132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:50]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér sýnist hafa komið fram í hinu fyrra andsvari að hv. þm. Dagný Jónsdóttir er fullkomlega sannfærð um að með frumvarpi því sem hún styður sé ekki veruleg hætta á því að Ríkisútvarpið fari úr þjóðareigu þótt það verði hlutafélag. Ég ætla þess vegna ekki að rekja úr þingmanninum garnirnar frekar hvað það varðar.

Ég tók eftir því, bæði í ræðu þingmannsins og andsvörum fyrr í dag að vitnað var í flokksþing Framsóknarflokksins frá 2005 og, eins og ég segi, í stefnubreytinguna frá 2005 þar sem Framsóknarflokkurinn hefur tvö markmið þótt sjálfseignarstofnunin sé farin. Það er annars vegar þjóðareigan, sem ég tek undir af heilu hjarta, og hins vegar að sjálfstæði Ríkisútvarpins verði eflt.

Þá er fróðlegt, vegna þess að þetta mál hefur verið svo lengi í undirbúningi eins og við vitum, að fá að vita frá þingmanninum í fyrsta lagi hvort hann lítur svo á að sjálfstæði Ríkisútvarpins sé nú eflt með þessu frumvarpi sem við erum að afgreiða og í öðru lagi í hverju sú efling felst í frumvarpinu? Það er talað um sjálfstæði þessa almannaútvarps. Þegar talað er um það er fyrst og fremst átt við að það sé sem óháðast annars vegar stjórnmálalegum hagsmunum og hins vegar viðskiptalegum hagsmunum. Mig langar að vita ef sjálfstæðið er eflt á annað borð hvort átt er við stjórnmálalega hagsmuni eða viðskiptalega hagsmuni. Og hvaða greinar það eru, hvaða ráðstafanir það eru í frumvarpinu sem efla sjálfstæðið á þessum tveimur vængjum.