132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:56]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég stend við þá skoðun mína að Ríkisútvarpið sem Ríkisútvarpið hf. verði samkeppnishæfara. Hv. þingmaður spyr hvort ég sé þá að meina samkeppnishæfara sem almannaútvarp eða í samkeppni við önnur fjölmiðlafyrirtæki? Það sem ég er að koma á framfæri er að það eru ekki síst starfsmannamál og rekstrarumhverfi sem munu gera það sveigjanlegra. Ríkisútvarpið stendur betur ef það er ekki að bögglast í stirðu rekstrarumhverfi. Þetta snýst líka um dagskrárgerð og ráðningar og fleira sem ég tel að pólitískt skipað útvarpsráð hafi haft of mikil afskipti af hingað til. Það hefur ekki verið unnt að bregðast við breytingum á markaði mjög hratt vegna þessa.

Þetta snýst því ekki bara um peninga. Þetta snýst ekki um auglýsingar. Við höfum verið mjög jákvæð gagnvart því í menntamálanefnd, eins og hv. þingmaður vísaði til, hvort draga ætti eitthvað úr hlutdeild Ríkisútvarpins á auglýsingamarkaði. Mér finnst það alveg sjónarmið sem á fullkomlega rétt á sér og er jákvæð gagnvart. því.

Varðandi það hins vegar, sem hv. þingmaður kom inn á hér áðan, hvort völd útvarpsstjórans væru of mikil þá held ég að nauðsynlegt sé að útvarpsstjóri geti rekið sína stofnun, (MÁ: ... búin að mæla fyrir sjálfstæði ...) þ.e. þá stofnun sem hann starfar fyrir, vel. Þegar kemur að pólitískt skipuðu útvarpsráði yfir útvarpsstjóra er það ákveðið aðhald sem ég tel mjög gott að hafa alla vega fyrst um sinn til að byrja með.

Ég sé að hv. þingmaður er ekki sammála mér en þetta eru mínar skoðanir. Ég er þannig að ég hef tröllatrú á þessu fólki og að hið pólitískt skipaða útvarpsráð muni ekki vera að fetta fingur út í það sem mun gerast þarna. Enda verða hendur þeirra bundnar. Þeir munu ekki fara að skipta sér af dagskrárgerð og ráðningum innan stofnunarinnar. Það gerir útvarpsstjóri og hann ber fullkomna ábyrgð á því.