. ameríska afþreyingarþætti í sjónvarpi, ég nefndi Rás 2, erlent leikið efni almennt og einhverja tónlistarþætti, og ég spurði hvar þeir fyndu þessum hlutum stað í sýn sinni til framtíðar og hvernig þetta væri í þeirra huga.

Það kom alveg skýrt fram í svarinu sem ég fékk frá Sigurbirni Magnússyni að hann sá fyrir sér varðandi 4. gr. frumvarpsins, sem fjallar um það hvernig Ríkisútvarpinu hf. er heimilt að standa að annarri starfsemi en kveðið er á um í 3. gr. sem tengist starfsemi félagsins á sviði dagskrárgerðar eða til nýtingar á tæknibúnaði þess, sérþekkingu starfsmanna þess og aðstöðu þess að öðru leyti, að ákveðnir þættir sem væru í samkeppnisrekstri í dag yrðu settir í dótturfélög og það væri alveg möguleiki á því að þessi dótturfélög yrðu að hluta til í eigu einhverra annarra en Ríkisútvarpsins. Þegar farið var út í að ræða það nánar hvort hugsanlegt væri að þessi dótturfélög yrðu síðan öll seld þá varð fátt um svör því að þá sáu höfundar frumvarpsins auðvitað að þar með voru þeir búnir að tálga utan af almannaþjónustuhlutverkinu stóran hluta af dýnamíkinni sem er í gangi innan stofnunarinnar í dag og að eftir sæti kannski sá hluti sem sjálfstæðismenn hefur alltaf dreymt um að sjá undir hatti Ríkisútvarpsins en ekkert annað, og það eru svona til málamynda einhverjar fréttir og veðurfregnir, tilkynningar til sjófarenda, tilkynningarskyldan og svo kannski einhverjir leiðinlegir menningarþættir sem fáir nenna að hlusta á.

Í alvöru talað, herra forseti, þá leið mér eins og að Sjálfstæðisflokknum væri að takast ætlunarverk sitt, að murka endanlega lífið úr þessari öflugu menningarstofnun sem borið hefur merki íslenskrar þjóðmenningar hærra en flestar aðrar menningarstofnanir í landinu, á þeirri stundu þegar höfundar frumvarpsins voru að lýsa sinni sýn á þessari stofnun í náinni framtíð, og að búið væri að breyta henni í einhverja þurra súlu sem skipti í raun og veru engu máli öðru en því að tilkynna mætti þjóðinni um það ef jarðskjálftar eða eldgos yrðu.

Ég satt að segja óttast enn í dag og óttast það kannski meira í dag en fyrir örfáum vikum síðan að þetta verði raunin og það sé nákvæmlega þetta sem Framsóknarflokkurinn sé búinn að láta leiða sig inn í, þ.e. að nú verði bara búin til dótturfélög úr öllu þessu skemmtilega sem heyrt getur undir samkeppnisrekstur, þetta verður allt tálgað utan af og eftir standa tilkynningar til sjófarenda. Er Framsóknarflokkurinn þá glaður? Er þetta sú sýn sem menn í Framsóknarflokknum hafa á framtíðarhlutverk Ríkisútvarpsins? Þetta samrýmist hvorki minni sýn né okkar sem höfum starfað í minni hluta menntamálanefndar. Við bíðum þess auðvitað með óþreyju að reyna helst að hrinda þessu máli og eins og tillaga okkar í nefndarálitinu gefur til kynna viljum við að málinu verði vísað frá, svo vanbúið er það og meingallað.

Eitt af því sem ég hef leyft mér að gagnrýna í þessu frumvarpi líka eru hlutir eins og þessi ímyndaði sveigjanleiki sem á að koma með hlutafélagaforminu. Eitt meginstefið sem hljómar hjá stjórnarliðum þegar þeir dásama hlutafélagaformið er þessi ótrúlegi sveigjanleiki sem menn fá við það að breyta ríkisstofnun í hlutafélag. Þegar farið er að spyrja út í það hver sá sveigjanleiki sé þá er hann fyrst og síðast fólginn í því að stjórnandinn, sem á að hafa mikla ábyrgð, vera stór og sterkur og geta ráðið sínum ráðum án íhlutunar, fær heimild til þess að reka og ráða fólk að eigin vild. Það er sveigjanleikinn. Hann er aðallega fólginn í því að reka fólk eftir eigin geðþótta stjórnanda. Ég sé ekki nein önnur rök, ég sé ekki neitt annað sem þessi fíni sveigjanleiki á að færa þessum stjórnanda, þessum sterka stjórnanda sem sjálfstæðismenn sérstaklega leggja mikla áherslu á að hafi mikil völd.

Ég minnist þess, herra forseti, í þessu sambandi þegar við vorum að fjalla um annað mál í menntamálanefnd, sem ég mundi reyndar miklu frekar vilja standa hér og ræða, mál sem unnið var í góðri sátt í nefndinni, um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, þá var einmitt verið að ræða hugmyndir um stjórnendur og það kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra, þegar talað var fyrir því máli, að hún taldi mjög mikilvægt að stjórnandinn væri ábyrgur í einu og öllu og að hann hefði mikil völd. Hún játaði að hann hefði það samkvæmt frumvarpinu en hún taldi að til að nýta til fulls þá kosti sem sameining þeirra stofnana sem mynda eiga Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefði, þyrfti sá stjórnandi að vera afar valdamikill og hafa frelsi og möguleika á því að nýta sér sveigjanleikann í þessu kerfi öllu. Það sama kemur fram í þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið varðandi útvarpsstjórann.

Þegar við skoðuðum málin í menntamálanefnd varðandi Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum var auðvitað ljóst að ákveðinn mekanismi var til staðar í þeirri stofnun, þ.e. þeim stofnunum sem eiga að mynda þessa nýju stofnun, sem gerði það að verkum að forstjóri eða forstöðumaður hafði mjög skapandi samstarf, formlegt og opið samstarf og góða samræðu við alla starfsmenn um allar meiri háttar ákvarðanir. Þannig er það í litlu stofnununum sem eiga að mynda þessa nýju fræðastofnun og þannig vilja allir starfsmenn halda áfram að hafa hlutina, í því sama formi, þegar nýja stofnunin tekur við hlutverki hinna smærri.

Ég minnist þess að við 1. umr. spurði ég hæstv. menntamálaráðherra einmitt út í það hvort hún sæi ekki fyrir sér að setja mætti inn í þetta frumvarp eitthvað sem útlistaði deildaskiptingu eða einhvers konar innra form á skipulagi innan stofnunarinnar þó ekki væri nema til að tryggja einhvers konar aðkomu starfsmanna að rekstri stofnunarinnar og skipulagi hennar þannig að þeir gætu haft áhrif á stjórnarhætti og niðurstöður í ýmsum málum. Á þann hátt taldi ég að kunnátta starfsmanna mundi nýtast en auðvitað er það fólk sem starfar innan þessarar stofnunar eins og allra annarra búið að afla sér reynslu sem ég tel dýrmæta. Mér finnst ekki verra að í opinberum stofnunum sem eiga að lúta opinberum lögum sé það tryggt og fyrirskrifað í lagatexta að starfsmenn beri ábyrgð og hafi aðkomu að meiri háttar ákvörðunum. Að því leyti til hef ég verið málsvari þess að einhvers konar deildaskipting innan stofnunarinnar og innra skipulag, sem ég tel eðlilegt að sé þar til staðar, sé á einhvern hátt fyrirskrifað í þessu frumvarpi eða í lögskýringargögnum við það. En það er ekki vilji fyrir því hjá meiri hlutanum að fara þannig að málum heldur mikið fjallað um það að forstöðumaður þurfi að hafa svigrúm til þess að taka ákvarðanir og þess vegna sé eðlilegt að viðkomandi hafi mikið vald.

Það vakti athygli mína, herra forseti, þegar hér var fjallað um embætti útvarpsstjóra í fyrirspurnatíma á Alþingi fyrir nokkru síðan. Fyrirspyrjandinn var hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og fjallaði um ráðningu útvarpsstjóra sem fór fram fyrir skemmstu. Hann vildi ræða við hæstv. menntamálaráðherra um formið á þeirri ráðningu, þ.e. að í júnímánuði síðasta sumar þegar auglýst var eftir útvarpsstjóra þá vakti það athygli þingmannsins að í auglýsingunni voru engar kröfur gerðar til hins væntanlega útvarpsstjóra um menntun eða starfsreynslu. Þingmaður gerði að umtalsefni að í gildandi útvarpslögum væri engin ákvæði að finna um slíkt, menntun eða starfsreynslu í þetta starf. En síðan gerði hann þingheimi grein fyrir að um ráðningu opinberra starfsmanna giltu samt sérstök lög, þau lög sem ég vitnaði til áðan, en það eru lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70 frá 1996. Á grundvelli þeirra laga hafa verið settar reglur af fjármálaráðherra. Þær reglur eru nr. 464 og eru settar 1996 og þær fjalla um auglýsingar á lausum störfum í þágu hins opinbera. Í 4. gr. í þeim reglum er kveðið á um að í auglýsingu skuli vera upplýsingar um hvaða menntunar- og/eða hæfniskröfur séu gerðar til starfsmanns í opinberri þjónustu þannig að fjármálaráðuneytið sem setur reglurnar á grundvelli laganna fyrir hönd hins opinbera gerir ráð fyrir að veittar séu upplýsingar um þessi atriði þegar óskað er eftir fólki í stöður.

Kristinn H. Gunnarsson benti á í þessum fyrirspurnatíma að umboðsmaður Alþingis hefði bent á að það væri óskráð meginregla stjórnsýsluréttar að ákvörðun um svona ráðningu þurfi að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og þar er talið að til málefnalegra sjónarmiða heyri menntun sem beri að skoða, starfsreynsla, hæfni og eftir atvikum þeir eiginleikar sem geta skipt máli varðandi starfið. Þar að auki munu vera í starfsmannastefnu Stjórnarráðsins ákvæði um að vanda skuli til mats á umsóknum. Það skuli leita til sérfræðinga við mat á þeim sé þess talin þörf. Áður en starf er auglýst skuli liggja fyrir skilgreining á starfinu og hæfniskröfur mótaðar á grundvelli slíkrar skilgreiningar.

Þetta er auðvitað í takt við það sem hefur verið að gerast í löndunum í kringum okkur og er verið að reyna eftir veikum mætti, að því manni hefur sýnst, að innleiða hér í lög, og ég minnist laga um jafnan rétt kvenna og karla. En þar er gerð sú krafa þegar ráðið er í störf að þar sé rökstuðningur sem verði aðgengilegur þeim sem hlut eiga að máli og óskað eftir að sjá rökstuðninginn að lokinni ráðningunni. Við höfum dæmi um það í nýgengnum dómum að þegar ráðið hefur verið í störf — við getum nefnt hæstaréttardómara, við getum nefnt jafnréttisstýru eða forstöðumann jafnréttisstofu — þá sé til staðar rökstuðningur sem þeir umsækjendur sem ekki fá starfið eigi aðgang að og geti skoðað eftir á. Það er sem sagt gert ráð fyrir að sá rökstuðningur sé fullkomlega málefnalegur, byggi á málefnalegum forsendum og til að það megi verða þarf að greina starfið áður en það er auglýst til að þessi rökstuðningur verði að einhverju viti.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vildi síðan ræða þetta við hæstv. menntamálaráðherra og gerði athugasemdir við að enginn af þeim 23 sem sóttu um þetta starf útvarpsstjóra í sumar sem leið, var boðaður í viðtal meðan á umsóknarfrestinum stóð. Það vakti einnig athygli þingmannsins að aðeins einn umsækjandi fékk viðtal við hæstv. ráðherra og það var að eigin beiðni, og sá aðili var síðan ráðinn sem útvarpsstjóri. Þegar hæstv. menntamálaráðherra fór síðan að svara fyrir um það á hvern hátt hún hefði haft málefnalegar ástæður, eða á hvern hátt hún rökstyddi þessa ráðningu, þá hafði hún það eitt að segja að vegna sérstaks eðlis embættis útvarpsstjóra teldi hún ekki rétt að gera sérstakar kröfur til umsækjenda um tiltekna menntun eða starfsreynslu, það væri nauðsynlegt til þess að hún hefði úr fjölbreyttum hópi umsækjenda að velja. Þegar hæstv. ráðherra var spurð út í þessa ráðningu sagði hún í ræðu sinni sem hún flutti fyrir um það bil þremur vikum, á 61. fundi þessa löggjafarþings, með leyfi forseta:

„Þegar rætt er um skipun útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins er mikilvægt að hafa í huga að ekki er skýrt mælt fyrir um það í lögum hvað beri að leggja til grundvallar þegar tekin er afstaða til þess hver skuli hljóta skipun í embætti. Því var það í meginatriðum í mínu valdi að ákveða á hvaða sjónarmiðum ég byggði ákvörðun mína um skipun í embætti, en mér bar og ber ávallt við slíkar aðstæður, eins og reyndar við töku stjórnsýsluákvarðana almennt, að tryggja að ákvörðunin byggði á málefnalegum sjónarmiðum. Þá leiðir einnig af rannsóknarreglu stjórnsýslulaganna að ég varð að sjá til þess að nægar upplýsingar lægju fyrir um þau atriði sem þýðingu áttu að hafa í ljósi þeirra sjónarmiða sem mat mitt tók mið af og ákvörðun mín byggði á.“

Hver voru svo hin málefnalegu sjónarmið? Jú. Þau tíundaði hæstv. ráðherra í ræðu sinni og segir síðan, með leyfi forseta:

„Verðandi útvarpsstjóri varð að hafa skýra sýn á hlutverk Ríkisútvarpsins og sú sýn þurfti vitanlega að taka mið af hlutverki stofnunarinnar eins og það er skilgreint í lögum, þá ekki síst af hlutverki hennar í menningarlegu tilliti. Jafnframt þurfti verðandi útvarpsstjóri að mínu mati að hafa skýra sýn á það með hvaða hætti hann hygðist leiða starf stofnunarinnar, koma á þeim umbótum í starfseminni sem æskilegar teldust og hvernig þeim markmiðum sem starfsemin lyti og ætti að lúta yrði náð.“

Herra forseti. Hér kemur í ljós að hæstv. menntamálaráðherra hafði það að leiðarljósi við ráðningu nýs útvarpsstjóra að hann teldist hæfur til að koma á þeim umbótum í starfseminni sem hún teldi æskilegt að yrðu gerðar og þær umbætur er að finna í þessu frumvarpi sem við ræðum hér nú. Það er alveg ljóst að það var einungis einn umsækjandi af þessum 23 sem fékk að láta þessa sýn sem hver umsækjandi bar í brjósti varðandi framtíð Ríkisútvarpsins í ljós við ráðherrann. Það var einungis einum umsækjanda gert það kleift.

Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp hér, herra forseti, er sú að ég tel að hér sé um að ræða svo veigamikið starf og svo veigamikið hlutverk ráðherrans. Hvað varðar samband menntamálaráðherra, hver sem hann er á hverjum tíma, og útvarpsstjóra þá verður að segjast eins og er að hér er ekki gætt þess hlutleysis sem ég teldi æskilegt og þeirrar hlutlægni sem ég teldi eðlilegt að væri til staðar þegar ráðið er í svona veigamikið starf. Starf sem fer inn í rætur þjóðmenningar okkar, í rætur hins lýðræðislega stjórnskipulags sem við höfum hér á landi. Ég hefði því haldið að í frumvarpi sem lýtur að Ríkisútvarpinu og því hvernig þar eigi að höndla með mál, þar þyrfti að vera sérstaklega fyrirskrifað á hvern hátt það sé tryggt að engri pólitík sé komið að þegar ráðið er í störf á borð við störf ríkisútvarpsstjóra.

Þegar við vorum að fjalla um málið í menntamálanefnd fengum við upplýsingar um hvernig Frakkar fara að því að ráða sinn ríkisútvarpsstjóra. Það er afar athyglisvert. Ég leyfi mér að hleypa hér að endursögn sem ég hef hér í punktum mínum frá fundi þar sem við vorum upplýst um þetta, hvernig Frakkar fara að því að ráða útvarpsstjóra. Mér skilst að það sé sömuleiðis vandað til, þó ekki sé kannski með alveg sama hætti þegar fréttamenn eru ráðnir, til þess að tryggja að ekki sé um nein pólitísk tengsl að ræða. Ráðningarferlið í Frakklandi er þannig, en það er ekki langt síðan að þar var ráðinn sjónvarpsstjóri og um starfið sóttu um 30 manns, að skipað var sérstakt ráð vísra manna til að fara yfir allar umsóknir sem höfðu borist og forseti Frakklands, það var nú hvorki meira né minna en forseti Frakklands, sem kom að því að skipa þetta ráð til að tryggja eins mikinn trúverðugleika og mögulegt væri. Ráðið valdi síðan úr hópi þessara 30 fimm einstaklinga sem töldust hæfir eftir að farið hafði verið ítarlega yfir hvaða hæfniskröfur væri verið að gera. Þær voru að sjálfsögðu ljósar áður en auglýst var. Þessir fimm aðilar voru síðan allir kallaðir til viðtals og hittu þetta ráð. Eftir þann fund var óskað eftir greinargerð frá þeim um framtíðarsýn þeirra, hvernig þeir sæju fyrir sér að þeir mundu sinna starfi sínu og á hvern hátt ríkissjónvarpsstöðin mundi þroskast undir þeirra umsjá á næsta tiltekna fimm eða sjö ára tímabili. Til að skila þessari greinargerð fengu þeir ákveðinn undirbúningstíma og aðstoð sérfróðra aðila. Þeir máttu leita sér aðstoðar við að útbúa greinargerðina, sem átti að lýsa sýn þeirra til starfsins.

Eftir að umræddar greinargerðir lágu fyrir voru þær settar á netið. Þær voru öllum ljósar sem vildu kynna sér þær. Eftir að ráðið hafði kynnt sér greinargerðir þessara fimm umsækjenda var birt rökstudd niðurstaða ráðsins fyrir ráðningunni. Hvers vegna fara Frakkar svona að? Hvers vegna telja þeir nauðsynlegt að hafa reglur af þessu tagi um ráðningu sjónvarpsstjóra á ríkissjónvarpsstöðinni í Frakklandi? Rökstuðningurinn er sá að þetta er valdamikill maður. Það skiptir máli að vel sé til vandað og algerlega sé tryggt og þjóðin geti verið viss um að sá hæfasti hafi verið ráðinn og það séu málefnalegar forsendur fyrir öllum þáttum ráðningarferlisins fyrir niðurstöðu ráðsins.

Mér finnst nú eitt og annað sem við megum læra af Frökkum og ég geri ráð fyrir að þetta sé með svipuðu sniði hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar. Að fólk átti sig á að þegar ráðið er í valdamikil störf þar sem um er að ræða þjónustu við hið opinbera þá skipti verulegu máli að faglega sé á málum haldið að hægt verði að skapa sátt um niðurstöðuna og farin sé örugglega besta leið sem kostur er á.

Ég tel afar mikilvægt að um Ríkisútvarpið verði sköpuð þannig umgjörð að hún tryggi ráðningu sem er málefnaleg og fagleg. Því miður hefur það ekki verið hingað til. Pólitísk íhlutun og pólitísk ítök ríkisstjórnar eða meiri hluta á Alþingi hafa verið óviðunandi í gegnum tíðina og sérstaklega áberandi kannski nú hin seinni árin. Það er ekkert í því frumvarpi sem við fjöllum hér um sem bendir til að þessum pólitísku ítökum eigi að linna. Ekkert því miður. Auðvitað vekur það manni ugg og veldur tortryggni í garð alls málsins og gerir það að verkum að við sem höfum andmælt því höfum talið fram margar forsendur og margar ólíkar ástæður fyrir því hvers vegna við getum ekki fallist á þessa aðferð og þessa leið ríkisstjórnarinnar. Þetta er ein af þeim ástæðum.

Nú er það svo að við sem förum hér með löggjafarvaldið eigum að vera starfi okkar vaxin að því leytinu til að við eigum að skoða alla þætti mála eins vel og mögulegt er og til þess er okkur gefinn tími í nefndum þingsins, til að fara yfir alla þessa þætti. En þetta er einn af þeim þáttum sem ekki var heimilað, eða ekki gefinn tími til að ræða í nefndinni milli stjórnarliða og stjórnarandstæðinga og er það mjög miður. Það gerir kannski líka að verkum að umræðan um málið eftir á verður ekki eins málefnaleg og hefði getað verið ef við hefðum getað viðrað rök okkar og tekist á um þau í nefndinni.

Af því að ég er að fjalla hér um ráðningarmál þá kemur það fram í þskj. 333 á þessu þingi, þar sem menntamálaráðherra svarar fyrirspurn hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar um mannaráðningar hjá Ríkisútvarpinu, að Ríkisútvarpið hefur ekki farið að lögum varðandi ráðningar. Samkvæmt lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna á að auglýsa laus störf við ríkisstofnanir en það er ljóst af þessu svari að Ríkisútvarpið hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni af hvaða ástæðum sem það nú er. Það er talið upp í þessu svari að frá árinu 1997 hafi nánast allir dagskrárgerðarmenn í sjónvarpi verið ráðnir sem verktakar og starfað sem verktakar og ekki er auglýst eftir fólki í slík störf. Í svarinu segir einnig að fimm starfsmenn hafi verið ráðnir sem launþegar án undangenginna auglýsinga.

Að mínu mati þarf að skoða mun betur og með mun yfirgripsmeiri hætti á hvern hátt ráðið er í stöður hjá þeirri stofnun sem við erum að fjalla um og ég held að það sé mat okkar margra sem höfum fjallað um þessi mál á vettvangi menntamálanefndar.

Hæstv. menntamálaráðherra talar fjálglega um það, bæði í viðtölum og hér á Alþingi, að eitt af hennar meginmarkmiðum með því að leggja fram þetta frumvarp og breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag sé að efla Ríkisútvarpið, styrkja stöðu þess, og hún talar um veigamikið og fjölþætt hlutverk þess. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þessar yfirlýsingar ráðherra oft hafa fremur holan hljóm og hugur ekki fylgja máli. Ég sé í hendi mér að sú stofnun sem hér er að verða til er ekki þannig úr garði gerð, eða það er ekki að sjá af frumvarpinu, að hún komi til með að verða öflugri stofnun en sú sem við höfum verið að horfa upp á engjast í fjárhagskröggum núna síðustu árin.

Er ég þá komin að því að fjalla hér um mál er tengjast fjárhagsstöðu stofnunarinnar. Þar finnst mér nauðsynlegt að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég hef haft uppi varðandi afnotagjöldin sem hafa verið gagnrýnd harkalega af, að því er ég tel, litlum en háværum hópi. Í þeim háværa hópi eru sennilega flestir fylgismenn Sjálfstæðisflokks eða þeir sem aðhyllast stefnuna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að kynna í málefnum Ríkisútvarpsins — hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa flutt mál á þingi sem gera ráð fyrir að skylduáskrift, sem þeir kalla svo, að Ríkisútvarpinu sé lögð niður og Ríkisútvarpið verði svo að endingu selt. Til marks um það er mál á þskj. 54 á þessu löggjafarþingi en hv. þm. Mörður Árnason gerði góða grein fyrir því í máli sínu. Hann benti á að 40% þeirra stjórnarþingmanna sem skrifa undir nefndarálitið frá menntamálanefnd hafi átt aðild að því máli á einhverju stigi og vilji þar af leiðandi að Ríkisútvarpið verði selt. Það stendur hér stórum stöfum varðandi tímaáætlun í lok þessa frumvarps að hvorki meira né minna en fyrir árslok 2006 vilji hv. þingmenn Pétur Blöndal og Birgir Ármannsson, sem situr nú í forsetastóli, að Ríkisútvarpið hf. verði selt.

Ég verð að segja að yfirlýsingar af því tagi sem liggja fyrir í þessum þingskjölum auka manni ekki tiltrú á að Ríkisútvarpið hf. geti nokkru sinni orðið öflug menningarstofnun og þær auka manni ekki trú á orð og yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra um að hún vilji efla Ríkisútvarpið. Það á þá eftir að renna mikið vatn til sjávar á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins ef hæstv. menntamálaráðherra ætlar að fylgja þeim orðum sínum eftir. Til þess þyrfti hún að berjast við sterka þingmenn úr röðum sjálfstæðismanna þar sem eru þeir hv. þingmenn sem nefndir hafa verið í tengslum við þetta frumvarp á þskj. 54.

Hvernig sjá menn svo fyrir sér að þessi afnotagjöld, sem hafa lent í ákveðinni ófrægingarherferð, muni nú þróast? Jú, samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að í stað afnotagjalda verði tekinn upp nefskattur. Í frumvarpinu segir um tekjustofnana að skattstjórar muni samhliða álagningu opinberra gjalda leggja þennan nefskatt á og gjaldskyldan muni hvíla á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru og þeim lögaðilum sem eru skattskyldir. Nánar er gerð grein fyrir þessu í 12. gr. frumvarpsins og gjaldið er fellt í krónutölu upp á 13.500 kr. ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Síðan koma undanþágur frá gjaldinu. Þeir eru undanþegnir sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða þurfa að fá það gjald fellt niður, það er frekar skilgreint í lögunum um málefni fatlaðra og ég er ekki með á takteinum nákvæmlega hverjir þeir eru.

Svo er sagt í 2. tölulið 12. gr. að tekjur af auglýsingum, kostun og sölu eða leigu á vörum sem tengjast dagskrárefni þess í útvarpi eða í öðrum miðlum eigi að vera hluti af tekjustofninum og svo aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða í tölulið nr. 3. Það hefur hins vegar ekki komið nein skýring frá stjórnarliðum eða hæstv. ráðherra á því hvaða tekjur það gætu mögulega orðið sem menn sæju fyrir sér undir tölulið 3 í 12. gr., aðrar tekjur sem Alþingi kann sérstaklega að ákveða.

Hvað kom svo í ljós í umfjöllun nefndarinnar um þennan nefskatt? Auðvitað kom í ljós að það eru tvær hliðar á því máli eins og var svo sem vitað. Í umsögn frá ríkisskattstjóra — sem fyrir einhvern misgáning hafði ekki fengið frumvarpið til umfjöllunar strax í upphafi, það var ekki fyrr en 8. mars að embætti ríkisskattstjóra var sent bréf þar sem óskað var eftir umsögn um málið — komu athyglisverðir hlutir fram. Þar segir t.d. að verði frumvarpið að lögum verði sú grundvallarbreyting á tekjusamsetningu Ríkisútvarpsins frá því sem verið hefur að brott falli afnotagjöld fyrir veitta þjónustu sem borið hafa virðisaukaskatt en í stað þeirra komi tekjur af umræddum nefskatti.

Sú breyting tekjusamsetningar hefur ein og sér ekki áhrif á innskattsrétt Ríkisútvarpsins, segir þar, en gæti hugsanlega skipt sköpum varðandi skráningu þess á grunnskrá virðisaukaskatts og þannig á bæði innskattsrétt og skyldu til innheimtu virðisaukaskatts af sölu er fellur innan skattskyldusviðsins.

Með öðrum orðum er verið að tala um það að ef tekjur Ríkisútvarpsins, segjum af sölu auglýsinga, koma til með að lækka skyndilega kemur Ríkisútvarpið til með að detta út af þessari virðisaukaskattskrá sem þýðir að ekki verður lengur hægt að telja fram innskatt á móti útskatti, sem þýðir þá að Ríkisútvarpið kemur til með að þurfa að greiða allan sinn innskatt sem lokagreiðandi og rétturinn til að leggja á útskatt kemur til með að falla niður.

Ráðuneytisstarfsmenn komu til okkar í menntamálanefndinni og tjáðu okkur að þetta væri ekki yfirvofandi hætta því að þarna væru einhverjar 40 millj. kr. upp á að hlaupa og ég verð nú að segja að með tilliti til þess að menn eru farnir að hugsa um það að taka Ríkisútvarpið í þrepum út af auglýsingamarkaði þá er það auðvitað fyrirsjáanlegt í nánustu framtíð að tekjur af auglýsingasölu komi til með að geta lækkað umtalsvert og þar af leiðandi sé ég ekki annað en sú hætta sem ríkisskattstjóri gerir okkur grein fyrir í umsögn sinni geti verið fyrir hendi fyrr en varir.

Ríkisskattstjóri gerir að umtalsefni í umsögn sinni umsögn Fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, en í henni eru tiltekin áætluð áhrif á tekjur ríkissjóðs af því ef Ríkisútvarpið hf. teldist vera í blandaðri starfsemi að því er virðisaukaskatt varðar. Ríkisskattstjóri segist ekki fá séð að til slíks geti komið miðað við fyrirliggjandi frumvarp enda verður af frumvarpinu ekki ráðið að Ríkisútvarpinu hf. sé ætlað að stunda nokkra þá starfsemi sem fellur utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts. Í því sambandi bendir ríkisskattstjóri á að móttaka skattfjár felur ekki í sér blöndun starfsemi í þeim skilningi að leiði til takmörkunar á innskattsrétti.

Það er sem sagt niðurstaða embættis ríkisskattstjóra að gjald til Ríkisútvarpsins beri að flokka sem skatt, þar af leiðandi megi ekki leggja á það virðisaukaskatt eins og hefur verið gert með afnotagjöldin. Það var nú eitt af því sem áhöld voru um, hvort menn hefðu gert sér grein fyrir í menntamálanefnd, stjórnarliðarnir, að afnotagjöldin hafa borið virðisaukaskatt en nefskatturinn kemur ekki til með að gera það, ekki leggur maður skatt ofan á skatt. Ríkisskattstjóri segir að skattur af þessari tegund, sem leggist jafnt á alla óháð tekjum og eignum, heiti nefskattur þar sem það sé bara nefið á hverjum og einum sem þar ræður. Hann segir að kostur nefskattsins sé helstur sá að álagning hans sé einföld og auðvelt að fylgjast með skattgreiðslunum en helstu ókostur hans sé að hann taki ekki tillit til greiðslugetu og sé íþyngjandi fyrir tekjulága, þ.e. tekjulágir greiði þá hærra hlutfall tekna sinna í skattinn en þeir sem hærri tekjurnar hafa. Af þessum ástæðum telur ríkisskattstjóri að það sé mjög sjaldgæft að nefskattar séu lagðir á, a.m.k. af þeirri stærðargráðu sem veruleg geti talist og það er ekki annað að heyra á umsögn ríkisskattstjóra en að honum finnist þetta veruleg stærðargráða, þessar rúmar 13.500 kr. á ári á hvern greiðanda.

Það er gaman að umsögn ríkisskattstjóra sem fer í skemmtilega söguskýringu þar sem hann fjallar um það að fyrr á öldum hafi nefskattar verið algengir en þeir séu að mestu horfnir í dag. Í umsögninni eru nefnd tvö þekkt dæmi úr skattasögunni, en það eru annars vegar skatturinn sem Ríkharður II. Englandskonungur lagði á 1380 til að fjármagna stríðið við Frakkland. Sá skattur leiddi nú hvorki meira né minna en til bændauppreisnarinnar 1381. Hins vegar vísa þeir félagar, Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri og Sigurjón Högnason, til tilraunar á síðari tímum til að leggja á verulegan nefskatt en það var þegar stjórn Margrétar Thatcher í Englandi lét lögleiða nefskatt í stað nokkurs konar fasteignagjalda til að fjármagna starfsemi sveitarfélaga. Þeim skatti var komið á á árunum 1989–1990 og hann mætti verulegri andstöðu. Milljónir manna neituðu að borga hann og náðu mótmælin hámarki, segir ríkisskattstjóri, með óeirðum á Trafalgar Square í lok mars 1990 — það er nú ekki lengra síðan — og andstaðan innan Íhaldsflokksins leiddi m.a. til þess að Margrét Thatcher sagði af sér um haustið. Arftakar hennar lækkuðu skattinn og afnámu hann frá og með 1994.

Ósagt skal látið hvort ríkisskattstjóri er að spá hér fyrir um örlög nefskattsins á Ríkisútvarpið, nefskattsins sem á að leysa afnotagjöldin af hólmi, en mér segir svo hugur að þeir sem hafa verið háværir og gagnrýnt harkalega afnotagjöld Ríkisútvarpsins komi ekki til með að sætta sig við nefskatt þann sem hér er lagður á. Óánægjan á eftir að verða sú sama ef hún á ekki eftir að magnast. Ég fæ ekki betur séð á umsögn ríkisskattstjóra en að þessi skattur eigi eftir að koma mjög ójafnt niður á fólki og að hann sé virkilega til þess fallinn að valda óánægju og jafnvel, eins og ég segi, verða ekki síður óvinsæll en afnotagjöldin. En afnotagjöldin eru, og það er mín bjargfasta skoðun, hjá þorra þjóðarinnar bara talin vera af hinu góða. Hvers vegna? Vegna þess að þorri, þjóðarinnar — ég þori að fullyrða það héðan út þessum stól — gerir sér grein fyrir því að afnotagjöldin sem fólk greiðir í hverjum einasta mánuði og sér á Vísa-reikningnum, eða það fær gíróseðilinn inn um lúguna og greiða úr buddunni sinni í hverjum mánuði þessi afnotagjöld, að það er að borga inn í stofnun sem það á sjálft. Það á Ríkisútvarpið og það finnur fyrir því í buddunni sinni í hverjum mánuði. Þess vegna getur þjóðin gert kröfu á Ríkisútvarpið um að það standi sig í stykkinu, sé fólki að skapi og fólk hringir til Ríkisútvarpsins af því það hefur umboð í gegnum það að það greiðir afnotagjald í hverjum mánuði og kvartar undan því sem það telur að það þurfi að kvarta undan, óskar eftir ákveðinni þjónustu sem það telur sig eiga rétt á eða geta fengið og þar fram eftir götunum. Þjóðin finnur í gegnum afnotagjöldin að hún á hlutdeild í Ríkisútvarpinu. Í mínum huga er þessi vissa fólks um sína eign og áhrif í Ríkisútvarpinu í gegnum gjaldið mikils virði. Ég sé ekki annað en að þessi tengsl rofni þegar farið verður að innheimta nefskattinn. Ég þori að fullyrða að enginn gerir sér grein fyrir því á sama hátt og viðkomandi gerir sér grein fyrir að hann er að borga afnotagjöld til Ríkisútvarpsins, að hann er líka að greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra einhvern nefskatt á hverju ári. Það er eitthvað sem er innheimt með opinberum gjöldum alveg á sama hátt og hugmyndin er að innheimta nefskattinn fyrir Ríkisútvarpið.

Reyndar þegar ég nefni skattinn í Framkvæmdasjóð aldraðra vitum við líka að ríkisstjórnin hefur oftar en ekki og hefur haft það jafnvel nánast fyrir reglu að skerða Framkvæmdasjóð aldraðra á hverju einasta ári með lögum. Það er gert í fjárlögunum. Ég spyr: Verður sá plagsiður endurtekinn eða yfirfærður á Ríkisútvarpið og nefskattinn vegna Ríkisútvarpsins? Hvað ætlar útvarpsstjóri þá að segja sem kvartaði við menntamálanefnd um fjárhagsstöðuna og hafði um það mjög ákveðnar skoðanir hvernig þyrfti að bæta fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins til þess að það gæti staðið við hlutverk sitt? Verður það raunin að nefskatturinn komi til með að lúta niðurskurði meiri hluta á Alþingi ef svo bíður við að horfa? Ég sé hér ákveðna hættu sem ég tel eðlilegt og rétt að vara við og er hún ein af þeim rökum sem ég get tínt til í stuðningi mínum við afnotagjöldin og lýsir því af hverju ég óttast þennan nefskatt og tel að hann verði ekki til neinna bóta.

Í umsögn ríkisskattstjóra segir að helsti gallinn við nefskatt sé tengslaleysi hans við gjaldþol manna. Í fyrirliggjandi tilviki, segir ríkisskattstjóri, að það sé brugðist við því með því að undanþiggja hina tekjulægstu gjaldinu. Enn fremur eru þeir sem komnir eru yfir tiltekinn aldur undanþegnir. Frítekjumörkum fyrir fast krónugjald fylgja ákveðin vandamál vegna þeirra sem eru sitt hvoru megin næst mörkunum, sem vakið getur spurningu um jafnræði. Sama á við þegar litið er til mismunandi skattlagningar hjóna eftir því hvort annað eða bæði eru ofan þessara marka. Þá eru skattfrelsismörk samkvæmt frumvarpinu með þeim annmarka að eingöngu er miðað við almennar tekjur, þ.e. launatekjur en ekki fjármagnstekjur. Ríkisskattstjóri bendir þingheimi á það, og ég ber þau skilaboð hingað yfir í þennan sal, að allstór hópur manna hafi miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur og vera má að einhver hópur þeirra sem svo er ástatt um verði samkvæmt þessu undanþeginn gjaldinu. Er eitthvert réttlæti í því, spyr ég héðan úr þessum ræðustóli Alþingis? Svar mitt er nei.

Ríkisskattstjóri segir að fyrir aldursmörkunum séu engin rök færð fram. Tekjulágir aldraðir yrðu þá þegar undanþegnir vegna lágra tekna en aldursmörkin leiða til þess að tekjuháir aldraðir yrðu undanþegnir á meðan mun tekjulægri yngri skattaðilar bæru skattinn.

Frá skattalegu sjónarmiði hefur nefskattur á einstaklinga fáa kosti, segir ríkisskattstjóri, en marga galla. Helstu rökin með honum eru framkvæmdalegs eðlis, þ.e. hann er einfaldur í framkvæmd og auðveldur í eftirliti. Sé litið til þeirra röksemda og jafnframt gengið út frá því að æskilegt sé að rekstur Ríkisútvarpsins sé kostaður með sömu fjárhæð úr hendi hvers manns má benda á að einfaldara væri að lækka persónuafslátt manna sem nemur gjaldfjárhæðinni og lögbinda framlag til Ríkisútvarpsins sem nemur hinni sömu fjárhæð á mann. Skattaleg áhrif yrðu mikið til hin sömu, gallarnir færri og framkvæmdin einfaldari.

Þessi hugmynd er kannski ekki svo afleit. Ég tel hana vera nýtt innlegg í umræðuna. Ég tel hana þess virði að hún sé skoðuð. Ég vil fá viðbrögð við þessari hugmynd ríkisskattstjóra, hvort það væri kannski ráð að gera þetta svona, að lækkaður persónuafsláttur geti kannski skilað bestum árangri í þessum efnum og geti orðið tryggasti tekjustofn Ríkisútvarpsins og um þessa aðferð mætti kannski ná einhvers konar sátt.

Sömuleiðis vil ég nefna hér aðferð sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt til. Hún er sú að við höfum talið eðlilegt að binda afnotagjöldin við fasteignir en ekki við hausa þannig að það sé þá tryggt að hver einasta fasteign, hvort sem hún er í eigu lögaðila eða einstaklings, beri afnotagjald. Þá gætu húseigendur sem leigja húseignir sínar innheimt afnotagjaldið af leigjendum sínum í gegnum leigugjöldin. Þetta mætti líka vera þannig að þegar fasteignagjöldin eru innheimt þá er afnotagjaldið bara einn liður í þeirri innheimtu. Ekkert af þessu hefur fengist rætt. Ekkert af þessu fékkst rætt í menntamálanefndinni og ég sé ekki að við komum til með að eiga von á mikilli umræðu um þessi atriði hér í þessari lotu, þessari 2. umr. um frumvarpið og ég tel það mjög miður

Svo ég haldi áfram að rýna í umsögn ríkisskattstjóra þá er vakin athygli okkar á því að í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins komi fram að kostnaður við innheimtu afnotagjalda hafi verið um 70–80 milljónir króna á ári. Það er auðvitað dágóð upphæð og fólk hefur haft áhyggjur af að það þurfi kosta svona mikið að innheimta afnotagjöldin. Samkvæmt kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir því að þessi fjárhæð sparist, við breytingarnar, við það að það verði lagður á nefskattur. Er þetta skýrt í kostnaðarumsögninni með því að sérstök innheimta falli niður og eftir því sem fjármálaráðuneytið telur þá muni innheimta nefskattsins verða bara hluti af innheimtu opinberra gjalda og þar af leiðandi að því er virðist án þess að það komi nokkur aukakostnaður á það. En við þetta gerir ríkisskattstjóri athugasemd. Hann bendir á að fjöldi einstaklinga, sem ekki greiðir tekjuskatt eða önnur opinber gjöld af ýmsum ástæðum muni verða krafinn um gjald til Ríkisútvarpsins. Það kemur til með að hafa í för með sér að einhver aukning verður á öllum innheimtuumsvifum og það mun leiða til aukins innheimtukostnaðar.

Ég tel að þeir sem sömdu þetta frumvarp hafi ekki áttað sig á því að til væri fjöldi einstaklinga sem ekki greiðir tekjuskatt eða önnur opinber gjöld og þar er t.d. um að ræða fólk sem vegna bóta greiðir ekki slíkan skatt eða vegna einhvers konar ívilnana skattstjóra vegna millifærslu á persónuafslætti og fleiri atriði telur skattstjóri upp.

Varðandi lögaðila bendir ríkisskattstjóri á að gjaldskyldir yrðu samkvæmt frumvarpinu um 26.000 lögaðilar. Af þeim greiddi um helmingur tekjuskatt eða önnur gjöld til ríkissjóðs. Nýir skattgreiðendur úr röðum lögaðila yrðu því um 13.000. Þá er vert að hafa í huga, segir ríkisskattstjóri, að ætla má að verulegur hluti hinna nýju skattgreiðenda yrðu félög sem ekki eru starfandi og hafa því engar tekjur til að greiða gjaldið af.

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er reiknað með að ekki verði unnt að innheimta gjaldið hjá þúsundum lögaðila og það mat dregur ríkisskattstjóri ekki í efa, en gerir athugasemd við að ekki er fjallað um afleiðingar þess eða hvaða áhrif það muni hafa. Skattyfirvöldum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að leggja gjaldið á alla tekjuskattskylda lögaðila án nokkurra heimilda til að fella það niður. Þar með þurfa að falla undir þetta þau félög sem ekki eru starfandi og hafa engar tekjur til að greiða gjaldið af. Til hvers ætlast ríkisstjórnin í þessum efnum eða hæstv. menntamálaráðherra? Ætlast menntamálaráðherra til þess að ríkisskattstjóri fari að eyða í það tíma og kostnaði og mannafla að innheimta þetta gjald, þennan nefskatt, hjá félögum sem ekki eru starfandi og hafa ekki tekjur til að greiða þetta gjald af? Ætla má, eftir því sem umsögn ríkisskattstjóra segir hér, að þessir lögaðilar yrðu mögulega nokkur þúsund félög sem ekki eru lengur með nokkra starfsemi, hafa engar tekjur og eiga engar eignir og í sumum tilvikum finnast jafnvel ekki forsvarsmenn þessara félaga. Þess vegna gerir ríkisskattstjóri ráð fyrir því að vangreidd útvarpsgjöld muni safnast upp með dráttarvöxtum þar til gerð verði krafa um gjaldþrot og félaginu slitið í lok þess og það er auðvitað ekki gert nema með ærnum tilkostnaði. Fyrir fáum árum var lögfest einfölduð aðferð til slíta á félögum sem ekki eru lengur virk. Forsendan fyrir að fara þá leið sem farin hefur verið núna örfá síðustu árin er sú að félagið skuldi ekki opinber gjöld. Nú kemur þetta til með að breytast. Með álagningu útvarpsgjaldsins yrði þessi leið, þ.e. að slíta félagi án þess að það sé með miklum tilkostnaði, útilokuð í þeim tilvikum sem menn eða félög koma til með að skulda uppsöfnuð útvarpsgjöld.

Í lok umsagnar ríkisskattstjóra segir að skattyfirvöld hafa um nokkurra ára skeið án árangurs talað fyrir því að tekin verði upp viðurlög við því að félög skili ekki framtölum og skýrslum, meðal annars til að knýja óvirk félög til afskráningar. Segja má að álagning útvarpsgjalds muni koma til með að hafa slík áhrif og að því leyti muni upptaka þess verða af hinu góða þótt vafi leiki á um hagkvæmni þeirrar leiðar.

Með vísan til framangreinds sem ég hef rakið, hlaupið á og stiklað á stóru í umsögn ríkisskattstjóra þá segir ríkisskattstjóri í lokin að ekki verði hjá því komist að draga í efa að sú tillaga frumvarpsins að afla Ríkisútvarpinu tekna með álagningu nefskatts sé heppileg.

Færustu menn á sviði skattamála draga sem sagt mjög í efa að þessi aðferð, nefskattsleiðin, sé heppileg. Ég get ekki annað sagt en að við það situr. Ekki höfum við rætt þetta til neinnar hlítar í menntamálanefndinni. Ekki hefur verið varpað upp neinu sérstöku ljósi svo sem á þessi sjónarmið ríkisskattstjóra önnur en þau að við lásum auðvitað þessa umsögn. Við sitjum þá uppi með þessar efasemdir ríkisskattstjóra og spurning er hvað við ætlum að gera með þær. Í öllu falli er það sjónarmið mitt í þessum efnum að hér sé um málefnalega ábendingu að ræða sem óeðlilegt sé annað en að taka til einhvers konar umfjöllunar og bregðast á einhvern hátt við, að það sé alla vega ekki hægt að samþykkja þennan nefskatt nema með opin augun og að undangengnu því að taka afstöðu til þeirra efasemda sem koma fram í máli ríkisskattstjóra.

Ég ætla ekki í þessari ræðu minni, herra forseti, að fara í þessar Evrópureglur sem hv. þm. Mörður Árnason er vel kunnur. Hann tók í ræðu sinni afar ... (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Forseti vill spyrja hvort hv. þingmaður telji að það sé langur tími eftir af ræðunni?)

Ég sé að það er kominn kannski tími á matarhlé. Ég tel ekki vera langan tíma eftir. En ég mundi samt kjósa að fá að gera hlé á ræðu minni núna en taka upp þráðinn til að ljúka henni að loknu hléi.