132. löggjafarþing — 99. fundur,  5. apr. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[05:34]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er ákveðin tilbreyting í því að halda ræðu klukkan hálfsex að morgni. Það er á vissan hátt skemmtilegt en í þessari umræðu höfum við hlustað á miklar langlokur. Þetta er að sjálfsögðu málþóf. Ég sakna þess nú að hv. þm. Mörður Árnason skuli horfinn úr þingsalnum því ég ætlaði að fjalla um hans ræðu. Mér finnst að hann sem íslenskufræðingur ætti að geta meitlað hugsun sína betur í orð en hann gerði, með því að halda svona langa ræðu. Það er nefnilega miklu erfiðara að halda stutta ræðu en langa, frú forseti. Þetta er málþóf og þetta er valdabarátta. Þetta er barátta stjórnarandstöðunnar því að hún ætlar sér að ráða yfir vissum málum eins og hún gerði í eina tíð fyrir löngu síðan þegar ég fór inn á þing árið 1995. En það er liðin tíð.

Ég er tilbúinn í að tala á hverjum morgni til kl. 7. Ég er alveg til í það að vera að fram í ágúst ef því er að skipta. Ég vil nefnilega að meiri hluti þjóðarinnar sem kýs meiri hluta Alþingis fái að ráða. Ég er hlynntur lýðræði, frú forseti. Ég vil ekki að minni hlutinn nái völdum með einhverri valdabaráttu sem ekki er lýðræðisleg. Þess vegna mun ég standa mína plikt. Ég sé ekkert að því að halda ræðu kl. hálfsex að morgni og mér finnst það skemmtileg tilbreyting.

Frumvarpið sem við ræðum hér um við 2. umr. og nefndarálit frá hv. menntamálanefnd gengur út á að stofna hlutafélag um RÚV. Þetta er ekki endilega óskafrumvarpið mitt. Ég hef flutt frumvarp sem hefur verið miklu lengur í umfjöllun hjá hv. menntamálanefnd, þ.e. síðan 8. febrúar. En frumvarpið var lagt fram 18. október. Í því frumvarpi er gert ráð fyrir því að hlutafélagavæða RÚV og selja það að auki.

Ég veit að það er ekki meiri hluti á Alþingi fyrir sölu á RÚV, ekki enn þá, frú forseti. En tímarnir breytast sem betur fer. Fyrir nokkrum árum, fyrir um áratug, fannst mörgum í þessum sal bráðnauðsynlegt að opinberir starfsmenn afgreiddu peninga yfir deskinn í bönkunum. Menn gátu ekki ímyndað sér að aðrir en embættismenn sæju um þann verknað og þá gjörð. Ég man eftir miklum ræðum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hélt af því tilefni, þegar átti að fara að hlutafélagavæða bankana og selja þá. Þá var eins og himinn og jörð væru að falla saman. Alls konar óáran átti að dynja yfir. En auðvitað kemur í ljós að ríkið á ekkert að standa í þessum viðskiptum frekar en því að reka útvarpsstöð, að sjálfsögðu ekki. Hvað er ríkið að gera með fjölmiðil? Það getur vel verið að Göbbels og fleiri slíkir hafi byrjað á því að nota fjölmiðla til að koma áróðri í gegn en það er löngu liðin tíð.

Einu sinni var meira að segja talið nauðsynlegt að opinberir starfsmenn framleiddu sement á Íslandi. Ég held að enginn sé á þeirri skoðun lengur. Ég hugsa að eftir fimm eða tíu ár muni menn furða sig á því að nokkur skuli hafa látið sér detta í hug að ríkið ætti að reka fjölmiðil, sem auk þess verður alltaf pólitískur vegna þess að ríkið er í eðli sínu pólitískt. Útvarpsráð verður alltaf pólitískt.

Ég ætla rétt aðeins að ræða örstutt um frumvarp mitt. Ég gerði það reyndar í 1. umr. þannig að ég ætla ekki að endurtaka mig. Ég ætla ekki að falla í þann pytt sem margir þeir ræðumenn sem hér hafa talað í umræðunni í dag, í kvöld og í nótt, hafa fallið í, að fara hring eftir hring og ræða alltaf sömu hlutina. Ég ætla ekki að minnast á það en má til með að nefna eina hugmynd sem nefnd er í frumvarpi mínu, þ.e. um skattlagninguna. Ég held að hún sé miklu betri en hugmyndin í frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra. Sú hugmynd gengur einfaldlega út á að lækka persónuafslátt, það kemur nákvæmlega eins út og er miklu einfaldari framkvæmd. Það kemur betur út og leiðir ekki til þess furðulega fyrirbæris sem annars verður, að ef menn fara rétt yfir mörkin sem eru í dag um 800 þús. kr., þ.e. frítekjumarkið á ári, ef þeir fara eina krónu umfram þá borgi þeir 20 þús. kr. í skatt. Það er sennilega hæsti jaðarskattur sem til er. Ég vonast til að hv. menntamálanefnd ræði frumvarpið mitt áfram og sérstaklega skattlagningarþáttinn.

Menn hafa í kvöld rætt mikið um að upplýsingalög gildi ekki um hlutafélög en þau gildi um stofnanir ríkisins. Í dag var dreift nefndaráliti og tillögum nefndar, hv. efnahags- og viðskiptanefndar, sem ég veiti forstöðu og þar er einmitt tekið á vandamálinu með opinber hlutafélög. Þar er gert ráð fyrir því að kjörnir fulltrúar eigenda, þ.e. þingmenn þegar ríkið er eigandi eða sveitarstjórnarmenn þegar sveitarstjórn er eigandi, megi mæta á aðalfundi og koma með skriflegar fyrirspurnir, nákvæmlega eins og í upplýsingalögunum. Þá er búið að ná því fram. Menn geta spurt í opinberu hlutafélagi. Það er greinilegt að menn hafa ekki verið að hlusta á umræðuna í dag enda er náttúrlega ekki nokkur einasta hemja að vera með svona málþóf af því að það drepur alla umræðu. Ég ætlaði að fara í andvör við hv. þm. Mörð Árnason. Ég bara gat það ekki, hann talaði svo lengi og ég vissi ekki hvenær hann mundi klára. Öll málefnaleg umræða dettur niður auk þess sem maður heldur ekki út að hlusta á menn tala í sex tíma, aftur og aftur, hring eftir hring. (ÖJ: Það er afskaplega fróðlegt að hlusta á þig.) Það ætla ég að vona.

Þingmönnum hefur borist ályktun almenns starfsmannafundar um nýtt fyrirtæki í Ríkisútvarpinu. Hún er reyndar ódagsett, sem er mjög ófaglegt, en er að öðru leyti mjög jákvæð því að í henni segir að starfsmenn RÚV hafi um árabil þolað láglaunastefnu. Ég veit það ekki. Það getur vel verið, frú forseti. En það er þá ákveðin von, ef RÚV verður selt, um að hið sama gerist og í bönkunum, að launin margfaldist. Þeir vonast kannski til þess, ég veit það ekki. Það er meira að segja orðið vandamál í bönkunum hvað launin hafa hækkað mikið vegna þess að lífeyrisrétturinn er farinn að sliga þá. Það á sérstaklega við um eftirlaunaþega. Svo segja starfsmennirnir að þeir skori á Alþingi að eyða óvissu um stofnunina með skiljanlegum lögum sem dugi. Við erum einmitt að gera það. Ég sé því ekki annað en þetta sé mjög jákvæð ályktun.

Hins vegar verð ég að setja spurningarmerki við samstarf hv. þm. Ögmundar Jónassonar við BSRB. Hann er formaður þar og hefur beitt þeim samtökum mjög pólitískt. Hann hefur breytt þeim samtökum í pólitísk samtök. Nú væri það allt í lagi ef fólk gæti gengið í þau samtök, sem það vilja, og þeir farið út sem það vilja. En ég hef fengið símtöl frá mjög mörgum opinberum starfsmönnum sem neyðast til að borga til þessara samtaka til að fjármagna áróður gegn eigin skoðunum. Þeir eru látnir fjármagna áróður gegn eigin skoðunum. Ef það er ekki skoðanakúgun af verstu gerð, frú forseti, þá veit ég ekki hvað á að kalla það.

Því hefur verið haldið fram að BSRB hafi verið á móti vatnalagafrumvarpinu. Fjöldi manns í þessu landi er hlynntur vatnalagafrumvarpinu og margir þeirra eru opinberir starfsmenn. Þeir eru látnir fjármagna svona áróður gegn eigin sannfæringu. Þetta gengur ekki, frú forseti. Þetta gengur ekki og þarna er hreinlega verið að misnota stéttarfélögin. Það er meira að segja lagaskylda að borga í þessi stéttarfélög til hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þrátt fyrir að menn vilji ekki vera félagsmenn. Þeir komast ekki hjá því að fjármagna þennan ósóma.

Ég ætla ekki að ræða eins lengi og margir aðrir en nú lendi ég í því að þurfa að greiða atkvæði um þetta frumvarp. Ég er ekki vanur því að sitja hjá við frumvörp, frú forseti, því að ég tek afstöðu til mála. Ég tel það vera hlutverk mitt. Ég tel að þetta frumvarp sé skref í áttina og ég mun því styðja það. Ég held að það sé betra en að sjálfsögðu verður það alltaf þannig, sama hvort RÚV er hlutafélagavætt eða ekki, að það verður alltaf meiri hluti á Alþingi sem ræður hvernig fer. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði í ræðu sinni aftur og aftur og talaði um orðin sem Framsóknarflokkurinn hefði fallið fyrir, þ.e. að RÚV hf. yrði ekki selt. Hann var alltaf að gagnrýna þá fyrir það en þetta orð heldur að sjálfsögðu svo lengi sem meiri hluti er fyrir því á Alþingi. Ef meiri hluti myndast á Alþingi fyrir því að selja RÚV seinna meir, þegar menn eru farnir að átta sig á að ríkið á ekki að standa í svona bisness, þá verður þetta að sjálfsögðu afnumið hvort það sem það er hlutafélag eða stofnun í ríkinu. Það breytir engu. Ef meiri hluti er á Alþingi fyrir að einkavæða RÚV þá verður það gert. Ef það er ekki meiri hluti þá verður það ekki gert. Það verður ekki gert núna, sýnist mér. Þess vegna styð ég þetta frumvarp eins og það liggur fyrir. Ég vil heldur hafa fréttamenn og aðra sem um ræðir sem starfsmenn hlutafélags en opinbera starfsmenn eða embættismenn.

Mér þykir þessi umræða dálítið skrýtin, sérstaklega ræða hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Hann talar með svo mikilli tilfinningasemi um fyrirtækið. Þetta er bara fyrirtæki, það er ekkert annað. RÚV er enginn einstaklingur. Maður elskar ekki RÚV. Maður hatar ekki RÚV heldur. Fyrir mér er þetta bara fyrirtæki, eins og hvert annað fyrirtæki, spítali, síldarverksmiðja eða hvað það er. Ég sé ekki mun á því. En ég hvorki elska né hata RÚV. Ég legg það ekki í vana minn að elska eða hata fyrirtæki. En ég styð þetta frumvarp vegna þess að það stefnir í rétta átt.