132. löggjafarþing — 99. fundur,  5. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[05:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég velti því stöðugt fyrir mér hver það sé sem stýri fundi í raun. Fundi hefur gjarnan verið frestað þó menn séu á mælendaskrá. Rök forseta eru þau að einn þingmaður, sem hér er í salnum núna, vilji endilega fá að halda ræðu sína og þess vegna hafi hann haldið þessum fundi svona lengi. Hver stýrir eiginlega þinginu? Það er upplýst í upphafi dagsins, skilaboð til þingmanna innan þingflokka, að það eigi að vera kvöldfundur og það eru þær einu upplýsingar sem þingmenn fá um þingstörfin. Gott og vel. Það var að vísu ekki tekið fram hvaða kvöld það væri, það er rétt, það var ekki tekið fram hvaða kvöld það væri sem ætti að vera kvöldfundur, hvort það væri fram á næsta kvöld, en ég leit samt þannig á að þetta væri það kvöld sem er nú löngu liðið.

Ég verð að telja það eitt brýnasta mál þingsins að taka fyrir stjórn forseta þannig að með einhverjum hætti sé hægt að reiða sig á ákvarðanir og stjórn hans. Stjórn þingsins á ekki bara að ganga erinda ríkisstjórnarinnar og fara eftir þeirri ákvörðun sem hún kann að taka eftir því sem líður á daginn eða nóttina. Það er ekki svo að mínu viti.

Sú tilkynning sem hafði borist til okkar sem þingmanna var að það ætti að vera kvöldfundur óháð því hve margir væru þá í sjálfu sér á mælendaskrá. Eins og hefur iðulega verið hefur umræðu verið frestað og einstakir þingmenn hafa hvað það varðar ekki verið að taka að sér stjórn þingsins.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvaða skýringu forseti geti gefið á því að hérna var boðaður kvöldfundur og síðan var því breytt án þess að tilkynnt væri um nokkuð annað, ekki hægt að gefa upp hvenær fundi lyki og að því er virtist vegna þess að forseti virtist ekki hafa neina stjórn á því og það væru einhverjir aðrir sem virtust stýra því. Ég bið forseta að segja mér hver það er sem stýrir fundi og hefur hann þá ótakmarkað vald til þess án samráðs við nokkurn annan að gera það með þeim hætti sem hér er gert.