132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Samráð við utanríkismálanefnd um varnarmál.

[12:05]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. utanríkisráðherra hefur hann sýnt það með verkum sínum að hann hefur haft mjög náið samráð og gott samstarf við utanríkismálanefnd sem ég vil sérstaklega þakka honum fyrir. Eins og hv. þingmenn heyrðu á því hvernig hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson, byggði upp mál sitt þá var það ekki á þeim forsendum að hæstv. utanríkisráðherra hefði ekki sýnt utanríkismálanefnd góðan samstarfsvilja heldur var hann með mælsku sinni að reyna að sýna fram á að sundurlyndi ríkti innan ríkisstjórnarinnar í þessu máli, sem er ekki rétt. Ég get fullvissað hv. þingmann um að hæstv. utanríkisráðherra og ég sem formaður utanríkismálanefndar munum áfram leggja okkur fram um að eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna og raunar alla utanríkismálanefndarmenn um þetta mál.