132. löggjafarþing — 100. fundur,  5. apr. 2006.

Lokun veiðisvæða.

468. mál
[12:43]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög þörf fyrirspurn. Það er sjálfsagður og eðlilegur hlutur að við höfum þessi mál til stöðugrar endurskoðunar. Svæðalokanir er ein af þeim breytum sem við getum notað til stjórna fiskveiðum. Það er ekki þar með sagt að svæðalokanir eigi alltaf endilega rétt á sér. Það er með þær eins og mörg önnur mannanna verk að þær geta verið misjafnlega vel heppnaðar.

Ég hefði sjálfur viljað sjá hér útfærslu á fiskveiðistjórn á Íslandsmiðum sem væri eins og frændur okkar og vinir í Færeyjum gera. Þeir beita einmitt svæðalokunum. Þeir beita síðan sóknarstýringu og veiðarfærastýringu og það hefur gefist vel. Svæðastýringin er eins og ég sagði áðan, ein af þeim breytum sem við getum notað. Ég verð þó að segja að það hlýtur að vera kominn tími til að endurskoða margar af þeim lokunum sem við beitum við Ísland í dag, því að þær eru mjög umfangsmiklar og margar þeirra hafa verið í gildi í mjög langan tíma. Þetta eru atriði sem við verðum alltaf að vera með til stöðugrar endurskoðunar. Við þurfum líka að fara að innleiða nýja (Forseti hringir.) hugsun í fiskveiðistjórnina, þ.e. að hugsa meira um vistfræði.