132. löggjafarþing — 99. fundur,  4. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:05]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef eins og hv. þingmaður veitt því athygli að ákveðinn ráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum undanfarna daga, að eftir nokkurn tíma mundi ákveðið mál fara í gegnum þingið eftir nokkrum aðdraganda. Ég hef dregið þá ályktun að miðað við þær viðtökur sem mörg mál þess hæstv. ráðherra hafa fengið í þinginu væri ekki líklegt að sá hæstv. ráðherra treysti mikið á stuðning stjórnarandstöðunnar. Ef hæstv. ráðherra treystir sér að fullyrða í fjölmiðlum að samt sem áður fari þetta mál í gegn hlýtur eitthvað annað að búa að baki en væntanlegur stuðningur stjórnarandstöðunnar.

Í ljósi þeirra hugleiðinga dró ég þá ályktun að málið lægi þannig að sagt hefði verið á milli manna að ef þetta færi hér í gegn óbreytt og í góðu lagi, þá gæti eitthvað annað gerst. Einhverjar vonir búa í brjósti hæstv. ráðherra um að þetta mál renni mjög snyrtilega í gegn. Það er svo sem gaman að fara á það bíó sem boðið verður upp á og best að þiggja það.