132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Málsókn vegna meintra brota á Svalbarðasamningnum.

511. mál
[12:31]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Ég hefði viljað sjá að það væri meiri gangur í þessu máli, að það gengi hraðar fyrir sig. Þetta mál er búið að taka mjög langan tíma. Það var búið að láta fara fram ákveðna vinnu áður en þetta ferli fór af stað. Það var farið í ákveðna vinnu á sínum tíma þegar við deildum hvað mest og harðast við Norðmenn um fiskveiðar í Barentshafi, og þegar skarst í brýnu milli Íslendinga og Norðmanna einmitt á Svalbarðasvæðinu var farið í þessa vinnu.

Mér finnst svolítið skrýtið að taka þurfi svona langan tíma að komast að niðurstöðu í þessu máli, hvaða leið eigi að fara til að halda á lofti sjálfsögðum og eðlilegum rétti okkar Íslendinga á þessu svæði. Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða og ekki bara fiskveiðihagsmuni heldur líka hagsmuni varðandi olíu og gas og hugsanlega fleiri náttúruauðlindir.

Ég minni á að þessa dagana eru í raun og veru að gerast stórtíðindi til að mynda við Norður-Noreg. Norðmenn eru að fara út í umfangsmikla olíuvinnslu og gasvinnslu við Finnmörku í Norður-Noregi. Margir eru sannfærðir um það, og það hefur verið í fréttum, að hugsanlega séu einar stærstu, ónýttu olíubirgðir heimsins í dag einmitt faldar undir botni Barentshafs. Eyjaklasinn Svalbarði er í Barentshafi. Þarna eru miklir hagsmunir í húfi.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki væri hugsanlega hægt að leita leiða til að samninga við Norðmenn í þessum málum. Hefur það verið fullreynt að leita einhvers konar samninga við Norðmenn í þessum málum? Við vitum það, bæði ég og eflaust líka hæstv. utanríkisráðherra, jafnmiklir Noregsvinir og við erum, að við eigum jú mjög mikla og góða hagsmuni og að mörgu leyti mikla og góða samleið með Norðmönnum. Því langar mig að spyrja þeirrar spurningar: Er einhver möguleiki á að hægt sé að semja um þessa hluti?