132. löggjafarþing — 99. fundur,  5. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[05:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Aðeins ein lítil leiðrétting. Það er rangt að forseta hafi ekki verið kunnugt um hve lengi ég hygðist tala. Ég hef margoft sagt það í ræðu minni að ég vildi koma í veg fyrir að fólk sem farið er úr húsi, er á mælendaskrá og vill tala (Gripið fram í: En Pétur er í húsi.) — ég vissi ekkert um það, ég var að sjá hv. þm. Pétur H. Blöndal núna, hann hefur ekki verið hér í salnum. (Gripið fram í: Hann er búinn að vera hér í allan dag.) Ha, ég hef ekki séð hann. Hann hefur ekki verið í salnum og af hverju var ekki hægt að segja mér þetta? Hvers vegna var ekki hægt að segja mér þetta heldur jafnan talað til mín í véfréttastíl þegar ég bauð það að stytta mál mitt ef ég fengi að vita hvert framhaldið yrði? (Gripið fram í: Þetta er afar ...)

(Forseti (JBjart): Forseti biður þingmenn um að standa ekki í samræðum hér úr ræðustól.)

Ég er að gera grein fyrir því hvernig stóð á því að ég spurði ítrekað forseta svara, fékk þau ekki. Ég er að gera grein fyrir því að það vakti fyrir mér að koma í veg fyrir að þingfundi yrði slitið og þeir þingmenn sem eru á langri mælendaskrá og eru farnir úr húsi yrðu hlunnfarnir um réttinn til að taka til máls. Ég hef margoft gert grein fyrir þessu. Síðan er mér bent á hv. þm. Pétur H. Blöndal og aðra sem hafa verið á mælendaskrá. Hvers vegna í ósköpunum var ekki hægt að segja mér þetta?