132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:54]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var auðvitað góð tilraun til svars en fyrri hlutinn var mjög sérkennilegur að með hlutafélagavæðingunni efldist Ríkisútvarpið og yrði þess vegna samkeppnishæfara. Samkeppnishæfara á hvaða markaði? Erum við að tala um Ríkisútvarpið sem er með markaðsstöðu í eigu ríkisins eða erum við að tala um Ríkisútvarp sem er almannaútvarp?

Mig er farið að gruna að hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur sé ekki ljóst að á þessu er nokkur munur og þess vegna er kannski rétt að spyrja í framhaldi af því. Það gerir Ríkisútvarpið ekki sjálfstæðara í sjálfu sér að geta keppt betur eða meira við Skjá 1, Sirkus, Stöð 2, Sýn o.s.frv., annaðhvort eitt sér eða þá í tengslum við einhvern af þessum aðilum á móti hinum. Þeir eru nú bara tveir, það er því annar á móti hinum eins og fram hefur komið og við höfum hlustað á, ég og hv. þingmaður í menntamálanefnd, frá fulltrúa menntamálaráðherra, að geti komið til greina. Að stofnuð séu sjálfstæð dótturfélög eða dótturfélag með öðrum m.a. til að keppa við þriðja félagið. Er það aukið sjálfstæði? Er það aukið sjálfstæði frá viðskiptalegum hagsmunum? Nei. Það einmitt setur almannaútvarpið, ef við erum að meina það á annað borð, í þá stöðu að vera háð viðskiptalegum hagsmunum. Annars vegar hugsanlegu samstarfi en hins vegar fyrst og fremst auglýsendum og kostun. En það vandamál á ekkert að leysa með þessu frumvarpi.

Hitt er þess virði að ræða að hv. þingmaður telur að sjálfstæðið felist í að útvarpsstjóri fái öll völd. Þá langar mig að vita hvað hv. þingmanni finnst um það að útvarpsstjórinn er ráðinn af stjórn sem í er ríkisstjórnarmeirihluti kosinn á Alþingi og sú stjórn, sem er kosin árlega, getur rekið útvarpsstjórann hvenær sem er. Finnst henni það vera sjálfstæður útvarpsstjóri sem svo háttar um?