132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:01]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega og efnismikla ræðu þar sem víða var komið við og ýmsum steinum velt upp og kíkt undir þá, kannski látnir í sama farið aftur. Ég tók samt eftir því, hæstv. forseti, að í lok ræðu sinnar sagði hv. þingmaður eitthvað á þá leið að þingmenn þyrftu kannski að sameinast um að reyna að finna út úr því hvað stjórnmálaflokkunum gengi til í þeirri málsmeðferð sem komið hefur upp í þessu máli. Því ég tek undir þau viðhorf hv. þingmanns að ef lagt hefði verið í að ná sátt í málinu hefði það sjálfsagt tekist. En alls ekki í þeim búningi sem málið er.

Þá veltir maður fyrir sér, ég geri það eins og hv. þingmaður, hvers vegna málið fór allt í einu á þessa fleygiferð úr menntamálanefnd. Ég held kannski að málið sé svolítið öðruvísi vaxið en hv. þingmaður nefndi. Það gæti nefnilega verið að það væri þannig að menn hafi sameinast um að kippa málinu á fullri ferð úr nefndinni hingað inn í þing og þegar búið væri að keyra það hér í gegn með samþykki Framsóknarflokksins þyrfti ekki lengur á neinum skrautsýningum eða tímatöf að halda við nein önnur frumvörp sem væru á leiðinni, hvorki kynningar, „slide-show“ eða neitt slíkt vegna þess að þá mundi koma í ljós að þeir sem nú hafa náð fram áhugamálum sínum um einkavæðingu og stefnu sem mörkuð væri af því, mundu styðja ákveðið frumvarp sem þeir hafa lýst yfir að þeir styddu ekki.