132. löggjafarþing — 99. fundur,  5. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[05:24]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það er fjarri mér að vilja hindra hv. þm. Pétur H. Blöndal í að taka til máls um þetta efni. En ég vona að mér fyrirgefist, af því að ég er nýliði á þinginu, að ég man ekki eftir fundi sem staðið hefur jafnlengi á þeim tíma sem ég hef verið hér og man ég þó eftir þeim fundi lengstum sem stóð til kl. 4. Sú tilkynning sem við fengum um þennan fund á þingflokksfundi eftir venjulegri leið var á þann veg að væntanlega yrði kvöldfundur á þessum degi um þetta mál.

Nú vill svo til, forseti, að á morgun er annar dagur eða réttara sagt í dag er annar dagur en í gær. Það er líka vinnudagur og fastur punktur í þeim vinnudegi hjá mér er fundur sem er boðaður kl. 10.15, að ég hygg, í menntamálanefnd, sem er ein af nefndum þingsins sem hér starfar, og þangað til hann hefst eru sem sé 4 tímar og, að ég hygg, 45 mínútur sem er ekki mikill svefntími. En mig langar að spyrja forseta að því hvort þetta sé algengt á þinginu og séu vinnubrögð sem menn sætta sig við, að mæta á nefndarfundina eftir nokkurra tíma svefn og þurfa í raun og veru að skera af þeim tíma þá stund sem fer til undirbúnings fyrir slíkan fund. Á morgun á að ræða tvö frumvörp. Það er frægt frumvarp um grunnskóla og enn þá frægara frumvarp um æskulýðsstarf sem hv. fjarstaddur þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Ásta Möller, hefur undirbúið og hefur m.a. sett fáheyrð skilyrði í um sýningu sakavottorðs við umsókn í starf. Ég þarf að undirbúa mig undir þetta og hugðist gera það á morgun með því að vakna á mínum venjulega tíma einhvers staðar á milli 7 og 8 og koma mér í vinnuna. Mig langar að spyrja að því, af því að ég veit að forseti hefur mikla þingreynslu og er öllum þessum hnútum ákaflega kunnugur, hvernig þetta gangi fyrir sig á Alþingi Íslendinga.